Categories
Fréttir

Tryggjum öruggari knattspyrnu- og fjölnotaíþróttahús

Deila grein

06/03/2024

Tryggjum öruggari knattspyrnu- og fjölnotaíþróttahús

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins hættulegar slysagildrur í knattspyrnu- og fjölnotaíþróttahúsum, svo sem „óvarðar járnstoðir aftan við endalínur knattspyrnuvallanna en mögulega er fleira í þessum húsum sem þarfnast skoðunar með tilliti til öryggis notenda“. Sagði hún stoðirnar verið varðar í sumum húsum og þá þurft alvarlegt slys til.

„Iðkendur, börn sem fullorðnir, sem lenda á þessum stoðum á fullri ferð geta slasast illa. Kostnaður við öruggari frágang er óverulegur í samhengi við byggingarkostnað, rekstrarkostnað eða hættuna á alvarlegu slysi.

Ég hef í nokkur ár vakið máls á þessu í tveggja manna tali við fólk sem mér hefur fundist líklegt til að beita sér fyrir úrbótum. Það hefur ekki skilað miklu þó að margir telji úrbóta þörf en líklega vantar viðmið fyrir mat á öryggi og fyrirmæli til þess að gripið sé til markvissra aðgerða,“ sagði Líneik Anna.

Öryggisreglur ekki ná utan um þennan þátt, a.m.k. sé „ekki hægt að sjá af reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga, reglugerð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis um öryggi leikvalla og leiksvæða eða eftirlit með þeim eða í reglum menntamálaráðherra um öryggi í íþróttahúsum né byggingarreglugerð.“

Þarna er viðfangsefni sem fellur á milli ráðuneyta, sveitarfélaga og íþróttahreyfingarinnar.

„Ég skora því á stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, í samvinnu við íþróttafélögin að grípa til ráðstafana og jafnframt að móta reglur til framtíðar um frágang í kringum vellina. Jafnframt mun ég leggja fram fyrirspurn til hæstv. mennta- og barnamálaráðherra varðandi málið,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Knattspyrnu- og fjölnotaíþróttahús hafa valdið byltingu í möguleikum til ýmiss konar íþróttaiðkunar innan húss yfir veturinn hér á landi en í sumum þessara húsa eru því miður hættulegar slysagildrur. Þá hef ég sérstaklega í huga óvarðar járnstoðir aftan við endalínur knattspyrnuvallanna en mögulega er fleira í þessum húsum sem þarfnast skoðunar með tilliti til öryggis notenda. Í sumum húsunum hafa stoðirnar verið varðar en því miður hefur stundum þurft alvarlegt slys til. Iðkendur, börn sem fullorðnir, sem lenda á þessum stoðum á fullri ferð geta slasast illa. Kostnaður við öruggari frágang er óverulegur í samhengi við byggingarkostnað, rekstrarkostnað eða hættuna á alvarlegu slysi. Ég hef í nokkur ár vakið máls á þessu í tveggja manna tali við fólk sem mér hefur fundist líklegt til að beita sér fyrir úrbótum. Það hefur ekki skilað miklu þó að margir telji úrbóta þörf en líklega vantar viðmið fyrir mat á öryggi og fyrirmæli til þess að gripið sé til markvissra aðgerða. Í fljótu bragði sýnist mér öryggisreglur ekki ná utan um þennan þátt. Það er alla vega ekki hægt að sjá af reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga, reglugerð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis um öryggi leikvalla og leiksvæða eða eftirlit með þeim eða í reglum menntamálaráðherra um öryggi í íþróttahúsum né byggingarreglugerð. Þarna er viðfangsefni sem fellur á milli ráðuneyta, sveitarfélaga og íþróttahreyfingarinnar. Ég skora því á stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, í samvinnu við íþróttafélögin að grípa til ráðstafana og jafnframt að móta reglur til framtíðar um frágang í kringum vellina. Jafnframt mun ég leggja fram fyrirspurn til hæstv. mennta- og barnamálaráðherra varðandi málið.“