Land er og hefur verið auðlind í augum Íslendinga frá upphafi byggðar og bera margar af Íslendingasögunum þess merki að barátta um land og eignarhald á því hafi verið einn af meginásteytingssteinum í gegnum sögu okkar. Þetta segir Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og ritari Framsóknar, í grein í Morgunblaðinu 18. júlí sl.
Frá landnámsöld hefur það verið metnaður Íslendinga að það sé skýrt hvað landeigendur eiga með rétti, segir Jón Björn. „Skapast hefur mikil umræða í kjölfar uppkaupa bresks auðmanns á jörðum í Vopnafirði og Norður-Þingeyjarsýslu, þar sem búið er að kaupa upp allt að því heilu laxveiðiárnar og vatnasvæði þeirra. Hefur því eðlilega fylgt mikil gagnrýni á lagasetningu og þann ramma sem skapaður hefur verið vegna jarðakaupa á Íslandi í kjölfar breytinga á jarðalögunum sem gerð voru í upphafi þessarar aldar. Þá hefur hluti af gagnrýni þeirri sem komið hefur fram vegna innleiðingar orkupakka þrjú, hér á landi, einnig snúið að eignarhaldi á auðlindum og vatnsréttindum á Íslandi.“
„Nauðsynlegt er því í þessu ljósi að fara að styrkja þær stoðir sem snúa að lagasetningu vegna bújarða og slíkt getur ekki lengur beðið í tæknilegum öngstrætum stjórnsýslunnar eins og verið hefur síðustu ár. Jarðalögum þarf að breyta þannig að hægt sé að setja ákveðnar reglur varðandi eignarhald á jörðum og að ekki sé hægt að selja auðlindir okkar úr landi,“ segir Jón Björn.
Categories
„Getur ekki lengur beðið í tæknilegum öngstrætum stjórnsýslunnar“
19/07/2019
„Getur ekki lengur beðið í tæknilegum öngstrætum stjórnsýslunnar“