Categories
Fréttir

„Gjörið svo vel, reddið þessu“

Deila grein

24/05/2023

„Gjörið svo vel, reddið þessu“

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar, var málshefjandi í sérstakri umræðu um styttingu vinnuvikunnar á Alþingi.

Í kjarasamningum stjórnvalda og stéttarfélaga 2019 var gert samkomulag um verkefnið „Betri vinnutími“. Því er ætlað að vera útfærslu vinnutíma, með möguleika á mismunandi styttingu vinnuvikunnar, þannig að mest getur hún styst um allt að fjórar klukkustundir á viku.

Sett voru fram nokkur markmið með verkefninu, s.s. að bæta vinnustaðamenningu og starfsánægju, auka skilvirkni, bæta þjónustu og tryggja sveigjanleika starfsmanna. En forsenda breytinganna var að hvort tveggja þjónustustig og framleiðni yrði sú sama og áður eða betri.

Ingibjörg telur nú er rúm tvö ár eru liðin frá því að styttingin tók gildi, teldi hún „tímabært að staldra aðeins við og skoða hvaða reynslu við höfum af fyrirkomulaginu, útfærslu þess og framtíðaráformum hvað varðar vinnutíma starfsmanna.“

„Í skýrslu KPMG, sem gefin var út í nóvember í fyrra fyrir tilstilli fjármála- og efnahagsráðuneytisins, var staðan á „Betri vinnutíma“ metin og kostir og gallar tilgreindir eftir samtöl, greiningar og kannanir,“ sagði Ingibjörg.

„Af skýrslunni er ljóst að upplýsingar um ýmsa mikilvægi þætti eru enn óljósar hvað varðar afrakstur í kjölfar betri vinnutíma. Illa hefur gengið að greina mælanlegan árangur þar sem engar kröfur þess efnis voru gerðar til stjórnenda og stofnana. Eftirfylgni eða nánari rýni var engin af hálfu ráðuneytanna. Ekki var lögð áhersla á að taka núllpunkt eða greina stöðuna í upphafi styttingarinnar svo hægt væri að greina afköst og gæði starfsemi hverrar stofnunar fyrir sig. Því eru ansi margir þættir hér óljósir.“

„Flestar stofnanir ríkisins tóku þá ákvörðun að fara í hámark styttingar vinnuvikunnar þvert gegn ráðleggingum. Forræði yfir verkefninu og hlutverk aðila var heilt yfir óljóst og undirbúningstíminn var knappur. Það var í höndum hverrar stofnunar fyrir sig, stjórnenda þeirra og starfsmanna, að ákveða hvernig fyrirkomulagið væri. Í raun var það viðamikla verkefni að takast á við þær breytingar sem fólust í innleiðingunni fljótt komið í annarra manna hendur og í raun bara sagt: Gjörið svo vel, reddið þessu. En til að takast á við verkefnið hratt og vel þurfti mannauð, þekkingu og skipulag sem sumar stofnanir glímdu við og því fór mikill tími innan hverrar stofnunar í útfærslu, eins og kemur einmitt fram í skýrslu KPMG,“ sagði Ingibjörg.

„Einu haldbæru gögnin sem við höfum í höndunum eru ánægjukannanir starfsmanna með fyrirkomulagið sem koma jákvætt út. Að sjálfsögðu er ánægjulegt að starfsmenn hafi meiri tíma utan vinnustaðar til að sinna öðrum verkefnum, við sækjumst eftir því; eiga gæðastundir með fjölskyldu og vinum og skapa tækifæri fyrir ungar fjölskyldur til að geta jafnvel sótt börnin sín fyrr á leikskóla eða dagvistun. Hins vegar voru fleiri forsendur tilgreindar í upphafi verkefnisins, t.d. að þjónustustig og framleiðni starfsmanna minnki ekki.“

„Í skýrslu KPMG kemur fram að vísbendingar séu um að þjónustustig hafi heilt yfir lækkað í kjölfar styttingar vinnuvikunnar. Því kemur til álita hvort markmiðum um gagnkvæman ávinning af betri vinnutíma hafi verið náð. Hugmyndin um styttingu vinnuvikunnar er góð og gild en framkvæmdin hefur ekki gengið á öllum starfsstöðvum án þess að hafa áhrif á þjónustustig eða að hún hefur kallað eftir auknu fjármagni. Það á sérstaklega við um stofnanir sem bjóða aðallega upp á vaktavinnu en um þriðjungur ríkisstarfsmanna vinnur vaktavinnu, sem eflaust má einnig heimfæra á sveitarfélög. Á slíkum stöðum myndast mönnunargat í kjölfar betri vinnutíma sem kallar á fleiri stöðugildi til að viðhalda þjónustustigi. Við vitum að launakostnaður hefur hækkað og stöðugildum fjölgað með tilheyrandi áhrifum á fjárhag ríkisins, sveitarfélaga og einkaaðila. Þar hafa margir þættir áhrif. En þær stofnanir sem báru mestan þunga af þessu voru einmitt þær sem urðu mest fyrir áhrifum af heimsfaraldi Covid-19.“

„Þó má velta fyrir sér hvaða áhrif stytting vinnuvikurnar hefur haft á þessa þróun. Engin opinber gögn sýna bein tengsl, en það væri áhugavert að vita hvort hæstv. ráðherra lumi á slíkum gögnum og þá sérstaklega hvað varðar heilbrigðisstofnanir.“

„Af öllu þessu er skýrt að mörgum spurningum er ósvarað. Stytting vinnuvikunnar hefur leitt til jákvæðrar þróunar á starfsánægju, sem skiptir máli. Hins vegar er nauðsynlegt að við fáum haldbærar upplýsingar um þróun annarra markmiða verkefnisins. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvernig verkefnið hafi gengið að hans mati með tilliti til þeirra markmiða sem sett voru í upphafi samninga og innleiðingar,“ sagði Ingibjörg að lokum.