Tvö ár eru liðin frá því að Grindavík var rýmd vegna jarðhræringa. Föstudagskvöldið stendur ljóslifandi í minni flestra Íslendinga, en þá þurftu íbúar bæjarins að yfirgefa heimili sín. Slíkir atburðir eru afar þungbærir en sem betur fer fátíðir í sögulegu samhengi. Íbúar Grindavíkur hafa sýnt einstaka þrautseigju og seiglu í þessum aðstæðum, bæði í því að finna sér nýjan samastað en um leið að huga að framtíð síns bæjar. Samstarf og samvinna við íbúa Grindavíkur var afar mikilvæg í öllum þessum hremmingum. Margt gekk vel en sumt hefði verið hægt að gera betur. Aðalatriðið er að þegar vá stendur fyrir dyrum er brýnt að við stöndum saman og setjum okkur í spor annarra.
Saga Grindavíkur er merk en byggð hefur verið þar frá landnámi. Landnámsmenn í Grindavíkurhreppi voru þeir Molda-Gnúpur Hrólfsson og Þórir Vígbjóðsson. Þrátt fyrir hrjóstrugt og vatnssnautt land í gegnum aldirnar, þá nýttu Grindvíkingar sér auðlindir sjávar og fjörunnar til matar og fóðurs. Fiskur, söl, þang, fjörugrös og selir veittu mikilvægan viðbótarafla þegar hey og bithagar brugðust. Með dugnaði gátu Grindvíkingar lifað af í harðbýlu landi. Atvinnulífið hefur ávallt verið öflugt í Grindavík og sést það einna skýrast á öflugum fyrirtækjum bæjarins.
Jarðhræringarnar samtímans eru ekki eina áfallið sem íbúar Grindavíkur hafa þurft að lifa með. Um Jónsmessuleytið árið 1627 varð sá atburður sem lengi sat í minni Grindvíkinga en það var Tyrkjaránið svonefnda. Þá gerðu sjóvíkingar frá Alsír strandhögg á Íslandi, og bar eitt af fjórum skipum þeirra að landi í Grindavík. Talið er að sjóvíkingarnir hafi numið á brott um tólf einstaklinga frá Grindavík, en alls er talið að 400 manns hafi verið rænt af landinu öllu. Framsæknir einstaklingar í Grindavík og víðar á landinu standa fyrir því að minnast þessara atburða á næsta ári.
Þessi misserin er líf smám saman aftur að fæðast í hinum merka bæ Grindavík. Endurreisnin er hafin og afar ánægjulegt sjá dugnaðinn sem er þar á ferð. Ljóst er í mínum huga að fólkið frá Grindavík þurfti að fást við aðstæður sem reyndu gríðarlega á þrek þeirra og sálu. Við sem búum á þessu gjöfula landi en erfiða verðum ávallt að hafa það hugfast að hugsa um náunga okkar og sérstaklega þegar neyð blasir við. Þrátt fyrir að tvö ár séu liðin frá þessum náttúruhamförum eru þau líklega sem heil eilífð í huga þeirra sem þurftu að yfirgefa heimili sín. Ljóð Einars Benediktssonar á vel við:
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. nóvember 2025.
