Categories
Fréttir Greinar

Grunnur hefur verið lagður fyrir góða framtíð

Deila grein

02/01/2025

Grunnur hefur verið lagður fyrir góða framtíð

Úr útsæ rísa Íslands fjöll
með eld í hjarta þakin mjöll
og brim við björg og sand.
Þó mái tím­inn margra spor
þá man og elsk­ar kyn­slóð vor
sitt fagra föður­land.

Á þess­um kröft­ugu lín­um hefst ljóð Davíðs Stef­áns­son­ar sem flest­ir ef ekki all­ir karla­kór­ar lands­ins hafa ein­hvern tím­ann haft á efn­is­skrám sín­um und­ir lagi Páls Ísólfs­son­ar. Við búum við það, Íslend­ing­ar, að nátt­úr­an er lif­andi og oft á tíðum grimm. Hún er á sama tíma ástæðan fyr­ir vel­sæld okk­ar, ástæðan fyr­ir því gríðarlega stökki sem ís­lenskt sam­fé­lag tók á síðustu öld inn í nú­tím­ann. Þær kyn­slóðir sem fædd­ar voru um og eft­ir alda­mót­in 1900 voru fram­sýn­ar, þær voru dug­leg­ar og við eig­um þeim mikið að þakka. Og við höf­um lært mikið af þeim, ekki síst það að það er eitt að vera fram­sýnn og annað að hafa kraft og þor til að fram­kvæma þær hug­mynd­ir sem kvikna.

Ákalli um breyt­ing­ar var svarað

Ára­mót eru mik­il­væg tíma­mót því þau kalla á að við tök­um okk­ur tíma og pláss til að horfa yfir sviðið, gera upp fortíðina og leggja drög og drauma að framtíðinni. Árið 2024 var mikið um­brota­ár í ís­lensku sam­fé­lagi. Þjóðin kaus sér for­seta í byrj­un sum­ars og síðan brast á með þing­kosn­ing­um í lok nóv­em­ber eft­ir að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn sleit sam­starf­inu við okk­ur í Fram­sókn og Vinstri­hreyf­ing­una – grænt fram­boð. Niðurstaða kosn­ing­anna var af­ger­andi: Rík­is­stjórn­ar­flokk­un­um var hafnað og þeir flokk­ar sem boðuðu breyt­ing­ar unnu sig­ur og hafa nú náð sam­an um rík­is­stjórn. Ég óska þeirri rík­is­stjórn velfarnaðar í störf­um sín­um og heiti því að Fram­sókn mun stunda öfl­uga og mál­efna­lega stjórn­ar­and­stöðu.

Öflug stjórn við erfiðar aðstæður

Ákallið um breyt­ing­ar var sterkt í kosn­inga­bar­átt­unni. Trú­in á þeirri rík­is­stjórn sem hafði starfað frá haust­inu 2017 hafði dofnað veru­lega enda má segja að síðasta árið hafi þjóðin búið við stjórn­ar­kreppu. Þótt sam­starfið hafi súrnað ansi hratt á síðara kjör­tíma­bili rík­is­stjórn­ar­inn­ar tók­um við í Fram­sókn þá af­stöðu að mik­il­væg­ara væri að ganga hnar­reist til verks og láta ekki sund­ur­lyndi hafa eyðandi áhrif á þau brýnu verk­efni sem flokk­arn­ir þrír höfðu komið sér sam­an um í stjórn­arsátt­mála að hrinda í fram­kvæmd. Við ákváðum, eðli­lega, að láta þjóðar­hag hafa for­gang um­fram hags­muni flokks­ins.

Breyt­ing­arn­ar á þingi eru veru­leg­ar en mik­il nýliðun varð í kosn­ing­un­um. Það var mik­il reynsla sem bjó í síðustu rík­is­stjórn þar sem for­menn stjórn­ar­flokk­anna höfðu all­ir á ein­hverj­um tíma setið í stóli for­sæt­is­ráðherra. Sú reynsla kom sér vel í þeim stór­kost­legu áskor­un­um sem rík­is­stjórn­in stóð frammi fyr­ir á þeim sjö árum sem hún var við völd. Flug­fé­lagið Wow air féll með lát­um á fyrra kjör­tíma­bil­inu. Heims­far­ar­ald­ur geisaði með lam­andi áhrif­um á sam­fé­lag og at­vinnu­líf. Rúss­ar réðust inn í Úkraínu. Og rýma þurfti eitt öfl­ug­asta bæj­ar­fé­lag lands­ins, Grinda­vík, vegna elds­um­brota. Svo eitt­hvað sé nefnt.

Síðustu ár hafa verið ár um­bóta

Ég er stolt­ur af þeim ár­angri sem Fram­sókn náði í störf­um sín­um í rík­is­stjórn frá ár­inu 2017 þegar þetta óvenju­lega stjórn­ar­mynst­ur varð til. Fram­lög til sam­göngu­mála voru stór­auk­in, tíma­móta­sam­komu­lag um upp­bygg­ingu í sam­göng­um á höfuðborg­ar­svæðinu náðist með sam­göngusátt­mál­an­um og und­ir­bún­ings­vinnu á Sunda­braut gekk vel, rann­sókn­ar­vinnu er nán­ast lokið og get­ur útboðsfer­ill farið í gang þegar leiðar­val ligg­ur fyr­ir og breyt­ing á aðal­skipu­lagi hef­ur verið aug­lýst. Þá er Reykja­nes­braut­in að verða tvö­föld allt að Fitj­um í Reykja­nes­bæ, sam­vinnu­verk­efnið um Ölfusár­brú er komið af stað, með verk­efn­inu Ísland ljóstengt, sem ég er einna stolt­ast­ur af á mín­um ferli, hef­ur verið komið á ljós­leiðara­teng­ingu í öll­um sveit­um lands­ins, af­slátt­ur fyr­ir íbúa lands­byggðar­inn­ar með Loft­brú hef­ur fest sig í sessi og byggðamál­in eru orðin mik­il­væg­ur þátt­ur í starfi Stjórn­ar­ráðsins, nokkuð sem ég hef alltaf lagt mikla áherslu á. Und­ir for­ystu Fram­sókn­ar í hús­næðismál­um hef­ur tek­ist að byggja upp nor­rænt hús­næðis­kerfi sem trygg­ir þúsund­um fjöl­skyldna ör­uggt þak yfir höfuðið. Nú rík­ir mun betra jafn­vægi á hús­næðismarkaði en áður og auk þess lagði ríkið til í haust land und­ir bygg­ingu 800 íbúða í Reykja­nes­bæ. Stór­sókn í heil­brigðismál­um hef­ur átt sér stað síðustu árin und­ir stjórn Will­ums Þórs sem hef­ur ekki síst komið fram í jöfn­un aðgeng­is að kerf­inu með samn­ing­um við all­ar heil­brigðis­stétt­ir sem ósamið hafði verið við um ár­araðir, auknu fjár­magni til mála­flokks­ins og bætt­um rekstr­ar­skil­yrðum Land­spít­al­ans. Mark­viss vinna Lilju Dagg­ar í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu í mál­efn­um ferðaþjón­ust­unn­ar, auk­inn stuðning­ur við menn­ingu og list­ir og 35% end­ur­greiðslan hef­ur styrkt stoðir kvik­mynda­gerðar á Íslandi. Ásmund­ur Ein­ar setti mál­efni barna á dag­skrá, ekki síst með far­sæld­ar­lög­un­um sem hafa þegar bætt aðstöðu þeirra barna sem veik­ust eru fyr­ir í ís­lensku sam­fé­lagi og ekki má held­ur gleyma stuðningi hans við íþrótt­irn­ar með nýrri Þjóðar­höll og aukn­um stuðningi við yngri landslið okk­ar. Allt þetta og meira til er á af­reka­skrá Fram­sókn­ar frá ár­inu 2017. Og á þessu geta rík­is­stjórn­ir framtíðar­inn­ar byggt til hags­bóta fyr­ir þjóðina.

Fleiri stoðir þýða aukið jafn­vægi

Staða Íslands er góð, hag­kerfið er því næst í jafn­vægi með hátt at­vinnu­stig, lítið at­vinnu­leysi og framtíðin er björt ef rétt er haldið á spöðunum. Fyrri rík­is­stjórn náði stjórn á verðbólg­unni sem fór á flug eft­ir heims­far­ald­ur og stríð í Úkraínu. Við sjá­um fram á mjúka lend­ingu hag­kerf­is­ins, sjá­um fram á lækk­andi verðbólgu og lægri vexti. Aðhald í rík­is­fjár­mál­um er mik­il­væg­ur þátt­ur í þeim ár­angri sem fyrri rík­is­stjórn náði í bar­átt­unni við verðbólg­una. Það sem var þó ekki síður mik­il­vægt var að með aðkomu hins op­in­bera náðust kjara­samn­ing­ar til fjög­urra ára á al­menn­um markaði.

Gat­an er því nokkuð greið fyr­ir all­hraðar vaxta­lækk­an­ir á nýju ári.

Já, framtíðin er björt. Þeirri rík­is­stjórn sem af­henti val­kyrj­un­um lykl­ana að Stjórn­ar­ráðinu fyr­ir jól tókst að skapa þær aðstæður að nú eru fimm stoðir und­ir efna­hag lands­ins. Hin nýja stoð hug­vits og skap­andi greina er ört vax­andi og veit­ir ekki aðeins aukn­ar tekj­ur inn í þjóðarbúið held­ur skap­ar ný og spenn­andi störf fyr­ir ungt fólk. Fleiri stoðir þýða aukið jafn­vægi, nokkuð sem stefnt hef­ur verið að í lang­an tíma og er nú að nást.

Óvissu­tím­ar

Við lif­um á tím­um þar sem mik­il óvissa rík­ir á alþjóðasviðinu. Það geis­ar styrj­öld í Evr­ópu. Fjölda fólks er fórnað á víg­vell­in­um í Úkraínu. Það er nöt­ur­legt að horfa upp á Rússa, sögu­legt stór­veldi sem nú stend­ur á brauðfót­um og er stýrt af manni sem virðist svíf­ast einskis til að halda stöðu sinni. Hryll­ing­ur­inn á Gasa held­ur áfram. Sýr­land hef­ur losað sig við hinn hræðilega Assad en ástandið er viðkvæmt. Í janú­ar sest á ný í stól for­seta Banda­ríkj­anna maður sem virðist horfa öðrum aug­um á hlut­verk Banda­ríkj­anna í sam­fé­lagi þjóðanna en flest­ir sem í þeim stól hafa setið. Ef sumt af því sem hann hef­ur sagst hafa áform um nær fram að ganga get­ur það haft mik­il áhrif á viðskipti í heim­in­um og þar með á lífs­kjör okk­ar hér á landi. Sam­band okk­ar við Banda­rík­in hef­ur alltaf verið gott og mik­il­vægt er að hlúa að því sama hver sit­ur þar í for­sæti.

Kæri les­andi.

Eitt er það sem mik­il­væg­ast er fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag og það er að öðlast ró og ham­ingju. Árið 2024 ein­kennd­ist af óróa og of­beldi, nokkuð sem við get­um ekki þolað. Við þurf­um að hlúa vel að fjöl­skyld­um, þurf­um að hlúa vel að börn­un­um okk­ar, fyrstu kyn­slóðinni sem elst upp við ótrú­leg­ar breyt­ing­ar sem tækn­in hef­ur gert á sam­skipt­um okk­ar og sam­fé­lagi. Besta leiðin til þess er að hver og einn horfi inn á við, veiti fólk­inu sínu at­hygli og hlýju, leggi á sig það sem þarf til að skapa sterk tengsl við sína nán­ustu. Það kem­ur ekk­ert í staðinn fyr­ir það að eiga góða og sterka fjöl­skyldu sem hægt er að treysta á í lífs­ins ólgu­sjó.

Ég óska þér, les­andi góður, gleðilegs nýs árs. Megi Guð og gæf­an fylgja þér árið 2025.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2024.