Mikilvægasta fjárlagafrumvarp þessarar ríkisstjórnar var kynnt í gær. Framganga fjármála- og efnahagsráðherra bar þess merki að hann væri búinn að ná tökum á ríkisfjármálunum og þess mæti vænta að verðbólguvæntingar myndu lækka í kjölfarið. Hins vegar þegar rýnt er í frumvarpið þá vekur það undrun að meiri metnaður skuli ekki hafa ráðið för og að hallalaus ríkisfjármál hafi ekki litið dagsins ljós. Allar forsendur eru fyrir hendi og áföll síðustu ára að baki. Í slíku efnahagsumhverfi hefði verið eðlilegt að fjárlagafrumvarpið 2026 sýndi meiri festu.
Mikil tekjuaukning verður á árinu 2025 eða um 80 ma.kr. Af einstökum sköttum er mesta breytingin í virðisaukaskatti, eða um 20 ma.kr. Gert er ráð fyrir að tekjur af fjármagnstekjuskatti hækki ásamt vaxtatekjum. Áætlaðar arðgreiðslur ríkisfyrirtækja eru einnig töluvert hærri. Stærstur hluti af þessari jákvæðu þróun er sú áhersla sem fyrri ríkisstjórn lagði á verðmætasköpun. Þessu ber að fagna. Því hefði hiklaust verið hægt að ná hallalausum fjárlögum árið 2026. Hins vegar ákveður ríkisstjórnin að almenna aðhaldskrafan sé 1% á stofnanir hins opinbera en hún nær ekki til heilbrigðis- og öldrunarstofnana, skóla og löggæslu. Fljótt á litið nemur heildaraðhaldið um 15 ma.kr. og er mun lægra hlutfallslega en á milli áranna 2024 og 2025.
Megináherslur ríkisstjórnarinnar birtast skýrt í frumvarpi til fjárlaga. Í samanburði milli samþykktra fjárlaga 2025 og frumvarpsins fyrir 2026 má sjá að ákveðin málefnasvið fá verulega aukið vægi. Hlutfallslega hækkar fjárveiting til utanríkismála mest eða um 17% og langt umfram verðbólgumarkmið. Næstmesta hækkunin er til örorkumála og málefna fatlaðs fólks eða um 15%. Samtals nemur aukningin til þessara málaflokka mun meiru en aðhaldsaðgerðirnar. Aukningin til utanríkismála og örorkumála nemur um 25 ma.kr. meðan aðhaldsaðgerðir nema 15,1 ma.kr.
Þetta fjárlagafrumvarp mun ekki ná niður verðbólguvæntingum, sem er lykilatriði í því að Seðlabankinn geti lækkað stýrivexti. Meira þarf til á þessum tímapunkti. Ef fjárlögin hefðu beinst að því að örva framboð á húsnæði og skila hallalausum fjárlögum hefði skapast sterkari grundvöllur fyrir lægri verðbólgu og verðbólguvæntingar lækkað.
Miklar væntingar voru bundnar við fjárlagafrumvarpið 2026. Eftir tímabil erfiðra áfalla í efnahagsmálum á borð við heimsfaraldurinn og jarðhræringar á Reykjanesi var ég þess fullviss að fjármála- og efnahagsráðherra myndi nota tækifærið og skila hallalausum ríkisfjármálum, sérstaklega þegar tekjuaukinn nemur 80 ma.kr. Er þetta virkilega planið?
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. september 2025.