Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, var í viðtali við þáttastjórndur Dagmála á mbl.is í síðustu viku. Í viðtalinu fór hann yfir helstu áherslumál Framsóknarflokksins fyrir þessar kosningar.
- Þáttinn Dagmál á mbl.is má sjá hér.
- KOSNINGAR 2021 – kosningasíða Framsóknar.
- Fjárfestum í fólki – upptaka frá kynningu Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns Framsóknar á málefnaáherslunum.
- Kosning utan kjörfundar – upplýsingar.
***
Sigurður Ingi Jóhannsson segir tækifæri felast í því að auka endurgreiðslur á kostnaði stórra kvikmyndaverkefna hér á landi. Það gæti skapað þúsundir starfa og aukið heildarumsvif í hagkerfinu. Hann sér fyrir að hlutfallið gæti farið í 35% en er 25% um þessar mundir.
100 milljarða verkefni í sigtinu
„Rökin fyrir þessu eru að á 10 árum gætum við verið komin með 10.000 manns sem störfuðu í þessum geira í stað 2.600. Þetta væri þá hluti af því að fara í þessa áttina,“ segir Sigurður Ingi og bætir við:
„Ég ætla að nefna þetta með eina kvikmynd. Miðað við þennan stuðning sem er, sem endurgreiðsla að við getum fengið hérna inn verkefni sem er hluti af kvikmynd eða einhverri þáttaröð sem er tekin hér. Hún getur verið t.a.m. 10 milljarðar. Og þá eru tveir og hálfur sem eru að fara út og þá eru eftir sjö og hálfur.“
Hann segir að þessi umsvif séu af hinu góða en að með því að auka áhuga erlendra fyrirtækja á að koma hingað til lands með stærri og heilstæðari verkefni, gæti það skilað miklum ábata fyrir íslenskt samfélag og ríkið. Nefnir hann dæmi þar um.
„ […] það var bara kvikmynd sem gerðist á Íslandi sem var tekin með þessum hætti, 10 milljarðar hér […] meðan hinn hlutinn fór til Írlands, öll upptakan en myndin gerðist á Íslandi. Ef öll myndin hefði verið tekin hér og við verið með 35% endurgreiðslu þá hefðu 100 milljarðar komið hingað inn. 35 hefðu farið út aftur en við værum með 65 milljarða hérna inni í hagkerfinu. Og hvað heldur þú að mikið af þeirri upphæð hefði runnið í ríkissjóð umfram þennan tvo og hálfan.“
Hægt að spara auglýsingakostnað ríkissjóðs á móti
Hann er þá spurður hvað það er sem réttlæti það að ríkissjóður leggi út í beinan kostnað við að niðurgreiða framleiðslukostnað stórra framleiðslufyrirtækja erlendis.
„Við erum að taka þátt í þessum leik sem er gerður í þessu. Af hverju erum við það? Auðvitað eru það áhugaverð störf sem þarna eru, vel borgandi og mikið af ungu fólki sem leitar inn í þennan geira. Þannig að þetta er svona hluti af framtíðinni. Afþreyingarsamfélaginu sem er öðruvísi en framleiðsludrifna samfélagið. En þetta styður svo mikið annað í sköpunarkerfinu. Þetta er auðvitað auglýsing fyrir ferðaþjónustuna sem ekkert annað. Við getum sparað peninga úr ríkissjóði að vera í beinum auglýsingum ef þetta yrði niðurstaðan.“
Er hann þá inntur svara við því hvort ríkissjóður eigi yfir höfuð að vera að dæla peningum í auglýsingar til þess að ýta undir aukin umsvif einkafyrirtækja í ferðaþjónustu.
„Við höfum tekið þátt í því. Við rekum jú Íslandsstofu, ekki satt.“
Ekki krani út úr ríkissjóði
Sigurður telur þó að þótt milljarðatugum yrði varið úr ríkissjóði til þess að styrkja kvikmyndaframleiðslu hér á landi þá yrði það ekki til þess að hægt væri að leggja Íslandsstofu niður.
„Ég er ekki að leggja það til. Ég er bara að segja að þarna verður til svo gríðarleg kynning á landi og þjóð. Líka fisknum okkar. Líka á öðrum vörum. Líka á þeirri ímynd sem við erum að selja um hreina Ísland og söguna og þar með annarri menningu þannig að þetta er einfaldlega gluggi inn í þennan geira. Ég veit, því ég hef verið að taka þessa umræðu býsna oft að margir í mínum ágæta samstarfsflokki, Sjálfstæðisflokki, líta á þetta sem krana út úr ríkissjóði. En ég var að útskýra fyrir ykkur hver munurinn er að fá 7,5 milljarða úr litlu verkefnunum eða að fá 65 milljarða af einu stóru verkefni og byggja upp um leið nýja atvinnugrein.“
Þá vakna spurningar um hvort yfirfæra mætti þessa nálgun á aðrar atvinnugreinar til þess að auka umsvifin í íslensku hagkerfi. Sigurður Ingi er allt annað en sannfærður um það.
Einstakur geiri sem skilar miklu
„Ég myndi ekki halda því fram að það væri hægt að nota þetta heilt yfir. Þetta er hins vegar staðreynd í þessum heimi og fyrir því eru ákveðnar ástæður eins og ég nefndi. Þetta er heimur þar sem einhvern veginn allir eru að fylgjast með. Þetta er heimur þar sem stór hluti af kynningu á löndum og hugmyndum fer fram. Þannig að það eru hliðarafurðir við þetta. Nei ég myndi ekki leggja til að við myndum endurgreiða útgjöld. Það yrði ekki mikið eftir þá.“
Hann opnar þó á þá hugmynd að svipaða nálgun mætti notast við í völdum atvinnugreinum.
„Já það er alveg, við erum auðvitað að leggja áherslur á það í þessum grænu fjárfestingum á fjárhagslega hvata og sóknarfæri. Og það ættum við að gera líka í slíkum verkefnum. Við erum með umhverfi fjárfestingarstuðnings við allskonar hluti go höfum nýtt þá í gegnum tíðina. Við eigum núna í þessum mæli að horfa á hið skapandi hagkerfi, hugverkahagkerfið til að bæta við fjórðu stoðinni og hins vegar þessa grænu fjárfestingu sem við erum að leggja mikla áherslu á […]”
***
Viðtalið við Sigurð Inga má sjá í heild sinni hér.