Categories
Fréttir Greinar

Hagræðing í bankakerfinu hefur ekki skilað sér til fólksins

Deila grein

02/10/2023

Hagræðing í bankakerfinu hefur ekki skilað sér til fólksins

Mik­il­væg­ar og gagn­leg­ar upp­lýs­ing­ar koma fram í nýrri skýrslu starfs­hóps er Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, skipaði til að meta gjald­töku og arðsemi viðskipta­bank­anna. Hópn­um var ætlað að greina tekju­mynd­un, þar á meðal þókn­an­ir, þjón­ustu- og vaxta­tekj­ur og vaxtamun viðskipta­bank­anna þriggja í nor­ræn­um sam­an­b­urði. Á manna­máli er spurn­ing­in hvort ís­lensk heim­ili greiði hlut­falls­lega meira fyr­ir al­menna viðskipta­bankaþjón­ustu en heim­ili ann­ars staðar á Norður­lönd­um.

Í ljós kem­ur að vaxtamun­ur viðskipta­bank­anna hef­ur verið að aukast. Það kem­ur fram í töl­um og gögn­um þegar upp­gjör bank­anna það sem af er ári eru skoðuð. Það verður að vera krafa okk­ar neyt­enda að bank­arn­ir minnki vaxtamun­inn og skipti þannig ávinn­ingn­um á sann­gjarn­ari hátt. Þá eru sum þjón­ustu­gjöld ógagn­sæ og ekki alltaf ljóst hvað neyt­end­ur eru að greiða fyr­ir. Það er óviðun­andi staða. Nefnt er dæmi um að gjald­taka ís­lensku bank­anna af kortaviðskipt­um í er­lendri mynt sé dul­in en hún veg­ur engu að síður þungt í út­gjöld­um heim­il­anna fyr­ir fjár­málaþjón­ustu. Þá seg­ir að geng­isálag bank­anna á korta­færsl­um skeri sig tölu­vert úr ann­arri gjald­töku því að álagið kem­ur hvergi fram í verðskrám bank­anna og virðist vera breyti­legt milli gjald­miðla og frá ein­um tíma til ann­ars. Um er að ræða 6,6 millj­arða geng­isálag á ís­lenska neyt­end­ur fyr­ir að nota greiðslu­kort sín í er­lend­um færsl­um.

Hærri kostnaður vegna greiðslumiðlun­ar

Í skýrsl­unni kem­ur fram að kostnaður þjóðfé­lags­ins vegna greiðslumiðlun­ar sé mun hærri hér á landi en ann­ars staðar á Norður­lönd­um. Þessi aukni kostnaður við greiðslumiðlun hef­ur í för með sér hærra verð á vöru og þjón­ustu til ís­lenskra neyt­enda, sem á end­an­um bera kostnaðinn. Seðlabank­inn áætl­ar að kostnaður sam­fé­lags­ins af notk­un greiðslumiðla hér á landi á ár­inu 2021 hafi verið um 47 millj­arðar króna eða um 1,43% af vergri lands­fram­leiðslu. Þar af var kostnaður vegna greiðslu­korta ríf­lega 20 millj­arðar króna. Lang­stærst­ur hluti af færsl­un­um fer í gegn­um innviði er­lendra korta­fyr­ir­tækja.

Í skýrsl­unni seg­ir að það geti marg­borgað sig að kanna hvað sé í boði og í hverju kostnaður viðkom­andi liggi helst við bankaþjón­ustu. Vil ég hvetja alla til að skoða þetta gaum­gæfi­lega í sín­um viðskipt­um því það má vera að tæki­færi séu til að lækka til­kynn­ing­ar- og greiðslu­gjöld. Þá seg­ir að einnig sé hægt að at­huga hvort ódýr­ara sé að nota kred­it­kort, de­bet­kort eða kaupa gjald­eyri áður en farið er til út­landa.

Bank­arn­ir standi með fólki og fyr­ir­tækj­um

Það mun verða sam­fé­lags­leg­ur ávinn­ing­ur fólg­inn í öfl­ugri neyt­enda­vakt en sú vakt þarf að vera sam­vinnu­verk­efni okk­ar allra. Starfs­hóp­ur­inn legg­ur fram eft­ir­far­andi til­lög­ur til úr­bóta í skýrsl­unni:

 Sett verði á fót sam­an­b­urðar­vef­sjá með verði fjár­málaþjón­ustu að norskri og sænskri fyr­ir­mynd.

 Kannaðir verði mögu­leik­ar á að draga úr kostnaði í inn­lendri greiðslumiðlun í sam­ræmi við ábend­ing­ar Seðlabanka Íslands í ný­leg­um skýrsl­um.

 Auk­in áhersla verði lögð á fjár­mála­fræðslu fyr­ir al­menn­ing frá hlut­laus­um aðilum til að efla fjár­mála­læsi neyt­enda.

 Stjórn­völd búi til ramma og skýr­ar leik­regl­ur og fyr­ir­tæki setji fram upp­lýs­ing­ar og val­mögu­leika á skilj­an­leg­an hátt.

Bönk­un­um hef­ur tek­ist að auka hagnað og bæta arðsem­ina með auk­inni hagræðingu en í upp­gjör­um bank­anna er ekki að finna jafn skýr merki um lækk­un gjalda til viðskipta­vina. Okk­ur Íslend­ing­um er vita­skuld nauðsyn­legt að eiga sterkt banka­kerfi. En til að styðja og styrkja öfl­ugt at­vinnu- og efna­hags­líf verða viðskipta­bank­ar að njóta al­menns trausts í sam­fé­lag­inu. Ljóst má vera að hér má gera mikið mun bet­ur. Inn­heimta ým­issa gjalda, þókn­ana og vaxta­kostnaðar á ekki að vera neyt­end­um tor­skil­in á all­an hátt. Þá er það jú skýrt dæmi um að sam­keppni skorti á markaðnum og eins það að við neyt­end­ur séum ekki nægi­lega á verði. Það er hins veg­ar að breyt­ast og það er gott. Það er til mik­ils að vinna að ná sam­an um að hér verði spilaður sann­gjarn leik­ur.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður og 1. vara­formaður efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. október 2023.