Á undanförnum árum hefur margt áunnist til að styrkja verulega umgjörð tónlistarlífsins í landinu. Tónlist er ekki einungis veglegur hluti af menningu landsins, hún er einnig atvinnuskapandi og mikilvæg útflutningsgrein þar sem tónlistarverkefni geta skapað mörg afleidd störf. Ný tónlistarstefna var samþykkt á síðasta þingi með það að markmiði að styðja við tónlist sem listgrein, tónlistarfólk og aðra sem starfa við tónlist. Tónlistarlífið hérlendis er undirbyggt af metnaðarfullu tónlistarnámi um allt land, samstarfi og þori til þess að fara ótroðnar slóðir. Þessum mikla krafti finnur maður sérstaklega fyrir í grasrót tónlistarlífsins, sem er óþrjótandi uppspretta frumsköpunar í tónlist. Hluti af umgjörð menningarmála í landinu snýr að aðstöðu til tónlistariðkunar og aðgengi að slíkri aðstöðu. Eitt markmiða í tónlistarstefnunni er að húsnæði til tónlistariðkunar verði greint og kortlagt, t.d. hvaða húsnæði í eigu hins opinbera, t.d. menningarhús eða félagsheimili um allt land, væri hægt að nýta undir sköpun, hljóðritun eða flutning tónlistar.
Eitt okkar helsta tónlistarhús, Harpa, starfar í samræmi við eigendastefnu ríkisins og Reykjavíkurborgar, þar sem m.a. er lögð áhersla á menningarlegt hlutverk Hörpu og það markmið eigenda að með rekstri hennar sé stuðlað að eflingu íslensks tónlistar- og menningarlífs. Í samræmi við eigendastefnuna hefur Harpa mótað sér dagskrárstefnu sem miðar að því að auka fjölbreytni tónleikahalds, styðja við nýsköpun í tónlist og auðvelda aðgengi ungs tónlistarfólks úr grasrótinni, þvert á tónlistarstefnur, að Hörpu sem tónlistarhúsi allra landsmanna.
Liður í þessu er t.a.m. samstarf Hörpu, Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur og Rásar 2 um sérstaka tónleikaröð tileinkaða grasrót íslenskrar tónlistar, þvert á stefnur, sem kallast Upprásin og fer fram í Kaldalóni. Auglýst var eftir umsóknum um þátttöku í tónleikaröðinni sl. vor og bárust alls 134 umsóknir. Fjöldi og gæði umsókna fór fram úr vonum aðstandenda verkefnisins. Úr varð að 88 ungir einstaklingar munu koma fram á tónleikaröðinni, á mánaðarlegum tónleikum fram á vor þar sem fluttar verða fjölbreyttar tegundir tónlistar.
Harpa leggur til salinn Kaldalón auk tækja og vinnu í tengslum við tónleikana. Tónlistarborgin tryggir að flytjendur fái greitt fyrir að koma fram. Rás 2 annast kynningarstarf fyrir tónlistarfólkið og tekur tónleikana upp. Miðaverði er stillt í hóf en tónleikagestir eru hvattir til að styrkja tónlistarfólkið með frjálsu viðbótarframlagi. Það skiptir ungt tónlistarfólk máli að fá tækifæri líkt og þetta til þess að koma tónlist sinni á framfæri í glæsilegri aðstöðu líkt og Harpa hefur upp á að bjóða. Hér er aðeins um eina góða dæmisögu að ræða af mörgum um þá miklu gerjun sem á sér stað í menningarlífi þjóðarinnar, en þær eru mýmargar sem er fagnaðarefni fyrir íslenskt samfélag.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. október 2023.