Categories
Fréttir

Hér er verið að brjóta lög um dýravelferð!

Deila grein

08/07/2019

Hér er verið að brjóta lög um dýravelferð!

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, vekur athygli á því að nú sé dýralæknalaust í fimm sveitarfélögum á Vestfjörðum, Súðavík, Ísafjarðarbæ, Bolungarvík, Tálknafjarðarhreppi og Vesturbyggð (svæði 3 skv. reglugerð 846/2011 um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum). Dýralæknir sá er hefur sinnt þessu svæði hefur sagt upp eftir farsælt starf um árabil oft við erfiðar aðstæður. Þetta kemur fram í grein Höllu Signýjar í Bæjarins besta 4. júlí sl.
Dýralæknir er forsenda þess að bændur og dýraeigendur geti haldið dýravernd. Eftirliti með dýravelferð og dýralækningum í dreifðum byggðum er sinnt með verktakasamningum. Dýravelferð og eftirlit er á hendi héraðsdýralæknis. Héraðsdýralæknir fyrir vesturumdæmi situr í Borgarnesi og sinnir svæðinu frá Hvalfjarðarbotni að Hrútafirði að með töldum Vestfjörðum. Dýralæknar er starfa einir á stóru svæði, án afleysinga, allt árið um kring eru undir miklu álagi.
„MAST hefur á liðnum vikum tvívegis auglýst eftir dýralækni til að taka við þjónustusamningi á svæði 3 en engin viðbrögð hafa verið. Segir það kannski mikið um hvernig þessir samningar eru byggðir upp.“
„Það er tímabært að skoða þessi mál heildstætt og um allt land. Dýralækningar og eftirlit með dýravelferð á að vera hægt að vinna saman, skapa þannig eftirsótt störf og ákjósanleg starfsskilyrði fyrir dýralækna að sækja í. Vinna þarf að lausn í þessum málum og tryggja þannig dýravelferð um allt land,“ segir Halla Signý.