Categories
Fréttir Greinar

Heyrn er ekki munaður – hún er þátttaka

Deila grein

16/05/2025

Heyrn er ekki munaður – hún er þátttaka

Það var ánægju­legt að sækja fund hjá Fé­lagi eldri borg­ara á Ak­ur­eyri (EBAK) síðastliðinn föstu­dag. Rétt rúm­lega hundrað manns mættu – áhuga­sam­ir, upp­lýst­ir og mál­efna­leg­ir. Þar skapaðist gott sam­tal um þau mál sem brenna mest á eldra fólki í dag. Ábend­ing­ar komu víða að og spurn­ing­arn­ar voru marg­ar og skýr­ar. Það var sér­stak­lega áber­andi að umræðan sner­ist ít­rekað að sömu kjarna­mál­un­um: skerðing­um, líf­eyr­is­sjóðum en einnig að heil­brigðisþjón­ustu.

Heyrn­ar­tæki – ekki munaður held­ur nauðsyn

Þegar fólk eld­ist verður þörf­in fyr­ir hjálp­ar­tæki meiri, rætt var um frek­ari niður­greiðslu á gler­aug­um og tannviðgerðum en oft­ast kom upp staða heyrn­ar­tækja og niður­greiðslur þeim tengd­ar. Það er ekki sjálf­gefið að hafa efni á góðum heyrn­ar­tækj­um, sem kosta oft hundruð þúsunda króna og þurfa að end­ur­nýj­ast reglu­lega. Samt er það svo að góð heyrn skipt­ir öllu máli fyr­ir þátt­töku, sam­skipti og lífs­gæði.

Jafn­rétti til þátt­töku í sam­fé­lag­inu

Það þarf ekki langa um­fjöll­un til að átta sig á að aðgengi að heyrn­ar­tækj­um er jafn­rétt­is­mál. Ef ein­stak­ling­ar á efri árum hafa ekki tök á að fjár­magna þessi nauðsyn­legu hjálp­ar­tæki er verið að úti­loka fólk frá eðli­legri þátt­töku í sam­fé­lag­inu – í sam­töl­um, fjöl­skyldu­sam­skipt­um, fé­lags­starfi og fleiru. Þetta hef­ur áhrif á líðan og get­ur leitt til fé­lags­legr­ar ein­angr­un­ar sem við vilj­um öll forðast.

Þess vegna verðum við að skoða hvort hægt sé að gera bet­ur í þess­um efn­um. Horfa til annarra landa, til dæm­is má líta til Bret­lands. Þar sjá einkaaðilar um heyrn­ar­mæl­ing­ar, sjón­mæl­ing­ar og grein­ing­ar, en ríkið tek­ur stærri þátt í kostnaði við hjálp­ar­tæk­in sjálf. Slík skipt­ing get­ur létt á op­in­bera kerf­inu, aukið fram­boð og stuðlað að betri þjón­ustu en ekki síður aukið tæki­færi til frek­ari niður­greiðslu – svo fremi sem gæði og aðgengi eru tryggð.

Hagræðing sem skil­ar sér í aukn­um stuðningi

Þetta er ekki ein­göngu spurn­ing um þjón­ustu – held­ur líka um skil­virkni og hag­kvæmni. Með því að nýta sérþekk­ingu og innviði í kerf­inu öllu, líkt og gert er í Bretlandi og víðar, væri unnt að veita þjón­ust­una hraðar og víðar – og á sama tíma nota þá fjár­muni sem spar­ast til að greiða niður heyrn­ar­tæki sjálf í aukn­um mæli. Slík hagræðing myndi gera rík­is­valdi kleift að styðja bet­ur við eldri borg­ara, sér­stak­lega þá sem eru tekju­lág­ir, án þess að auka heild­ar­kostnað í kerf­inu.

Við þurf­um að ræða þetta op­in­skátt, lausnamiðað og finna leiðir sem virka í ís­lensku sam­hengi. Hvort sem það felst í auk­inni niður­greiðslu, breyttri skipt­ingu á þjón­ustu og tækj­um, reglu­legri skimun, sam­starfi við einkaaðila eða öðrum lausn­um – þá er ljóst að það þarf að bregðast við. Fólk á ekki að þurfa að velja á milli grunnþarfa og þess að geta tekið þátt í sam­tali við barna­börn sín.

Við í Fram­sókn höf­um talað skýrt fyr­ir því að setja mál­efni eldri borg­ara í for­gang – og það ger­um við með því að hlusta, mæta til sam­tals og vinna með þær upp­lýs­ing­ar sem koma frá fólk­inu í land­inu. Fund­ur­inn með EBAK var skýr áminn­ing um að margt hef­ur tek­ist vel, mörg mál eru enn óleyst – en líka vitn­is­b­urður um mik­inn vilja fólks til að leggja sitt af mörk­um til að leysa þau.

Við ætl­um að fylgja mál­um eft­ir. Við ætl­um að vinna með eldra fólki og fé­laga­sam­tök­um þeirra. Og við ætl­um að styðja við öll mál­efna­leg og fram­kvæm­an­leg skref sem miða að bætt­um kjör­um og þjón­ustu þessa hóps.

Heyrn er ekki munaður. Hún er for­senda fyr­ir þátt­töku – og þátt­taka er lífs­gæði.

Ingibjörg Isaksen, þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. maí 2025.