Categories
Fréttir Greinar

Höfuðborg full af menningu

Deila grein

24/08/2024

Höfuðborg full af menningu

Haldið er upp á það í dag að Reykja­vík­ur­borg fékk kaupstaðarrétt­indi hinn 18. ág­úst 1786. Af því til­efni er venju sam­kvæmt blásið til Menn­ing­ar­næt­ur í Reykja­vík þar sem ís­lensk menn­ing í víðum skiln­ingi fær notið sín fyr­ir aug­um og eyr­um gesta. Í hug­um margra mark­ar Menn­ing­arnótt enda­lok sum­ars­ins og þar með upp­haf hausts­ins sem von­andi verður okk­ur öll­um gæfu­ríkt. Eitt af því sem er­lend­ir gest­ir nefna við mig í sam­töl­um um Ísland er hversu blóm­legt menn­ing­ar­líf fyr­ir­finnst í Reykja­vík. Slíkt ger­ist ekki af sjálfu sér eins og við vit­um. Um ald­ir hafa Íslend­ing­ar verið fram­sýn­ir þegar kem­ur að því að styðja við lista­menn og búa menn­ing­unni sterka um­gjörð til þess að vaxa og dafna. Með hverju ár­inu sem líður njót­um við rík­ari ávaxta af þeirri stefnu, með hverj­um lista­mann­in­um sem stíg­ur fram á sjón­ar­sviðið og fang­ar at­hygli okk­ar sem hér búum, en ekki síður um­heims­ins.

Ragn­ar Kjart­ans­son, Lauf­ey, Björk, Kal­eo, Hild­ur Guðna­dótt­ir, Vík­ing­ur Heiðar og Of Mon­sters and Men hafa til dæm­is getið sér stór­gott orð er­lend­is og rutt braut­ina fyr­ir ís­lenska menn­ingu í heim­in­um. Okk­ur Íslend­ing­um leiðist ekki að fagna vel­gengni okk­ar fólks á er­lendri grundu. Árang­ur sem þessi sam­ein­ar okk­ur og fyll­ir okk­ur stolti. Fyrr­nefnd­ir lista­menn eiga það sam­merkt að hafa sprottið upp úr frjó­um jarðvegi lista- og menn­ing­ar sem hlúð hef­ur verið að ára­tug eft­ir ára­tug hér á landi. Á Menn­ing­arnótt í Reykja­vík gefst fólki kost­ur á að kynna sér þá miklu grósku sem grasrót menn­ing­ar­lífs hér á landi hef­ur upp á að bjóða. Mynd­list og tónlist, hönn­un og arki­tekt­úr, sviðslist­ir og bók­mennt­ir – það geta all­ir fundið eitt­hvað við sitt hæfi.

Á und­an­förn­um árum hafa stjórn­völd stigið veiga­mik­il skref á þeirri veg­ferð að styrkja um­gjörð menn­ing­ar­lífs­ins í land­inu enn frek­ar. Nýtt ráðuneyti þar sem menn­ing­ar­mál fengu aukið vægi varð loks­ins að veru­leika, stefn­ur og al­vöruaðgerðir til að styðja við hin ýmsu list­form hafa raun­gerst – og fleiri slík­ar eru á leiðinni. Ný tón­list­armiðstöð og ný sviðlistamiðstöð sem hafa tekið til starfa, unnið hef­ur verið að upp­bygg­ingu menn­ing­ar­húsa á lands­byggðinni, fjölg­un lista­manna­launa og auk­inn stuðning­ur við kynn­ingu á ís­lenskri menn­ingu hér­lend­is og er­lend­is eru aðeins örfá dæmi um það sem hef­ur verið áorkað. List­inn er lang­ur. Menn­ing­arnótt er eitt af þeim sviðum þar sem afrakst­ur vinn­unn­ar brýst fram og fram­kall­ar gleði og eft­ir­minni­leg­ar stund­ir hjá fólki. Ég óska Reyk­vík­ing­um og gest­um þeirra gleðilegr­ar Menn­ing­ar­næt­ur og hvet sem flesta til þess að mæta og taka þátt.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. ágúst 2024.