Haldið er upp á það í dag að Reykjavíkurborg fékk kaupstaðarréttindi hinn 18. ágúst 1786. Af því tilefni er venju samkvæmt blásið til Menningarnætur í Reykjavík þar sem íslensk menning í víðum skilningi fær notið sín fyrir augum og eyrum gesta. Í hugum margra markar Menningarnótt endalok sumarsins og þar með upphaf haustsins sem vonandi verður okkur öllum gæfuríkt. Eitt af því sem erlendir gestir nefna við mig í samtölum um Ísland er hversu blómlegt menningarlíf fyrirfinnst í Reykjavík. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér eins og við vitum. Um aldir hafa Íslendingar verið framsýnir þegar kemur að því að styðja við listamenn og búa menningunni sterka umgjörð til þess að vaxa og dafna. Með hverju árinu sem líður njótum við ríkari ávaxta af þeirri stefnu, með hverjum listamanninum sem stígur fram á sjónarsviðið og fangar athygli okkar sem hér búum, en ekki síður umheimsins.
Ragnar Kjartansson, Laufey, Björk, Kaleo, Hildur Guðnadóttir, Víkingur Heiðar og Of Monsters and Men hafa til dæmis getið sér stórgott orð erlendis og rutt brautina fyrir íslenska menningu í heiminum. Okkur Íslendingum leiðist ekki að fagna velgengni okkar fólks á erlendri grundu. Árangur sem þessi sameinar okkur og fyllir okkur stolti. Fyrrnefndir listamenn eiga það sammerkt að hafa sprottið upp úr frjóum jarðvegi lista- og menningar sem hlúð hefur verið að áratug eftir áratug hér á landi. Á Menningarnótt í Reykjavík gefst fólki kostur á að kynna sér þá miklu grósku sem grasrót menningarlífs hér á landi hefur upp á að bjóða. Myndlist og tónlist, hönnun og arkitektúr, sviðslistir og bókmenntir – það geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi.
Á undanförnum árum hafa stjórnvöld stigið veigamikil skref á þeirri vegferð að styrkja umgjörð menningarlífsins í landinu enn frekar. Nýtt ráðuneyti þar sem menningarmál fengu aukið vægi varð loksins að veruleika, stefnur og alvöruaðgerðir til að styðja við hin ýmsu listform hafa raungerst – og fleiri slíkar eru á leiðinni. Ný tónlistarmiðstöð og ný sviðlistamiðstöð sem hafa tekið til starfa, unnið hefur verið að uppbyggingu menningarhúsa á landsbyggðinni, fjölgun listamannalauna og aukinn stuðningur við kynningu á íslenskri menningu hérlendis og erlendis eru aðeins örfá dæmi um það sem hefur verið áorkað. Listinn er langur. Menningarnótt er eitt af þeim sviðum þar sem afrakstur vinnunnar brýst fram og framkallar gleði og eftirminnilegar stundir hjá fólki. Ég óska Reykvíkingum og gestum þeirra gleðilegrar Menningarnætur og hvet sem flesta til þess að mæta og taka þátt.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. ágúst 2024.