Categories
Fréttir Greinar

Horfur í heimsbúskapnum 2024 og íslenska hagkerfið

Deila grein

06/01/2024

Horfur í heimsbúskapnum 2024 og íslenska hagkerfið

Heims­bú­skap­ur­inn stend­ur á mik­il­væg­um tíma­mót­um um þess­ar mund­ir eft­ir tals­verðan darraðardans und­an­far­in fjög­ur ár. Mikl­ar vend­ing­ar hafa orðið í alþjóðahag­kerf­inu á þeim tíma sem á einn eða ann­an hátt hafa snert öll ríki í heim­in­um. Heims­far­ald­ur, hnökr­ar í aðfanga­keðjum, aukn­ar höml­ur og viðskipta­hindr­an­ir í alþjóðaviðskipt­um ásamt stríðsátök­um hafa þannig fram­kallað stór­ar áskor­an­ir fyr­ir stjórn efna­hags­mála og enn er ekki séð fyr­ir end­ann á þeim. Þrátt fyr­ir þetta eru góð teikn á lofti með hækk­andi sól.

Já­kvæð þróun í heims­bú­skapn­um …

Það er ánægju­legt að sjá vís­bend­ing­ar um að áhrif fyrr­nefndra at­b­urða séu í rén­un. Þannig hef­ur verg heims­fram­leiðsla tekið bet­ur við sér en bú­ist var við og mæld­ist á þriðja árs­fjórðungi 2023 rúm­lega 9% meiri en fyr­ir heims­far­ald­ur, sam­kvæmt alþjóðlegri sam­an­tekt Fitch Rat­ings.

Það er einkum þrennt sem skýr­ir þessa þróun. Í fyrsta lagi hef­ur hin alþjóðlega aðfanga­keðja náð betra jafn­vægi eft­ir heims­far­ald­ur­inn, ásamt því að fyr­ir­tæki í Evr­ópu hafa getað brugðist bet­ur við verðhækk­un­um á orku frá Rússlandi en leit út fyr­ir í fyrstu.

Í öðru lagi hef­ur verðbólga hjaðnað hraðar en fyrstu spár bentu til. Verðbólga á heimsvísu var 8,9% í fyrra og spáð er að hún verði kom­in niður í 5,1% í árs­lok 2024. Hrávara hef­ur verið að lækka en óstöðugt orku­verð held­ur áfram að vera áskor­un. Verðbólga í mat­væl­um, allt frá hveiti til eld­unar­ol­íu, hef­ur hjaðnað.

Í þriðja lagi hafa vænt­ing­ar markaðsaðila verið mikl­ar um að alþjóðleg­ir vext­ir fari að lækka, sem myndi óneit­an­lega létta und­ir með heim­il­um og fyr­ir­tækj­um. Þetta er að ger­ast þrátt fyr­ir fall svæðis­bund­inna banka í Banda­ríkj­un­um og fall Cred­it Suis­se sem vakti áhyggj­ur um fjár­mála­stöðug­leika. Á und­an­förn­um vik­um hafa fjár­mála­markaðir tekið veru­lega við sér. Þannig voru helstu vísi­töl­ur ná­lægt eða náðu nýj­um met­hæðum í lok árs 2023 og birt­ist það jafn­framt í sterkri stöðu skulda­bréfa­markaða.

Í Banda­ríkj­un­um eru all­ar lík­ur á að hag­kerfið nái mjúkri lend­ingu á þessu ári. Þannig tók banda­ríska hag­kerfið kröft­ug­lega við sér og virðist lítið lát þar á þrátt fyr­ir um­tals­verðar vaxta­hækk­an­ir, en vinnu­markaður og eft­ir­spurn í land­inu fór fram úr vænt­ing­um. Þannig voru hag­töl­ur fyr­ir þriðja árs­fjórðung vest­an­hafs mun sterk­ari en flest­ir markaðsaðilar gerðu var ráð fyr­ir, en um mitt síðasta ár var það ein­róma skoðun sér­fræðinga að vaxta­hækk­an­ir myndu leiða til stöðnun­ar á þessu ári.

Í Evr­ópu hef­ur vöxt­ur­inn verið minni, en þar setti orkukreppa strik í reikn­ing­inn. Þar hef­ur þó ríkt nokk­ur upp­gang­ur þrátt fyr­ir vaxta­hækk­an­ir. Hins veg­ar hafa ný­leg­ar töl­ur bent til stöðnun­ar eða sam­drátt­ar m.a. í Þýskalandi og er það áhyggju­efni fyr­ir evru­svæðið. Ný­markaðsríki og fá­tæk­ari lönd virðast koma bet­ur und­an áföll­um síðustu ára en nokk­ur þorði að vona, en bú­ist var við greiðslu­erfiðleik­um í kjöl­far far­ald­urs­ins og vaxta­hækk­ana í Banda­ríkj­un­um.

… en blik­ur halda áfram að vera á lofti

Alþjóðlega efna­hags­kerfið stend­ur engu að síður á mik­il­væg­um tíma­mót­um. Heims­bú­skap­ur­inn mót­ast af sam­spili stjórn­mála­legra og efna­hags­legra áhrifa. Síðustu miss­eri hafa ein­kennst af spennu á milli stór­velda og al­var­leg­um svæðis­bundn­um átök­um í Úkraínu, Mið-Aust­ur­lönd­um og Afr­íku. Í sam­skipt­um stór­velda skap­ar umrót á banda­lög­um áhættu fyr­ir heims­bú­skap­inn. Meðal helstu svæða sem horft er til eru Aust­ur-Evr­ópa, Mið-Aust­ur­lönd og Suður-Kína­haf, þar sem at­b­urðir á þess­um svæðum gætu mögu­lega raskað aðfanga­keðjum á ný, haft áhrif á viðskipta­stefnu og grafið und­an efna­hags­leg­um stöðug­leika í heims­bú­skapn­um.

Hag­vöxt­ur í Kína hef­ur verið und­ir vænt­ing­um eft­ir los­un covid-hafta og kunna þar að vera á ferðinni kerf­is­læg vanda­mál eft­ir mik­inn vöxt und­an­farna ára­tugi. Það er áhyggju­efni fyr­ir heims­bú­skap­inn þar sem Kína er með stærstu ríkj­um. Á sama tíma þarf að fást við lýðfræðileg­ar breyt­ing­ar í stór­um lönd­um þar sem ald­ur íbúa fer vax­andi. Á síðasta ári spratt fjórða iðnbylt­ing­in fram í öllu sínu veldi meðal ann­ars með gervi­greind­inni. Í því fel­ast gríðarleg tæki­færi en að sama skapi áskor­an­ir sem ríki heims verða að ná utan um í sam­ein­ingu. Þessu tengt er staða fjöl­miðla áfram erfið og hætta á að upp­lýs­inga­óreiða kunni að hafa áhrif á fram­vindu stjórn­mála og lýðræðis.

Síðustu vik­ur hafði ríkt bjart­sýni um að verðbólga væri í rén­un og að vext­ir yrðu lækkaðir hratt beggja vegna Atlantsála sem eins og áður seg­ir mátti greina á mikl­um upp­gangi skulda- og hluta­bréfa­markaða. Á allra síðustu dög­um hafa von­ir um hraða lækk­un vaxta hins veg­ar dvínað og má bú­ast við því að ekki hafi verið full inn­stæða fyr­ir þeirri bjart­sýni sem ríkt hef­ur á mörkuðum og lengri tíma gæti tekið að ná verðbólg­unni í mark­mið en markaðsaðilar hafa reiknað með, og gæti það sett strik í reikn­ing­inn varðandi hag­vöxt á þessu ári. Stjórn­völd og seðlabank­ar standa því enn frammi fyr­ir þeirri áskor­un að tak­ast á við að skapa jafn­vægi í ein­stök­um lönd­um í kjöl­far far­ald­urs­ins.

Þró­un­in hér­lend­is í okk­ar eig­in hönd­um

Ísland hef­ur ekki farið var­hluta af fyrr­nefnd­um darraðardansi í heims­bú­skapn­um. Hér hef­ur há verðbólga hins veg­ar reynst þrálát­ari en í lönd­un­um í kring­um okk­ur, þó svo að hún hafi fram­an af mælst sú næst­lægsta í Evr­ópu. Hef­ur þetta meðal ann­ars birst okk­ur í hækk­andi stýri­vöxt­um sem eru helsta stjórn­tæki Seðlabanka Íslands gagn­vart verðbólgu.

Á ár­inu 2023 slógu hækk­andi stýri­vext­ir á inn­lenda eft­ir­spurn á sama og mik­ill kraft­ur var í þjón­ustu­út­flutn­ingi, sem skýrðist aðallega af um­svif­um í ferðaþjón­ustu. Sam­drátt­ur varð í einka­neyslu á þriðja árs­fjórðungi eft­ir nokkuð kröft­ug­an vöxt árs­fjórðung­ana þar á und­an. Spáð er að jafn­vægi ná­ist í viðskipt­um við út­lönd sem sag­an kenn­ir okk­ur að sé mik­il­vægt fyr­ir þjóðarbúið. Það skipt­ir miklu máli að út­flutn­ings­grein­arn­ar verði ekki fyr­ir frek­ari áföll­um, en jarðhrær­ing­ar á Reykja­nesskaga fela vissu­lega í sér áskor­un. Gríðarleg­ar út­flutn­ings­tekj­ur eru skapaðar í Grinda­vík og ná­grenni! Hag­vaxt­ar­horf­ur sam­kvæmt spám eru ásætt­an­leg­ar eft­ir mik­inn vöxt 2022 og 2023. Brýn­asta hags­muna­mál þjóðfé­lags­ins er að ná niður verðbólgu og vöxt­um en það er mesta kjara­bót­in fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki í land­inu. Þó svo að Ísland sé ekki ónæmt eyríki í alþjóðahag­kerf­inu hvíla ör­lög verðbólguþró­un­ar­inn­ar nú að stór­um hluta í okk­ar eig­in hönd­um. Þar mun ábyrgð, raun­sæi og góð sam­vinna rík­is og sveit­ar­fé­laga, Seðlabanka Íslands og aðila vinnu­markaðar­ins ráða úr­slit­um.

Rík­is­stjórn­in hef­ur kynnt aðhalds­samt fjár­laga­frum­varp, þar sem Stjórn­ar­ráðið tek­ur á sig hvað mest aðhald. Það sama má segja um launa­hækk­un æðstu emb­ætt­is­manna rík­is­ins sem lækkuð var niður í 2,5%, sem kall­ast á við verðbólgu­mark­mið Seðlabank­ans og gjald­skrár­hækk­an­ir tak­markaðar við 3,5%. Með þessu vilja stjórn­völd leiða með góðu for­dæmi. Hag­felld­ir kjara­samn­ing­ar til langs tíma munu ráða miklu um þróun verðbólg­unn­ar.

Það gleður mig að sjá þá breiðu sam­stöðu og þann já­kvæða tón sem kveður við í samn­ingaviðræðum aðila vinnu­markaðar­ins, enda er mikið í húfi fyr­ir okk­ur öll. Sé rétt haldið á spil­un­um er ég bjart­sýn á að við mun­um sjá verðbólgu og vexti lækka tals­vert á ár­inu 2024, sem mun gera okk­ur bet­ur í stakk búin til þess að halda áfram þeirri lífs­kjara­sókn sem við vilj­um sjá í land­inu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. janúar 2024.