Þegar hin sameiginlega mynt, evran, var tekin upp árið 1999 gerðu hugmyndafræðingar hennar sér í hugarlund að hún myndi stuðla að auknum hagvexti og velsæld fyrir álfuna.
Rúmum 25 árum seinna hefur evran ekki skilað þeim árangri sem vonir stóðu til. Nicholas Kaldor, hagfræðingur við Cambridge-háskóla, kom strax með gagnrýni á hugmyndir um sameiginlega mynt í mars árið 1971. Kaldor sagði þá að leiðtogar Evrópu væru að stórlega vanmeta efnahagsleg áhrif þess að taka upp sameiginlega mynt og sagði að ef þetta ætti að takast, þá þyrftu efnahagslega sterkari ríki að fjármagna þau sem stæðu verr meira og minna til frambúðar. Hann varaði jafnframt við því að hin sameiginlega mynt myndi sundra Evrópubúum, og minntist á fræg orð forseta Bandaríkjanna, Abrahams Lincolns, um að: „Hús sem er klofið gegn sjálfu sér getur ekki staðið.“
Kaldor hefur að mínu mati rétt fyrir sér. Ef hin sameiginlega mynt á að skila þeim árangri sem upphafsmenn hennar vildu, þá þarf að setja á laggirnar sameiginlegan ríkissjóð evruríkjanna, sem hefur sams konar hlutverk og ríkissjóður Bandaríkjanna. Eins og staða er í dag, þá nema sameiginleg fjárlög ESB-ríkjanna um 1% af landsframleiðslu þeirra, meðan umfang ríkissjóðs Bandaríkjanna er um 20%. Ríkissjóður Bandaríkjanna hefur það hlutverk meðal annars að sjá um skattheimtu, móta efnahagsstefnu fyrir alríkið, styðja við fátækari fylki landsins og fjármagna herinn. Vegferð fylgismanna evrunnar og aðildarsinna er að mynda svipað ríkjasamband, líkt og Bandaríkin. Mario Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóri, sagði á dögunum að til að Evrópa gæti brugðist við þeim efnahagslegu áskorunum sem blasa við henni, þá þurfi ESB að koma fram meira eins og eitt ríki.
Ef við lítum á þau ríki sem vegnar einna best í Evrópu um þessar mundir, þá eru það ríki sem hafa sinn eigin gjaldmiðil. Þetta eru ríki á borð við Sviss, Ísland og Noreg. Meginástæða þess að margir hagfræðingar vara við sameiginlegum gjaldmiðli á borð við evru fyrir Ísland og Noreg er sú staðreynd að hagsveiflur þessara ríkja eru ekki í takt við evruríkin. Þannig tekur hagstjórnin ekki mið af þeirri efnahagslegri stöðu sem þau ríki búa við.
Íslandi hefur vegnað vel og séð mikil umskipti á velsæld þjóðarinnar og landsframleiðsla vaxið mikið. Þegar Norðmenn höfnuðu aðild að ESB árið 1994, þá voru það efnahagslegir hagsmunir þjóðarinnar sem réðu mestu. Efnahagsleg greining á sínum tíma leiddi í ljós að Norðmenn myndu greiða mun meira til ESB en þjóðin fengi í staðinn. Reikningurinn hefur hækkað verulega síðan þá. Það nákvæmlega sama á við í tilfelli Íslands og því eigum við áfram að vera í EES-samstarfi en ekki fara í Evrópusambandið.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. september 2025.