„Aðgengi að viðunandi húsnæði er öllum nauðsynlegt. Í þeim efnum bera stjórnvöld ríka ábyrgð. Ég er þess fullviss að þau skref sem við höfum stigið síðustu misseri marki ákveðin vatnaskil, leggi grunninn að bættri umgjörð í húsnæðismálum og færi okkur í áttina að því markmiði að tryggja jafnvægi á húsnæðismarkaði ásamt nægjanlegu framboði af húsnæði fyrir alla, óháð efnahag og í öllum byggðum landsins,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, í grein í Morgunblaðinu í síðustu viku.
„Húsnæðismál eru eitt stærsta velferðarmál þjóðarinnar. Þak yfir höfuðið er ein af grunnþörfum mannsins og öruggt húsnæði óháð efnahag og búsetu er ein af grunnforsendum öflugs samfélags.
Húsnæðismarkaðurinn hér á landi hefur einkennst af miklum sveiflum í gegnum tíðina, ekki síst síðastliðinn áratug. Í dag er staðan sú að stór hópur fólks býr við þröngan kost og óöryggi í húsnæðismálum og margir, einkum þeir tekjulægri, hafa takmarkaðan aðgang að viðunandi húsnæði. Þeir verja sömuleiðis of stórum hluta tekna sinna í húsnæði. Við það verður ekki unað,“ segir Ásmundur Einar.
Víðtækar aðgerðir til aukins jafnvægis á húsnæðismarkaði
Núverandi ríkisstjórn hefur frá upphafi haft skýra stefnu í húsnæðismálum. Hún er að tryggja jafnvægi á húsnæðismarkaði og nægjanlegt framboð af viðunandi húsnæði fyrir alla, óháð efnahag og búsetu. Húsnæðismál hafa verið sett í skýran forgang en til marks um það má nefna að þriðjungur þeirra 38 aðgerða sem ríkisstjórnin lagði fram í tengslum við lífskjarasamningana snýr að húsnæðismálum. Gert er ráð fyrir að Íbúðalánasjóður fylgi þeim aðgerðum eftir og skili stöðuskýrslu þrisvar á ári svo að sem best yfirsýn fáist yfir framgang þeirra.
Til að skapa aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði þarf breytta umgjörð í húsnæðismálum, sem grundvallast á stefnumótun og áætlanagerð til langs tíma og er byggð á áreiðanlegum upplýsingum. Mörg mikilvæg skref hafa verið stigin í þá átt á nýliðnum vetri. Íbúðalánasjóði hefur verið falið mikilvægt hlutverk í þeim efnum með breytingu á lögum um húsnæðismál og er það fagnaðarefni að sterk stofnun fari nú með samhæfingu og framkvæmd húsnæðismála á landsvísu.
Sveitarfélögunum hefur verið falið veigamikið hlutverk við gerð húsnæðisáætlana en þær munu framvegis vera lykilþáttur í stefnumótun stjórnvalda í húsnæðismálum. Í þeirri aðgerð kristallast mikilvægi þess að gott samstarf sé á milli ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að húsnæðismálum.
Markvisst hefur einnig verið unnið að fjölgun hagkvæmra leiguíbúða í gegnum uppbyggingu almenna íbúðakerfisins sem studd er af stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga. Ljóst er að mikil þörf er á slíku úrræði en almenna íbúðakerfið mun auka aðgengi tekju- og eignalágra að öruggu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði.
Categories
Húsnæði fyrir alla – ábyrgð stjórnvalda rík
14/06/2019
Húsnæði fyrir alla – ábyrgð stjórnvalda rík