Categories
Fréttir Greinar

Húsnæðismál eru hagstjórnarmál

Deila grein

07/11/2024

Húsnæðismál eru hagstjórnarmál

Stærsta verk­efni efna­hags­stjórn­ar­inn­ar er að ná niður vöxt­um og verðbólgu. Það hef­ur verið ánægju­legt að sjá aðgerðir til að ná niður verðbólgu skila ár­angri. Þannig hef­ur hún lækkað úr 10,2% þegar hún mæld­ist hæst, niður í 5,1%. Síðasta vaxta­ákvörðun Seðlabank­ans var já­kvætt skref í átt að lægri vöxt­um, en lægri vext­ir eru stærsta hags­muna­mál heim­ila og fyr­ir­tækja. Það hef­ur eng­um dulist að hús­næðisliður­inn hef­ur vegið þungt í verðbólgu­mæl­ing­um und­an­far­in miss­eri en vísi­tala neyslu­verðs án hús­næðis var um 2,8% í síðustu mæl­ingu.

Ýmsu hef­ur verið komið til leiðar á und­an­förn­um árum í hús­næðismál­um. Þannig hef­ur ríkið til dæm­is stutt mynd­ar­lega við upp­bygg­ingu í al­menna íbúðakerf­inu með stofn­fram­lög­um sem eru ætluð til að treysta hús­næðis­ör­yggi og tryggja viðráðan­leg­an hús­næðis­kostnað tekju­lægri heim­ila. Hlut­deild­ar­lán­un­um var einnig komið á, sem nýt­ast til dæm­is fyrstu kaup­end­um. Hús­næðisstuðning­ur fyr­ir for­eldra í leigu­hús­næði var auk­inn. Sér­stak­ur vaxt­astuðning­ur, sam­tals upp á 5,5 ma. kr., var greidd­ur út 2024 vegna vaxta­gjalda af íbúðalán­um 2023, en stuðning­ur­inn náði til 56 þúsund ein­stak­linga. Heim­ild­ir líf­eyr­is­sjóða til fjár­fest­inga í íbúðar­hús­næði voru rýmkaðar veru­lega. Hús­næðis­ör­yggi og rétt­arstaða leigj­enda var auk­in með breyt­ingu á húsa­leigu­lög­um. Sveit­ar­fé­lög fengu aukn­ar heim­ild­ir til að tíma­binda upp­bygg­ing­ar­heim­ild­ir til að tryggja að bygg­ingaráform gangi eft­ir. Rekstr­ar­leyf­is­skyld gist­ing í íbúðar­hús­næði var gerð óheim­il og eft­ir­lit með heimag­ist­ingu aukið.

Þrátt fyr­ir að mikið hafi verið byggt á und­an­förn­um árum og hlut­fall þeirra sem eiga eigið hús­næði aldrei verið hærra, þarf að byggja meira. Þar skipt­ir höfuðmáli að tryggja næg­ar bygg­ing­ar­hæf­ar lóðir í sveit­ar­fé­lög­um, sér­stak­lega á höfuðborg­ar­svæðinu. Ríki og sveit­ar­fé­lög hafa verið að taka hönd­um sam­an með þetta að mark­miði. Má þar nefna að Reykja­vík reið á vaðið og und­ir­ritaði tíma­móta­samn­ing við ríkið um hús­næðis­upp­bygg­ingu um 16.000 íbúða á næstu 10 árum, eða allt að 2.000 íbúða á ári næstu fimm árin. Í borg­inni hafa hús­næðis- og lóðamál verið sett í for­gang með Fram­sókn í broddi fylk­ing­ar, meðal ann­ars með því að ryðja nýtt land. Má til dæm­is nefna nýj­ar lóðir sem unnið er að á Kjal­ar­nesi og í Úlfarsár­dal ásamt Keldna­land­inu, sem er í um­hverf­is­mati, en um 2.600 íbúðir eru í bygg­ingu í borg­inni og um 12.000 íbúðir eru á lóðum sem eru í skipu­lags­ferli. Slík skipu­lags­vinna á hendi sveit­ar­fé­lag­anna verður að ganga smurt fyr­ir sig enda er verk­efnið fram und­an að tryggja að upp­bygg­ingaráform raun­ger­ist. Hag­stæðari fjár­mögn­un­ar­kostnaður sem mun fylgja lækk­andi stýri­vöxt­um skipt­ir einnig höfuðmáli í því sam­hengi. Hús­næðismál eru stórt hag­stjórn­ar­mál og á hús­næðismarkaði þarf að ríkja heil­brigt jafn­vægi. Aukið fram­boð á hús­næði er lyk­ill­inn að auknu jafn­vægi á markaðnum í dag.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. nóvember 2024.