Categories
Fréttir

Húsnæðismál eru í senn velferðarmál og efnahagsmál

Deila grein

30/08/2023

Húsnæðismál eru í senn velferðarmál og efnahagsmál

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, flutti opnunarræðu á fjölmennu húsnæðisþingi sem haldið var í morgun á vegum innviðaráðuneytisins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) undir yfirskriftinni „Heimili handa hálfri milljón“. Ráðherra kynnti þar drög að fyrstu heildarstefnu í húsnæðismálum til 15 ára og aðgerðaáætlunar til 5 ára. Drög að húsnæðisstefnunni og aðgerðaáætlun er nú í samráðsgátt og hægt að senda umsagnir og ábendingar til og með 4. september. Þingsályktun um stefnuna verður lögð fram á haustþingi.

Réttlátari húsnæðismarkaður

Í ræðu sinni sagði Sigurður markmiðið vera að skapa réttlátari húsnæðismarkað. Tryggja þurfi aðgengi að öruggu húsnæði – grundvallarþörf hvers einstaklings. Þá þurfi að stuðla að jafnvægi á húsnæðismarkaði, að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu og huga að húsnæðisöryggi leigjenda.

„Til lengri tíma þurfum við að fjölga íbúðum af öllum gerðum til að mæta íbúafjölgun og skapa þannig jafnvægi á húsnæðismarkaði. Sú yfirsýn sem við höfum öðlast með þéttara samstarfi ríkis, sveitarfélaga og byggingaraðila er mikilvægur grunnur til að standa á til að ná þessum markmiðum til lengri tíma. Til skemmri tíma að styðja við tekju- og eignaminni, ungt fólk og fyrstu kaupendur á fasteignamarkaði með ólíkum leiðum, t.d. samkeppnishæfari hlutdeildarlánum til að hjálpa fólki að eignast eigið húsnæði og hækkun stofnframlaga til byggingar hagkvæms leiguhúsnæðis á viðráðanlegu verði. Þannig eflum við almennan leigumarkað og bætum húsnæðisöryggi leigjenda,“ sagði Sigurður Ingi.

Á þinginu fór Sigurður Ingi yfir megindrætti í drögum að nýrri húsnæðisstefnu. „Húsnæðismál eru í senn velferðarmál og efnahagsmál. Því er mikilvægt að stjórnvöld móti skýra langtímastefnu með aðgerðaáætlun. Megininntak stefnunnar er að húsnæði sé hluti af velferð okkar allra. Við þurfum öll þak yfir höfuðið.“

Sjö lykilviðfangsefni

Í drögum að húsnæðisstefnu eru skilgreind sjö lykilviðfangsefni 

 1. Stöðugleiki á húsnæðismarkaði þar sem fjölbreytt framboð íbúða mæti þörf.
 2. Skilvirk stjórnsýsla á sviði húsnæðis-, mannvirkja- og skipulagsmála.
 3. Greinargóðar upplýsingar um húsnæðis-, mannvirkja- og skipulagsmál byggðar á áreiðanlegum tæknilegum innviðum.
 4. Sérhæfðar lausnir til að mæta áskorunum á landsbyggðinni.
 5. Markviss húsnæðisstuðningur sem er afmarkaður við þau sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaði.
 6. Aukið húsnæðisöryggi leigjenda og bættar rauntímaupplýsingar um leigumarkaðinn.
 7. Sjálfbær þróun, gæði og rekjanleiki í mannvirkjagerð.

Markmið og 44 aðgerðir

Þá hafa verið skilgrein fjögur markmið og 44 aðgerðir sem skiptast niður á markmiðin.

 • Auka jafnvægi á húsnæðismarkaði – 10 aðgerðir 
 • Gera stjórnsýslu skilvirkari og auka gæði íbúða í jafnvægi við umhverfið – 15 aðgerðir 
 • Bæta húsnæðisöryggi þeirra sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaði – 13 aðgerðir
 • Stuðla að virkum vinnumarkaði um land allt – 6 aðgerðir

Húsnæðisþingið var sent út í beinu streymi og innan skamms verður hægt að horfa á öll ávörp og kynningar á vef þingsins – husnaedisthing.is

Heimild: stjr.is