Categories
Fréttir Greinar

Réttlátari húsnæðismarkaður

Deila grein

31/08/2023

Réttlátari húsnæðismarkaður

Á haustþingi lít­ur dags­ins ljós þings­álykt­un­ar­til­laga um hús­næðis­stefnu fyr­ir Ísland en stefn­an var kynnt á Hús­næðisþingi í gær. Það kann að hljóma ein­kenni­lega en það verður í fyrsta sinn sem slík til­laga er lögð fyr­ir Alþingi Íslend­inga. Helsta ástæðan fyr­ir því að slík til­laga hef­ur aldrei áður litið dags­ins ljós er lík­ast til sú að það er ekki fyrr en með nýju innviðaráðuneyti sem hús­næðis- og mann­virkja­mál, skipu­lags­mál og sveit­ar­stjórn­ar­mál eru í fyrsta sinn öll und­ir ábyrgðarsviði eins og sama ráðherr­ans.

Markaður­inn þarf aðstoð

Drög að hús­næðis­stefnu hafa verið í sam­ráðsgátt stjórn­valda síðustu vik­ur og lýk­ur hinu opna sam­ráði mánu­dag­inn 4. sept­em­ber. Meg­in­inn­tak stefn­unn­ar er að hús­næði sé hluti af vel­ferð okk­ar allra. Við þurf­um öll þak yfir höfuðið. Segja má að sú stefna, eða stefnu­leysi, sem ríkt hef­ur feli í stuttu máli í sér að hinn frjálsi markaður eigi að sjá um hús­næðis­stefn­una með lög­mál­um markaðar­ins. Mín skoðun er sú að málið sé ekki svo ein­falt þegar um er að ræða grunnþarf­ir mann­eskj­unn­ar sem hús­næði er svo sann­ar­lega. Það eru og verða alltaf ein­stak­ling­ar og fjöl­skyld­ur sem eiga ein­hverra hluta vegna erfitt með að eign­ast þak yfir höfuðið. Við get­um sem sam­fé­lag ekki snúið blinda aug­anu að þeirri staðreynd. Við erum nor­rænt vel­ferðarsam­fé­lag og get­um lært mikið af frænd­um okk­ar ann­ars staðar á Norður­lönd­um sem hafa þróað öfl­ugt kerfi í kring­um hús­næðismál, ekki síst út frá vel­ferðarsjón­ar­miðum.

Kyn­slóðarúll­ett­an

Stærsta verk­efni stjórn­mál­anna nú er að ná bönd­um á verðbólgu og skapa aðstæður fyr­ir lægri vexti. Það er því stór­kost­legt efna­hags­legt verk­efni að byggja upp hús­næðismarkað sem er laus við þess­ar ýktu sveifl­ur sem við höf­um búið við síðustu ár og ára­tugi, ýkt­ar sveifl­ur á verði hús­næðis sem koma af full­um þunga inn í hús­næðislið vísi­töl­unn­ar sem ekki hef­ur náðst samstaða um að breyta. Því miður. Þess­ar ýktu sveifl­ur búa til eins kon­ar kyn­slóðarúll­ettu sem ger­ir það að verk­um að það að koma þaki yfir höfuðið leggst á órétt­lát­an hátt mis­jafn­lega á kyn­slóðir fyrstu kaup­enda.

Tvenns kon­ar mark­mið

Hús­næðis­stefn­an fel­ur í sér tvenns kon­ar mark­mið. Ann­ars veg­ar mark­miðið um að ná jafn­vægi á hús­næðismarkaði til lengri tíma með því að vinna upp þá upp­bygg­ing­ar­skuld sem orðið hef­ur til eft­ir frostið í kjöl­far banka­hruns­ins og ófull­nægj­andi fram­boðs lóða. Sú yf­ir­sýn sem við höf­um öðlast með þétt­ara sam­starfi rík­is, sveit­ar­fé­laga og bygg­ing­araðila er mik­il­væg­ur grunn­ur til að standa á til að ná þess­um mark­miðum til lengri tíma. Nauðsyn­legt er talið að byggja 35 þúsund íbúðir á næstu tíu árum.

Hins veg­ar er um að ræða skamm­tíma­mark­mið sem miða að því að taka utan um þá hópa sem veik­ast standa fjár­hags­lega og eiga í erfiðleik­um með að eign­ast eða leigja hús­næði. Við vinnu við fjár­mála­áætl­un til árs­ins 2028 var aukið veru­lega við stuðning við hús­næðis­upp­bygg­ingu, bæði með hækk­un stofn­fram­laga til bygg­ing­ar hag­kvæms hús­næðis á viðráðan­legu verði og með breyt­ing­um á skil­mál­um hlut­deild­ar­lána.

Línu­dans á tím­um verðbólgu

Upp­bygg­ing á tím­um verðbólgu er línu­dans. Gæta verður að því að auka ekki á þenslu á sama tíma og vinna verður gegn hús­næðis­skorti sem leiðir til hækk­un­ar á hús­næðis­verði og þar af leiðandi hærri verðbólgu. Þau verk­færi sem eru í verk­færa­k­istu hins op­in­bera og þróuð hafa verið frá því Fram­sókn hélt um tauma í fé­lags­málaráðuneyt­inu árin 2013-2016 og síðar 2017-2021 hafa reynst vel í yf­ir­stand­andi vinnu og munu gera það áfram. Í þeirri kistu er að finna tæki til að skapa jafn­vægi fram­boðs og eft­ir­spurn­ar.

Mik­il­vægt að tryggja ör­yggi leigj­enda

Eitt af því sem verk­tak­ar hafa gagn­rýnt er að verið sé að leggja áherslu á upp­bygg­ingu þroskaðs leigu­markaðar. Þess má geta að leigu­markaður­inn á Íslandi er gjör­ólík­ur því sem þekk­ist hjá hinum nor­rænu þjóðunum. Hann er mun minni og ein­kenn­ist miklu síður af óhagnaðardrifn­um leigu­fé­lög­um. Þeir sem hafa sökkt sér ofan í aðstæður á ís­lensk­um leigu­markaði kom­ast fljótt að því að það sem ein­kenn­ir hann er óör­yggi leigj­enda og er ekki óal­gengt að heyra sög­ur af fólki sem þarf að vera í stöðugum flutn­ing­um milli skóla­hverfa til að tryggja börn­um sín­um þak yfir höfuðið. Ég hef alla tíð verið talsmaður þess að fólk eigi helst að eiga frek­ar en leigja en við get­um ekki horft fram hjá því að alltaf er ein­hver hóp­ur fólks sem annaðhvort vill eða verður að búa í leigu­hús­næði. Það er óá­byrgt að láta sem þessi hóp­ur sé ekki til þótt hann sé ekki stór.

Kæri les­andi.

Fátt er mik­il­væg­ara fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag en það að skapa for­send­ur fyr­ir rétt­lát­ari hús­næðismarkaði. Stór skref hafa verið stig­in á síðustu árum og ný hús­næðis­stefna verður mik­il­væg­ur liður í því að bæta lífs­kjör á Íslandi. Hús­næðismál eru ekki aðeins spurn­ing um vel­ferð held­ur einnig stórt efna­hags­mál. Aukið fram­boð nýrra íbúða á næstu árum er nauðsyn­legt til þess að koma á jafn­vægi á hús­næðismarkaði til framtíðar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. ágúst 2023.