Categories
Fréttir

Hvenær geta einstæðir foreldrar aflað tekna?

Deila grein

11/03/2019

Hvenær geta einstæðir foreldrar aflað tekna?

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, fór yfir í umræðu um efnahagslega stöðu íslenskra barna á Alþingi í síðustu viku, mikilvægi þessa „að lægstu launin hækki og að hærri hluti grunnlaunanna fáist á dagvinnutíma, því að það er tíminn sem einstæðir foreldrar geta aflað tekna.“
Í skýrslu er gerð var fyrir Velferðarvaktina og var kynnt á dögunum, en félagsfræðingurinn Kolbeinn Stefánsson vann þá skýrslu, „segir okkur að börn einstæðra foreldra og öryrkja búi við lökust lífskjör á Íslandi, þó að lífskjör barna á Íslandi séu á heildina litið góð, sem betur fer, í samanburði við flest önnur Evrópulönd. En það er óviðunandi að einhver börn búi við fátækt hér og við eigum að setja það í algjöran forgang að bæta lífskjör barna fram yfir alla aðra hópa,“ sagði Líneik Anna.
Ræða Líneikar Önnu Sævarsdóttur, alþingismanns, á Alþingi 7. mars 2019.

„Í skýrslunni er tillögum eða leiðum til úrbóta skipt í þrennt; tekjur, fjölskylda, laun, og tilfærslukerfi hins opinbera til að bæta lífskjör og draga úr fátækt og að síðustu opinber þjónusta sem getur aukið jöfnuð.“
„Hins vegar langar mig að stoppa við fæðingarorlofið. Við ræðum oft um lengingu þess og hámarksgreiðslur, en gólfið, lágmarksgreiðslurnar, er það sem setur suma foreldra, unga foreldra, í mjög erfiða stöðu strax á fyrstu mánuðum þess tíma sem þau eru foreldrar,“ sagði Líneik Anna.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, var viðstaddur kynningu á skýrslunni og sagði m.a. við það tækifæri:
„Skýrslan dregur upp þá mynd að staða barna hafi því miður dregist hvað mest aftur úr á þeim árum sem hún tekur til. Það er slæmt til þess að líta að einn viðkvæmasti hópur þjóðfélagsins hafi dregist aftur úr í lífskjörum umfram aðra hópa og er skýrslan sterk áskorun um að leggja töluvert meiri áherslu á þennan hóp enda er hann framtíð landsins. Börnin hafa ekki eins sterka rödd til þess að berjast fyrir eigin réttindum svo það þurfum við sem eldri erum að gera fyrir þau.“
Jafnframt sagði Ásmundur Einar, „[é]g þakka fyrir skýrsluna, en hún er mikilvægt innlegg í starfið sem er framundan í málefnum barna. Málefni barna hafa nú fengið veglegri sess í félagsmálaráðuneytinu. Það er ófullnægjandi að börn búi við fátækt og ójöfnuð og mun vinnan í málefnum barna sem framundan er taka mið af þeim upplýsingum sem fyrir liggja í skýrslunni.“