Categories
Fréttir

Hver græðir? Neytendur?

Deila grein

29/11/2018

Hver græðir? Neytendur?

„Virðulegi forseti. Við förum oft fögrum orðum um að gæta hagsmuna neytenda en erum ekki alveg sammála um hvaða leið sé rétt í þeim efnum. Ég hef verið nokkuð sannfærð um að hagsmunir bænda og neytenda fari saman þegar varað er við innflutningi á hráu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og eggjum. En ef ég hef verið eitthvað villuráfandi í þessum efnum er ég orðin algerlega sannfærð eftir að ég horfði á Kastljóssþáttinn í gær. Þar skiptust á skoðunum þeir Karl Kristinsson, prófessor í sýklafræðum, og Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Þar tókust þeir á um ávinning neytenda af fyrrgreindum innflutningi og sitt sýndist hvorum. Karl talaði út frá staðreyndum vísindanna en Ólafur talaði máli mammons. Máli sínu til stuðnings hvatti hann til og talaði um að viðhalda varúðarráðstöfunum til að lágmarka áhættuna.
Já, áhættuna. Því áhættan er staðreynd og þekkt. Við höfum verið á hraðferð við að opna landið fyrir innflutningi á landbúnaðarafurðum. Fylgjendur þeirra sem tala fyrir frjálsum innflutningi segjast tala máli neytenda og tala fyrir frelsi bænda. Ekki skal dregið úr þeirri staðreynd að málefni neytenda og íslenska landbúnaðarins fari saman. Það á líka við þegar kemur að auknum innflutningi landbúnaðarvara. Það er stórt hagsmunamál íslensks landbúnaðar og neytenda að brugðist verði við auknum innflutningi á hrávörum. Þar getur hreinlega skilið á milli feigs og ófeigs í hreinleika íslenskra búvara.
Í gær féllu þau orð í þessum ræðustól að Framsóknarmönnum væri í nöp við neytendur og stæðu í vegi fyrir að þeir gætu keypt ódýrari matvöru. Þessu svaraði formaður Félags atvinnurekanda afdráttarlaust í Kastljósi í gær. Það er ekki verið að sækjast eftir ódýrari ferskvöru heldur reyndar þvert á móti, dýrri gæðavöru. Erum við þá ekki komin hringinn? Hver græðir? Neytendur? Nei.“ –
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins 21. nóvember 2018.