Categories
Fréttir

Hver nýtur vafans í kerfinu?

Deila grein

11/11/2019

Hver nýtur vafans í kerfinu?

Hjálmar Bogi Hafliðason, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, fór yfir í umræðu um málefni innflytjenda á Alþingi á dögunum að það væri fjölbreyttur hópurinn er komi til landsins af ýmsum ástæðum, svo sem til að mennta sig, atvinnu, fjölskyldutengsla eða jafnvel á flótta.
„Innflytjendur eiga sér stutta sögu á Íslandi eins og tölurnar segja og á bak við tölurnar er raunverulegt fólk. Kerfin okkar hafa þurft að takast á við miklar breytingar á skömmum tíma og hugsanlega tala kerfin ekki saman. Kerfi sem þjónustar innflytjendur og hælisleitendur beint, heilbrigðiskerfið, félagsþjónustan og fleiri. Hlutfall innflytjenda á Íslandi hefur aldrei verið hærra en árið 2018 voru innflytjendur um 13% mannfjöldans og þetta fólk er lykilþáttur í hagvexti á Íslandi.“
„Það er ljóst að við getum gert svo miklu betur til þess að virkja þennan hóp í samfélagi okkar til aukinnar þátttöku. Það er nefnilega svo ótal margt sem við, hinir venjulegu Íslendingar, getum lært af fólki með aðra reynslu, annan bakgrunn, aðra hugsun og aðra menningu,“ sagði Hjálmar Bogi.
„Við hljótum flest að vera sammála um að ólíkir menningarstraumar auðgi okkar eigin menningu og geri okkur að betra samfélagi. Það er hins vegar ógjörningur fyrir okkur sem hér störfum að setja okkur í spor fólks á flótta, fólks í leit að betra lífi, og því síður ættum við að slá pólitískar keilur vegna hræðilegra aðstæðna fólks. Það eru nefnilega viðbrögðin sem skipta máli. Hvort ætlum við að standa hér til að komast í fjölmiðla eða leggja til breytingar á kerfi sem þarfnast sannarlega endurskoðunar við?“
Gerum það að menningu okkar stjórnmálamanna að bæta það sem þarfnast sannarlega endurskoðunar við og fögnum því að hingað til lands vilji fólk koma, dvelja hér, búa, eignast börn, læra og lifa. Ég held að hv. þm. Þórhildur Sunna hafi hitt naglann á höfuðið um gallað kerfi: Hver nýtur vafans í kerfinu? Það er rétt. Og eins og hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir orðaði það: Kurteisi og samkennd verða ekki skrifuð í lög,“ sagði Hjálmar Bogi.