Categories
Fréttir

„Í alvöru krakkar!? Ætlum við að hafa þetta svona?“

Deila grein

05/06/2024

„Í alvöru krakkar!? Ætlum við að hafa þetta svona?“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, fór í störfum þingsins yfir markmið laga um smásölu áfengis sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð og vernd ungs fólks. Því til grundvallar eru alþjóðlegar leiðbeiningar um forvarnir er mæla með stýrðu aðgengi að áfengi. „Ef breyta á sölufyrirkomulaginu hér á landi þarf það að gerast eftir lýðræðislega umræðu og lagasetningu. Slík ákvörðun er ekki í höndum verslana án samhengis við forvarnastefnu.“

Á Íslandi hefur ÁTVR einkaleyfi til afhendingar og smásölu áfengis. Lögin eru skýr. Einkasölufyrirkomulag áfengis er liður í forvarnastefnu eins og víðar.

„Markmið laga um verslun með áfengi eru m.a. að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð og vernd ungs fólks. Alþjóðlegar leiðbeiningar um forvarnir mæla með stýrðu aðgengi að áfengi. Ef breyta á sölufyrirkomulaginu hér á landi þarf það að gerast eftir lýðræðislega umræðu og lagasetningu. Slík ákvörðun er ekki í höndum verslana án samhengis við forvarnastefnu.“

„Það hefur verið horft til árangurs okkar Íslendinga við að draga úr áfengisneyslu barna og ungmenna en þar höfum við náð þeim árangri að hér er minnst áfengisneysla barna innan OECD. Stýrt aðgengi, há skattlagning og samvinna í gegnum íslenska forvarnamódelið hafa skilað okkur þessum árangri. Við eigum á hættu að missa þetta allt niður ef áfram verður haldið að fara á svig við áfengislög með gervinetsölu.“

„Þrátt fyrir einkasöluna hefur aðgengi að áfengi á Íslandi aukist mikið síðustu áratugi. Í kjölfarið höfum við séð aukinn vanda meðal fullorðinna. Hópurinn stækkar sem drekkur eitthvert áfengi flesta daga og drykkja á mann mæld í hreinum vínanda hefur aukist verulega, með ýmsum fylgikvillum, t.d. sjöföldun á áfengistengdum lifrarsjúkdómum á 20 árum.“

„Í dag skrifar okkar helsti sérfræðilæknir í lyf- og fíknilækningum, Valgerður Rúnarsdóttir, grein á Vísi þar sem hún spyr, með leyfi forseta:

„Í alvöru krakkar!? Ætlum við að hafa þetta svona? Að láta lýðheilsu framtíðar lönd og leið ef einhverjir geta makað krókinn í dag?““

„Ég tek undir þessa spurningu,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Hér á landi hefur ÁTVR einkaleyfi til afhendingar og smásölu áfengis. Lögin eru skýr. Einkasölufyrirkomulag áfengis er liður í forvarnastefnu eins og víðar. Markmið laga um verslun með áfengi eru m.a. að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð og vernd ungs fólks. Alþjóðlegar leiðbeiningar um forvarnir mæla með stýrðu aðgengi að áfengi. Ef breyta á sölufyrirkomulaginu hér á landi þarf það að gerast eftir lýðræðislega umræðu og lagasetningu. Slík ákvörðun er ekki í höndum verslana án samhengis við forvarnastefnu.

Það hefur verið horft til árangurs okkar Íslendinga við að draga úr áfengisneyslu barna og ungmenna en þar höfum við náð þeim árangri að hér er minnst áfengisneysla barna innan OECD. Stýrt aðgengi, há skattlagning og samvinna í gegnum íslenska forvarnamódelið hafa skilað okkur þessum árangri. Við eigum á hættu að missa þetta allt niður ef áfram verður haldið að fara á svig við áfengislög með gervinetsölu.

Þrátt fyrir einkasöluna hefur aðgengi að áfengi á Íslandi aukist mikið síðustu áratugi. Í kjölfarið höfum við séð aukinn vanda meðal fullorðinna. Hópurinn stækkar sem drekkur eitthvert áfengi flesta daga og drykkja á mann mæld í hreinum vínanda hefur aukist verulega, með ýmsum fylgikvillum, t.d. sjöföldun á áfengistengdum lifrarsjúkdómum á 20 árum. Í dag skrifar okkar helsti sérfræðilæknir í lyf- og fíknilækningum, Valgerður Rúnarsdóttir, grein á Vísi þar sem hún spyr, með leyfi forseta:

„Í alvöru krakkar!? Ætlum við að hafa þetta svona? Að láta lýðheilsu framtíðar lönd og leið ef einhverjir geta makað krókinn í dag?“

Ég tek undir þessa spurningu.“