Categories
Fréttir

„Í áratugi var táknmálið bannað“

Deila grein

05/02/2020

„Í áratugi var táknmálið bannað“

„Í næstu viku fagnar Félag heyrnarlausra 60 ára afmæli. Félagið er hagsmunafélag sem veitir hvers konar ráðgjöf og álit er snýr að málefnum heyrnarlausra. Heyrnarlausir eru málminnihlutahópur og þurfa því að reiða sig mikið á aðstoð túlka í sínum samskiptum í samfélaginu þar sem þeirra tungumál er lítt þekkt í þeirra umhverfi,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í gær.

„Baráttusaga heyrnarlausra er merkileg og hreint ótrúleg og baráttan fyrir tungumáli þeirra hefur ekki verið áfallalaus í gegnum tíðina. Í áratugi var táknmálið bannað og það var ekki fyrr en 1980 að því banni var aflétt. Svo var það árið 2011 að táknmál varð löglegt hér á landi sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra og aðstandenda þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Þar með skuldbundu stjórnvöld sig til að hlúa að því og styðja. Þarna var mikilvægum áfanga náð.“

„Þó að þessum áfanga sé náð eru baráttumálin mörg. Þrátt fyrir að íslenskt táknmál sé opinbert mál hér á landi er lítil sem engin fræðsla eða kennsla í skólum landsins um það. Lítið sem ekkert er gert til að kynna og kenna íslenskt táknmál fyrir nemendum. Ég er sannfærð um að táknmálið yrði útbreiddara og viðurkennt að fullu ef það yrði kennt í grunnskólum landsins. Sjónvarpsefni er sjaldan textað eða túlkað og þeir sem lifa ekki nálægt döffsamfélaginu þekkja sjaldnast táknmálið. Þess vegna eru heyrnarlausir háðir túlkaþjónustu í sínu hversdagslega lífi,“ sagði Halla Signý.
„Táknmál er ekki einkamál heyrnarlausra. Það er tungumál stórs hóps og opinbert mál hér á landi og ætti auðvitað að vera gert hærra undir höfði en nú er gert. Öll opinber þjónusta ætti að huga betur að þessu.
Ég vil nota tækifærið og færa Félagi heyrnarlausra árnaðaróskir í tilefni af þessum tímamótum og þakka því fyrir baráttuna fyrir réttindum þessa málminnihlutahóps,“ sagði Halla Signý.