Categories
Fréttir

Ingi Tryggvason látinn

Deila grein

28/08/2018

Ingi Tryggvason látinn

Ingi Tryggvason, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins er látinn. Ingi lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík 22. ágúst, 97 ára að aldri.
Ingi var alþingismaður Norðurlands eystra 1974–1978, en hafði verið varaþingmaður Norðurlands eystra mars 1972, janúar–febrúar og nóvember 1973 og maí 1974.
Ingi var fæddur á Litlu-Laugum í Reykjadal 14. febrúar 1921. Foreldrar hans voru Tryggvi Sigtryggsson bóndi á Laugabóli í Reykjadal og Unnur Sigurjónsdóttir. Eiginkona Inga var Anna Septíma Þorsteinsdóttir kennari og húsmóðir. Synir Inga og Önnu eru: Haukur Þór, Tryggvi, Þorsteinn Helgi, Steingrímur og Unnsteinn. Sambýliskona Inga síðustu árin var Unnur Kolbeinsdóttir.
Ingi tók kennarapróf KÍ 1942 og sótti kennaranámskeið í Askov á Jótlandi 1946. Hann nam í kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn 1946–1947 og í The Polytechnic School of Modern Languages í Lundúnum 1947–1948.
Kennari í Lundarreykjadal 1942–1943, við barnaskólann á Eskifirði 1943–1944, skólastjóri barnaskólans í Grenivík 1944–1945, kennari við Héraðsskólann á Laugum 1945–1946 og 1949–1970 og við Gagnfræðaskólann á Siglufirði 1948–1949. Sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykdæla 1952–1974. Bóndi á Kárhóli í Reykjadal 1955–1986. Ferðaþjónustubóndi á Narfastöðum í Reykjadal frá 1988.
Ingi var í stjórn Sparisjóðs Reykdæla 1952–1982. Í hreppsnefnd Reykdælahrepps 1966–1974. Í stjórn Sambands íslenskra sparisjóða 1967–1981. Í stjórn Stéttarsambands bænda 1969–1987, formaður stjórnarinnar frá 1981. Skipaður 1971 í endurskoðunarnefnd laga um framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. Í Sexmannanefnd — verðlagsnefnd landbúnaðarins 1972–1987. Í skólanefnd Héraðsskólans á Laugum 1974–1982, formaður 1974–1978. Í tryggingaráði 1974–1978. Í stjórn Landverndar 1975–1981. Í Framleiðsluráði landbúnaðarins 1976–1987, formaður þess frá 1980. Forstöðumaður ullar- og skinnaverkefnis Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins 1978–1980. Sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1978. Stjórnarformaður Grænmetisverslunar landbúnaðarins 1980–1987. Í stjórn Norrænu bændasamtakanna 1981–1987. Í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins 1982–1990 og í stjórn Framleiðnisjóðs landbúnaðarins 1982–1988.
Við Framsóknarmenn minnumst alþingismanns með djúpri virðingu og þakklæti og vottum aðstandendum innilega samúð.