Categories
Fréttir

„Innflutt kjötvara er nú orðin stærri hluti af sölunni í heild“

Deila grein

06/02/2024

„Innflutt kjötvara er nú orðin stærri hluti af sölunni í heild“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins sífellt versnandi samkeppnisstöðu íslenskra bænda og að um leið skerðist matvælaöryggi landsins. En innflutningur á nautakjöti jókst um 48% á síðasta ári og á kjöti í heild um 17%. Þá hefur kjötframleiðsla innanlands verið svipuð frá árinu á undan og dróst saman í kinda- og nautakjöti um 2%.

„Staðreyndin er sú að innflutt kjötvara er nú orðin stærri hluti af sölunni í heild,“ sagði Halla Signý.

Neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og þeir treysta að þeim kröfum sé framfylgt hér á landi. Því er sjálfsögð sú krafa að neytendur geti treyst að sömu kröfur séu gerðar til innfluttra matvæla.

„Við í Framsókn höfum síðustu misseri tekið okkur stöðu og verið óhrædd við benda á þá ógn sem við stöndum frammi fyrir hvað varðar fjölónæmar bakteríur. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er sýklalyfjaónæmi einhver mesta ógn við heilsufar manna í dag. Þeir hafa brýnt fyrir okkur að verja þurfi þá sérstöðu sem við búum við hér á Íslandi,“ sagði Halla Signý.

„ Í nágrannalöndunum mótmæla bændur stjórnvöldum vegna stöðu sinnar og vekja athygli á að samkeppnisstaða þeirra sé sífellt að veikjast gagnvart innflutningi á matvöru frá nágrannalöndunum. Bændur í Frakklandi óttast að mikill innflutningur frá Spáni á grænmeti og ávöxtum dragi úr sölu innlendra framleiðsluvara, enda þær falar fyrir mun lægra verð. En það er ekki að ástæðulausu því að á Spáni eru ekki gerðar eins ríkar kröfur um umhverfissjónarmið og þar er notað mun meira af eiturefnum við framleiðsluna. Er það framtíðin sem við viljum; lægra verð fyrir minni gæði?,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við treystum og trúum að þeim kröfum sé framfylgt hér á landi. Það hlýtur einnig að vera sjálfsögð krafa að við neytendur getum treyst því að sömu kröfur séu gerðar til innfluttra matvæla. Við í Framsókn höfum síðustu misseri tekið okkur stöðu og verið óhrædd við benda á þá ógn sem við stöndum frammi fyrir hvað varðar fjölónæmar bakteríur. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er sýklalyfjaónæmi einhver mesta ógn við heilsufar manna í dag. Þeir hafa brýnt fyrir okkur að verja þurfi þá sérstöðu sem við búum við hér á Íslandi.

Virðulegi forseti. Nú er það þannig að innflutningur á nautakjöti jókst um 48% á síðasta ári og á kjöti í heild um 17%. Kjötframleiðsla innan lands var svipuð og á árinu á undan og dróst saman í kinda- og nautakjöti en salan dróst saman um 2%. Staðreyndin er sú að innflutt kjötvara er nú orðin stærri hluti af sölunni í heild. Samkeppnisstaða íslenskra bænda er sífellt að versna og matvælaöryggi landsins um leið. Samkeppnin er hörð, ekki bara hér á landi heldur einnig úti í hinum stóra heimi. Bændur í Evrópu eru farnir að mótmæla kröftuglega þar sem innfluttar landbúnaðarafurðir flæða yfir landamæri og veikja markaðsaðstæður. Í nágrannalöndunum mótmæla bændur stjórnvöldum vegna stöðu sinnar og vekja athygli á að samkeppnisstaða þeirra sé sífellt að veikjast gagnvart innflutningi á matvöru frá nágrannalöndunum. Bændur í Frakklandi óttast að mikill innflutningur frá Spáni á grænmeti og ávöxtum dragi úr sölu innlendra framleiðsluvara, enda þær falar fyrir mun lægra verð. En það er ekki að ástæðulausu því að á Spáni eru ekki gerðar eins ríkar kröfur um umhverfissjónarmið og þar er notað mun meira af eiturefnum við framleiðsluna. Er það framtíðin sem við viljum; lægra verð fyrir minni gæði?“