Categories
Greinar

Fern Grammy-verðlaun á fjórum árum

Deila grein

06/02/2024

Fern Grammy-verðlaun á fjórum árum

Það var gam­an að fylgj­ast með sjö­tug­ustu og sjöttu Grammy-tón­list­ar­verðlauna­hátíðinni í fyrra­kvöld. Þar hlaut söng­kon­an Lauf­ey Lín Jóns­dótt­ir Grammy-verðlaun fyr­ir plötu sína Bewitched í flokki hefðbund­inn­ar popp­tón­list­ar, sung­in tónlist. Lauf­ey hef­ur átt glæsi­legu gengi að fagna á und­an­förn­um miss­er­um en tón­leik­ar henn­ar um all­an heim selj­ast upp á mettíma og tug­ir millj­óna hafa hlustað á hana mánaðarlega á Spotify.

Grammy-verðlauna­hátíðin í ár var sér­stak­lega ánægju­leg fyr­ir okk­ur Íslend­inga, því ekki nóg með að Lauf­ey hafi hlotið verðlaun­in í sín­um flokki held­ur var tón­list­armaður­inn Ólaf­ur Arn­alds einnig til­nefnd­ur til Grammy-verðlauna fyr­ir Some Kind of Peace (e. Piano Reworks) en Ólaf­ur hlaut einnig tvær til­nefn­ing­ar árið 2022 fyr­ir verk sín! Íslend­ing­ar komu einnig við sögu í fleiri til­nefn­ing­um í ár en tölvu­leik­ur­inn Stríðsguðinn Ragnarök hlaut til­nefn­ing­ar fyr­ir besta hljóðritið í flokki tölvu­leikja, og fyr­ir bestu hljóðplöt­una fyr­ir hljóðupp­tök­ur, en Sin­foN­ord á Ak­ur­eyri sá um þær upp­tök­ur.

Það fylg­ir því mik­il upp­hefð að vera til­nefnd­ur til Grammy-tón­list­ar­verðlaun­anna en verðlaun­in eru af mörg­um tal­in þau eft­ir­sótt­ustu í tón­list­ar­heim­in­um. Árang­ur Íslend­inga er því stór­kost­leg­ur en á und­an­förn­um fjór­um árum hafa ís­lensk­ir lista­menn hlotið 10 Grammy-til­nefn­ing­ar, og unnið fjór­um sinn­um; Hild­ur Guðna­dótt­ir fyr­ir tónlist í þátt­un­um Cherno­byl og kvik­mynd­inni Jókern­um, Dísella Lár­us­dótt­ir fyr­ir bestu óperu­upp­tök­una í verk­inu Ak­hna­ten og nú síðast Lauf­ey.

Marg­ir kynnu að spyrja sig að því hvað sé eig­in­lega í vatn­inu hérna á Íslandi, ár­ang­ur­inn er slík­ur miðað þá tæp­lega 400.000 íbúa sem byggja þetta góða land. Að mín­um dómi er þetta hins veg­ar eng­in til­vilj­un. Það rík­ir metnaður til þess að halda úti öfl­ugu menn­ing­ar­lífi, framúrsk­ar­andi tón­list­ar­kenn­ar­ar og góður aðgang­ur að tón­list­ar­námi og þrot­laus vinna og metnaður tón­list­ar­mann­anna sjálfra er að skila sér með glæsi­leg­um hætti.

Sól­ar­sýn­in er skýr og það er mik­il­vægt að standa með lista­mönn­un­um okk­ar í blíðu jafnt sem stríðu. Aflvak­inn er að haldið verði áfram að styrkja um­gjörð menn­ing­ar­lífs­ins í land­inu. Í næstu fjár­mála­áætl­un mun­um við kynna ný áherslu­atriði sem styðja við þann metnað. Við finn­um það á stund­um sem þess­um hversu stolt við verðum þegar fólk­inu okk­ar geng­ur vel á er­lendri grundu – það er ávöxt­ur þess að fjár­festa í menn­ingu og skap­andi grein­um. Ég óska Lauf­eyju inni­lega til ham­ingju með Grammy-verðlaun­in og Ólafi og Sin­foN­ord sömu­leiðis með sinn ár­ang­ur. Ég er stolt af ykk­ur fyr­ir fram­lag ykk­ar til ís­lenskr­ar menn­ing­ar og hvet ykk­ur áfram til dáða í sköp­un ykk­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. febrúar 2024.