Categories
Fréttir

Ríkum íslenskum hagsmunum gætt!

Deila grein

05/02/2024

Ríkum íslenskum hagsmunum gætt!

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, flutti skýrslu Íslandsdeildar þingmannanefndar Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðisins (EES) fyrir árið 2023 á Alþingi í liðinni viku. Nefndin myndar sendinefnd Alþingis, bæði í þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES. Þá myndar Íslandsdeildin ásamt fjórum þingmönnum úr utanríkismálanefnd sendinefnd Alþingis í sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og ESB.

Fór hún yfir í ræðu sinni hversu veigamiklu hlutverki sem EFTA og EES hafa sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES er Íslendingum tryggður að langmestu leyti sömu viðskiptakjör og 30 önnur Evrópuríki með rúmlega 460 milljóna manna markað. EFTA hefur, að auki rekstri EES-samningsins byggt upp öflugt net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki.

Haldnir hafa verið fundir með ráðherrum EFTA þar sem einkum var fjallað um græna tækni, styrkjakerfi á heimsvísu og stefnu ESB á sviði efnahagsöryggis og eins fund með utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan EES um EES-samstarfið. Þróun alþjóðaviðskipta, viðskiptastefna ESB og aðgerðir til að bæta samkeppnisstöðu innri markaðarins hafa verið áberandi umfjöllunarefni. Jafnframt iðnaðaráætlun græna sáttmála ESB þar sem tvær tillögur að lagasetningu eru undir, annars vegar um aðgengi að hrávörum innan ESB og hins vegar um kolefnislausan iðnað. „Tillögur þessar miða m.a. að því að draga úr hættu á því að ESB verði háð einstökum ríkjum um mikilvægar hrávörur eða um orkugjafa. Þeim er jafnframt ætlað að stuðla að umhverfisvænni framleiðslu orku og tækni á innri markaði.“

Framkvæmdastjórn þingmannanefndarinnar átti fundi með þingnefndum, ráðherrum, stofnunum og hagsmunaaðilum í Nýju Delí og Mumbai um fríverslunarmál og aukið efnahagslegt samstarf í ljósi þess að fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna og Indlands standa yfir.

„Staða Úkraínu í kjölfar innrásar Rússlands var áberandi í starfi þingmannanefndarinnar síðastliðið ár eins og árið þar á undan. Hinn 27. júní var sérstök athöfn í Schaan í Liechtenstein samhliða fundi þingmannanefndarinnar og ráðherra til að marka upphaf viðræðna við Úkraínu um endurbættan og nútímalegri fríverslunarsamning,“ sagði Ingibjörg.

„Á árinu var jafnframt fjallað um þvingunaraðgerðir ESB gegn Rússlandi sem EES-EFTA-ríkin hafa tekið þátt í. Fjallað var um nýjar þvingunaraðgerðir sem ætlað er að koma í veg fyrir að aðilar komi sér undan reglunum. Þá var einnig rætt um mögulegar aðildarviðræður Úkraínu við ESB en Úkraínu var formlega veitt staða umsóknarríkis að ESB í júní 2022 og í desember síðastliðnum samþykkti ESB að hefja viðræður við Úkraínu.“

„Þingmannanefnd EES fundaði tvisvar sinnum á árinu og var venju samkvæmt fjallað um þróun og framkvæmd EES-samningsins á þeim fundum. Á fyrri fundi nefndarinnar í Strassborg í mars fjölluðu nefndarmenn Íslandsdeildarinnar um fyrirhugaðar breytingar á EES-löggjöf um viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug, sérstöðu Íslands og þeim verulegu áhrifum sem þær kæmu til með að hafa á íslenska hagsmuni yrðu þær teknar óbreyttar upp í EES-samninginn,“ sagði Ingibjörg.