Categories
Fréttir

Ísland er að flytja inn verðbólgu í stórum stíl

Deila grein

08/03/2023

Ísland er að flytja inn verðbólgu í stórum stíl

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, fór yfir óhagstæðan viðskiptajöfnuð Íslendinga nú í febrúar í störfum þingsins. Fluttar voru út vörur frá Íslandi fyrir 73,8 milljarða í febrúar 2023 en innflutningurinn nam 99,7 milljörðum, samkvæmt nýjum bráðabirgðatölum frá Hagstofunni.

„Vöruviðskipti okkar voru okkur því óhagstæð um 26,9 milljarða en til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 15,1 milljarð í febrúar 2022, á gengi hvors árs fyrir sig. Ljóst er að innflutningur okkar er okkur mjög dýr og munurinn milli ára er gríðarlegur. Fyrir því eru ýmsar ástæður eins og við vitum,“ sagði Hafdís Hrönn.

Verðmæti vöruútflutnings jókst um 24,9% á 12 mánaða tímabili.

  • Iðnaðarvörur voru 57% af öllum útflutningi og jókst verðmæti þeirra um 35%
  • Sjávarafurðir eru 35% og jókst verðmæti þeirra um 16,3%

Verðmæti vöruinnflutnings jókst um 30,9% á 12 mánaða tímabili.

  • Verðmæti hrá- og rekstrarvöru jókst um 15%
  • Verðmæti fjárfestingarvara jókst um 13%
  • Verðmæti eldsneytis jókst um 37,9%

„Viðskiptajöfnuðurinn fyrir síðustu 12 mánuði er okkur verulega óhagstæður. Í þessum ræðustól höfum við verið að ræða um stöðu efnahagsmálanna og verðbólgu í landinu. Af þessu er kristalskýrt að við erum að flytja inn verðbólgu í stórum stíl. Þetta er ekki eina ástæðan fyrir þeirri verðbólgu sem við búum við í dag en þetta hefur svo sannarlega áhrif og við þurfum að horfast í augu við það,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.


Ræða Hafdísar Hrannar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Fluttar voru út vörur frá Íslandi fyrir 73,8 milljarða í febrúar 2023 en innflutningurinn nam 99,7 milljörðum, samkvæmt nýjum bráðabirgðatölum frá Hagstofunni. Vöruviðskipti okkar voru okkur því óhagstæð um 26,9 milljarða en til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 15,1 milljarð í febrúar 2022, á gengi hvors árs fyrir sig. Ljóst er að innflutningur okkar er okkur mjög dýr og munurinn milli ára er gríðarlegur. Fyrir því eru ýmsar ástæður eins og við vitum.

Verðmæti vöruútflutnings jókst um 24,9% á 12 mánaða tímabili. Iðnaðarvörur voru 57% af öllum útflutningi og jókst verðmæti þeirra um 35%. Sjávarafurðir eru 35% og jókst verðmæti þeirra um 16,3% miðað við 12 mánaða tímabil. Verðmæti vöruinnflutnings jókst um 30,9% á 12 mánaða tímabili og verðmæti hrá- og rekstrarvöru jókst um 15%. Verðmæti fjárfestingarvara jókst um 13% og verðmæti eldsneytis um 37,9%, samanborið við árið á undan. Verðmæti vöruinnflutnings á 12 mánaða tímabili jókst um 30,9% á gengi hvors árs fyrir sig og aukningin var mest í eldsneyti, hrá- og rekstrarvörum og fjárfestingarvörum.

Virðulegi forseti. Viðskiptajöfnuðurinn fyrir síðustu 12 mánuði er okkur verulega óhagstæður. Í þessum ræðustól höfum við verið að ræða um stöðu efnahagsmálanna og verðbólgu í landinu. Af þessu er kristalskýrt að við erum að flytja inn verðbólgu í stórum stíl. Þetta er ekki eina ástæðan fyrir þeirri verðbólgu sem við búum við í dag en þetta hefur svo sannarlega áhrif og við þurfum að horfast í augu við það.“