Categories
Greinar

Nýr kafli í flugsögu Íslands

Deila grein

08/03/2023

Nýr kafli í flugsögu Íslands

Mik­ill ár­ang­ur hef­ur náðst í því að styðja við upp­bygg­ingu beins milli­landa­flugs á lands­byggðinni. Líkt og greint var frá í frétt­um ný­verið verður met­fjöldi er­lendra áfangastaða í boði á lands­byggðinni í ár en hægt verður að fljúga beint frá Ak­ur­eyri til Kaup­manna­hafn­ar, Düs­seldorf, Teneri­fe, Alican­te, Zürich og Frankfurt – sem einnig verður í boði frá Eg­ils­stöðum.

Þetta er ánægju­leg þróun sem skipt­ir máli fyr­ir þjóðarbúið allt og staðfest­ing á því að stefna stjórn­valda sé að virka. Mark­visst hef­ur verið unnið að því að styðja við upp­bygg­ingu milli­landa­flugs á lands­byggðinni og opna þannig fleiri gátt­ir inn í landið. Flugþró­un­ar­sjóður var sett­ur á lagg­irn­ar til þess að styðja flug­fé­lög í að þróa og markaðssetja beint alþjóðaflug til Ak­ur­eyr­ar og Eg­ilsstaða. Þá tók ég ákvörðun um að veita sér­stak­lega fjár­mun­um til Markaðsstofu Norður­lands og Aust­ur­brú­ar til þess að efla kynn­ingu á flug­völl­un­um á Ak­ur­eyri og Eg­ils­stöðum sem alþjóðaflug­völl­um og setja auk­inn slag­kraft í markaðssetn­ingu á Norður- og Aust­ur­landi sem væn­leg­um áfanga­stöðum með beinu milli­landa­flugi. Sam­hliða þessu hafa stjórn­völd fjár­fest í upp­bygg­ingu flug­innviða á svæðunum, til að mynda stækk­un flug­stöðvar­inn­ar á Ak­ur­eyri, sem ger­ir flug­völl­inn bet­ur í stakk bú­inn til þess að þjón­usta milli­landa­flug. Þá var einnig ráðist í end­ur­bæt­ur á Eg­ilsstaðaflug­velli en árið 2021 var nýtt mal­bik lagt á flug­braut­ina og unnið er að til­lög­um um að stækka flug­hlað og leggja ak­braut­ir.

Það skipt­ir miklu máli fyr­ir sam­fé­lagið að opna fleiri gátt­ir inn í landið og nýta þau tæki­færi sem því fylgja. Flug­saga Íslands er far­sæl og sá ár­ang­ur sem náðst hef­ur í að byggja upp greiðar og tíðar flug­sam­göng­ur til og frá land­inu hef­ur aukið sam­keppn­is­hæfni þess veru­lega. Það er til mik­ils að vinna að styðja við upp­bygg­ingu alþjóðaflugs á lands­byggðinni. Beint milli­landa­flug virk­ar sem víta­mínsprauta fyr­ir at­vinnuþróun á Norður- og Aust­ur­landi og eyk­ur veru­lega mögu­leika á að styrkja ferðaþjón­ustu á svæðunum; lengja ferðatíma­bil er­lendra ferðamanna og minnka árstíðasveifl­ur, stuðla að betri dreif­ingu ferðamanna um landið og skapa tæki­færi til þess að nýta bet­ur fjár­fest­ing­ar í innviðum og afþrey­ingu í ferðaþjón­ustu en nú þekk­ist. Auk­in­held­ur eyk­ur þetta lífs­gæði íbú­anna á svæðunum sem geta nýtt sér þess­ar greiðari sam­göng­ur – en hundruð tengiflugs­mögu­leika eru í boði frá þeim áfanga­stöðum sem flogið verður til.

Þessi já­kvæða þróun skipt­ir miklu máli fyr­ir sam­fé­lagið allt og tryggja verður að hún verði viðvar­andi. Með það fyr­ir aug­um hafa stjórn­völd ákveðið að festa Flugþró­un­ar­sjóð í sessi til þess að skapa hvata til áfram­hald­andi leiðarþró­un­ar til Ak­ur­eyr­ar og Eg­ilsstaða. Ég bind von­ir við að þessi nýi og spenn­andi kafli í flug­sögu Íslands verði land­inu gæfu­rík­ur og skapi ný tæki­færi fyr­ir land og þjóð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. mars 2023.