Á sólríkum og björtum dögum á Íslandi finnst okkur flestum ástæða til að gleðjast yfir landinu okkar og þeim gæðum sem það hefur upp á að bjóða. Sjálf hef ég ávallt verið stolt af Íslandi, þeim árangri sem náðst hefur og þeim tækifærum sem samfélagið býður upp á. Við búum í öflugu og framsæknu samfélagi sem hefur lagt hart að sér við að skapa þau lífskjör sem við njótum í dag. Efnahagslegar framfarir síðustu aldar vekja athygli á heimsvísu.
Nýverið birti Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna lífskjaralista sinn, þar sem horft er til lífslíka, menntunar og þjóðartekna á mann. Þar kemur fram að Ísland trónir nú á toppi listans, efst allra ríkja heims. Samkvæmt skýrslunni hefur lífskjaravísitala Íslands hækkað um tæp 16%, sem má einkum rekja til aukinna lífslíka, lengri skólagöngu og hækkunar þjóðartekna um 77,3%. Sérstök áhersla er lögð á áhrif gervigreindar í skýrslunni og bent á að hún muni umbreyta nánast öllum þáttum samfélagsins. Hátekjuríki, þar á meðal Ísland, eru sögð hafa forskot vegna þróaðra stafrænna innviða. Þetta setur Ísland í einstaklega sterka stöðu til að nýta möguleika gervigreindar til samfélagslegrar uppbyggingar – með skýrri sýn á þær kerfisbreytingar sem eru fram undan, meðal annars á vinnumarkaði.
Þessi árangur Íslands á lífskjaralistanum gefur tilefni til að staldra við og meta hvað hefur verið gert vel. Eitt af því sem skiptir sköpum er öflug þróun menntakerfisins, einkum á framhaldsskólastiginu, þar sem brotthvarf nemenda hefur dregist verulega saman á undanförnum árum. Fram kemur í skýrslunni að þar stendur Ísland framar en til að mynda Noregur. Síðasta ríkisstjórn lagði ríka áherslu á að efla framhaldsskólastigið og fjárfesti markvisst í því – meðal annars með sérstakri fjárveitingu upp á tæpan milljarð króna til að fjárfesta í því að minnka brotthvarfið í samstarfi við okkar öfluga skólasamfélagið. Samstarfið skilaði því að brotthvarf hefur aldrei mælst lægra á Íslandi.
Það er þó ekki síður mikilvægt að horfa fram á við. Núverandi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir verulegum niðurskurði til menntamála, einkum á framhaldsskólastigi. Sá árangur sem náðst hefur, bæði í að draga úr brotthvarfi og efla verknám, stendur því tæpt – og þar með einnig þau lífskjör sem gera okkur kleift að skara fram úr á heimsvísu.
Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur virðist ekki hafa metnað til að styrkja menntakerfið á þeim tímum þegar mikilvægi menntunar er hvergi meira – á tímum gervigreindar og tæknibreytinga. Verkstjórnin gengur í það að brjóta niður þann markverða árangur sem náðst hefur. Framsókn leggur áherslu á að með öflugu, aðgengilegu og metnaðarfullu menntakerfi tryggjum við að Ísland verði áfram land tækifæranna.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. menntamálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. maí 2025.