Categories
Fréttir

Ísland er grasræktarland

Deila grein

11/12/2019

Ísland er grasræktarland

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, sagði „nú þegar vindurinn æðir yfir landið er veruleg hætta á jarðvegsfoki þar sem land er ekki hulið snjó. Þegar jarðvegur sem inniheldur lífrænt efni fýkur tapast mikið kolefni út í andrúmsloftið. Á degi jarðvegs 5. desember sl. stóðu bændur og stofnanir sem sinna moldinni fyrir góðum fundi. Þar var skýrt dregið fram hversu mikið verkefni við eigum fyrir höndum við að vernda mólendi landsins.“ Þetta kom fram í ræðu hennar í störfum þingsins í gær.
„Með því að styrkja og auka gróðurþekju mólendis er bæði hægt að binda meira kolefni í gróðri og koma í veg fyrir að kolefni þyrlist út í andrúmsloftið í veðrum eins og í dag. Þeir sem standa í framkvæmdum eða ræktun þurfa líka að gæta þess að jarðvegur standi eins stutt opinn og mögulegt er,“ sagði Líneik Anna.

„Mikið kolefni er á hverjum tíma bundið í lífverum jarðar í hringrás náttúrunnar. Öll matvara er unnin úr lífverum sem eru hluti af hringrásinni og við ræktun matvæla er kolefni því í stöðugri hringrás.“

„Áskorun okkar er að tryggja að við matvælaframleiðsluna, vinnsluna og neysluna tapist kolefni ekki beint út í andrúmsloftið og þannig úr hringrásinni, heldur að sem allra mest af hráefninu nýtist til neyslu og það sem ekki nýtist fari beint inn í hringrásina aftur eða bindist í jarðvegi. Þá þarf að gæta að kolefnisfótspori við alla umsýslu, ræktun, meðhöndlun og flutning matvæla.

Í allri umræðu um loftslagsmál og í samhengi við val á matvælum til neyslu verður því að horfa á næringarefnahringrásina og framleiðslumöguleika í hverju landi fyrir sig sem og framleiðsluhætti. Ísland er grasræktarland og við getum verið og orðið sjálfum okkur nóg í framtíðinni um matvöru að mestu leyti; kjöt, fisk og grænmeti.

Við eigum að einbeita okkur að því að framleiða með eins litlu vistspori og mögulegt er. Liður í því er að gæta moldarinnar,“ sagði Líneik Anna.