Þegar reynir á stoðir tungumáls okkar og menningar finnum við til ábyrgðar. Málefni tungumálsins hafa sjaldan verið eins áberandi í umræðunni og síðustu ár. Íslenskan skiptir okkur öll máli og okkur þykir öllum raunverulega vænt um tungumálið okkar. Því í tungumálinu býr menning okkar, merk og aldagömul saga; sjálf þjóðarsálin. Máltækniáætlun stjórnvalda og atvinnulífs hefur skilað undraverðum árangri fyrir tungumálið svo eftir er tekið um allan heim. Enn frekari aðgerða er þörf á því sviði og ég mun beita mér fyrir því að komið verði á fót gervigreindar- og máltæknimiðstöð á Íslandi, í áframhaldandi samvinnu við atvinnulífið.
Mikilvægi íslenskunnar
Hæfni barna í móðurmálinu ræður oft för um tækifæri þeirra til framtíðar. Ég finn vel fyrir áhyggjum Íslendinga af framtíð tungumálsins. Í minni ráðherratíð, sem ráðherra menningarmála, er þetta líklega það mál sem ég er tíðast brýnd til að beita mér fyrir. Fólk gefur sig á tal við mig úti á götu með áhyggjur af stöðu barnanna okkar sem hrærast í ensku málumhverfi, í símunum og allt of oft í sjálfum skólunum þar sem sífellt fleiri starfsmenn og samnemendur þeirra tala litla sem enga íslensku. Þegar fólk gengur um miðbæ Reykjavíkur blasa við því upplýsingaskilti, auglýsingar og matseðlar á ensku. Erlendu afgreiðslufólki fjölgar sífellt sem talar enga íslensku. Nýjustu tæknilausnir hafa síðasta áratug aðeins verið aðgengilegar á ensku. Ég leyfi mér þó að horfa bjartsýnum augum til framtíðar og segja að okkur sé að takast að snúa þessari þróun við.
Íslenskan er víða í sókn
Fjöldinn allur af lausnum sem aðstoða innflytjendur við að læra íslensku hefur birst á síðasta ári, sem allar njóta verulegra vinsælda. Ég nefni þar sem dæmi RÚV ORÐ, sem kennir fólki íslensku í gegnum afþreyingarefni RÚV, og Bara tala, forrit með sérsniðinni íslenskukennslu eftir orðaforða úr mismunandi starfsgreinum á Íslandi. Þetta gerðist ekki af sjálfu sér. Upplýsingaskilti í Leifsstöð gera nú loksins íslensku hærra undir höfði en ensku, líkt og eðlilegt er á íslenskum flugvelli eins og ég hef bent á ítrekað undanfarin ár. Þetta gerðist ekki af sjálfu sér.
Stærstu mállíkön heims hafa á síðasta ári lært því sem næst lýtalausa íslensku. Nýjustu fyrirtækjalausnir, sem flestar eru byggðar ofan á þau líkön, eru því nothæfar á íslensku. Áhrifamesta gervigreindarfyrirtæki heims gumar af hæfni mállíkans síns í tungumáli sem um 350 þúsund manns tala, íslensku. Ekkert af þessu gerðist af sjálfu sér.
Samvinna atvinnulífs og stjórnvalda skilar árangri
Farsælt samstarf stjórnvalda og atvinnulífs í þróun á nýjustu tækni fyrir tungumálið hefur sannað sig. Umfangsmikil fjárfesting stjórnvalda í þessari þróun, sem hófst árið 2018 með fyrstu máltækniáætlun, hefur borgað sig. Með söfnun á gríðarlegu magni gagna á íslensku og þróun á gervigreindartækni á íslensku hefur Ísland orðið leiðandi afl meðal smáþjóða í heimi máltækni og gervigreindar. Fjárfesting og þróun á tæknilegum innviðum sem þessum í nafni tungumáls og menningararfs heillar þjóðar hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. OpenAI, eitt stærsta gervigreindarfyrirtæki heims, hefur viljað vinna náið með Íslandi á þessum forsendum: við deilum áhuga með fyrirtækinu á tungumálinu og gerum okkur grein fyrir að stærsta tæknibylting síðustu áratuga, gervigreindarbyltingin, grundvallast á samspili mannlegs tungumáls og tölvutækni.
Áfram sækjum við fram
Við erum hvergi af baki dottin. Ég er þess fullviss að tæknin muni á næstu árum, jafnvel mánuðum, færa okkur lausnir við mörgum af helstu vandamálum sem nú ógna tungumáli okkar. Tækni sem þýðir og talsetur barnaefni með eins röddum og í upphaflegri útgáfu þess er rétt handan við hornið. Fleiri tæknilausnir sem auðvelda innflytjendum að læra íslensku eiga eftir að koma út. Nýjustu lausnir frá Microsoft og Google og fleiri tæknirisum verða aðgengilegar á íslensku. iPhone-síminn þinn mun á endanum geta talað íslensku. Ég er viss um það. En þetta gerist hins vegar ekki af sjálfu sér.
Við verðum að tryggja áframhaldandi þróun í íslenskri máltækni og gervigreind og að málaflokkar þessir tali saman. Um síðustu mánaðamót hrinti menningar- og viðskiptaráðuneytið annarri máltækniáætlun af stað, sem felur í sér mikla fjárfestingu og áframhaldandi sókn í máltækni. Þar er áherslan á hagnýtingu þeirra innviða sem við höfum smíðað síðustu ár og lausnir á íslensku sem gagnast almenningi og tungumálinu.
Gervigreindar- og máltæknisetur
Sýn okkar er að Ísland verði að koma á fót öflugri einingu, helst í samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs, sem færi með málefni bæði gervigreindar og máltækni. Slík eining myndi vinna stöðugt að eflingu þessara greina á Íslandi, tryggja nýsköpun innan þeirra, hagnýtar rannsóknir háskóla sem gagnast íslenskum fyrirtækjum og vera leiðandi afl á þessu sviði meðal smærri þjóða. Ísland hefur alla burði til að standa undir slíku starfi. Græn orka og náttúrulegar aðstæður eru fullkomnar fyrir framleiðslu á reikniafli, sem getur umbylt tækniiðnaði og rannsóknarstarfi á Íslandi. Íslenskt hugvit og tækni geta staðið stolt á meðal fremstu þjóða heims, og efling þessi verður reist á grundvelli menningar og tungumáls Íslendinga. Við höfum lagt til að ráðast í samstarf við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið um að gera þessa framtíðarsýn að veruleika og ég vonast til að við getum hafið þessa uppbyggingu á allra næstu mánuðum. Mín von er að slík gervigreindar- og máltæknimiðstöð yrði rekin í samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs með ekki ósvipuðu fyrirkomulagi og Íslandsstofa. Hægt væri að sameina ýmsar smærri stofnanir og einingar í máltækni, gervigreind og nýsköpun undir einum hatti og auka hagræði í málaflokkunum báðum á sama tíma og starf innan þeirra yrði eflt.
Bókmenntaarfur Íslands þykir eitt af undrum veraldar og er sannarlega framlag okkar til heimsbókmenntanna. Að sama skapi hefur Ísland alla burði til að vera ein öflugasta gervigreindar- og máltækniþjóð í heimi.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. október 2024.