Categories
Fréttir Greinar

Ísland verður leiðandi í gervigreind og máltækni

Deila grein

14/10/2024

Ísland verður leiðandi í gervigreind og máltækni

Þegar reyn­ir á stoðir tungu­máls okk­ar og menn­ing­ar finn­um við til ábyrgðar. Mál­efni tungu­máls­ins hafa sjald­an verið eins áber­andi í umræðunni og síðustu ár. Íslensk­an skipt­ir okk­ur öll máli og okk­ur þykir öll­um raun­veru­lega vænt um tungu­málið okk­ar. Því í tungu­mál­inu býr menn­ing okk­ar, merk og alda­göm­ul saga; sjálf þjóðarsál­in. Mál­tækni­áætl­un stjórn­valda og at­vinnu­lífs hef­ur skilað undra­verðum ár­angri fyr­ir tungu­málið svo eft­ir er tekið um all­an heim. Enn frek­ari aðgerða er þörf á því sviði og ég mun beita mér fyr­ir því að komið verði á fót gervi­greind­ar- og mál­tækni­miðstöð á Íslandi, í áfram­hald­andi sam­vinnu við at­vinnu­lífið.

Mik­il­vægi ís­lensk­unn­ar

Hæfni barna í móður­mál­inu ræður oft för um tæki­færi þeirra til framtíðar. Ég finn vel fyr­ir áhyggj­um Íslend­inga af framtíð tungu­máls­ins. Í minni ráðherratíð, sem ráðherra menn­ing­ar­mála, er þetta lík­lega það mál sem ég er tíðast brýnd til að beita mér fyr­ir. Fólk gef­ur sig á tal við mig úti á götu með áhyggj­ur af stöðu barn­anna okk­ar sem hrær­ast í ensku mál­um­hverfi, í sím­un­um og allt of oft í sjálf­um skól­un­um þar sem sí­fellt fleiri starfs­menn og sam­nem­end­ur þeirra tala litla sem enga ís­lensku. Þegar fólk geng­ur um miðbæ Reykja­vík­ur blasa við því upp­lýs­inga­skilti, aug­lýs­ing­ar og mat­seðlar á ensku. Er­lendu af­greiðslu­fólki fjölg­ar sí­fellt sem tal­ar enga ís­lensku. Nýj­ustu tækni­lausn­ir hafa síðasta ára­tug aðeins verið aðgengi­leg­ar á ensku. Ég leyfi mér þó að horfa bjart­sýn­um aug­um til framtíðar og segja að okk­ur sé að tak­ast að snúa þess­ari þróun við.

Íslensk­an er víða í sókn

Fjöld­inn all­ur af lausn­um sem aðstoða inn­flytj­end­ur við að læra ís­lensku hef­ur birst á síðasta ári, sem all­ar njóta veru­legra vin­sælda. Ég nefni þar sem dæmi RÚV ORÐ, sem kenn­ir fólki ís­lensku í gegn­um afþrey­ing­ar­efni RÚV, og Bara tala, for­rit með sér­sniðinni ís­lensku­kennslu eft­ir orðaforða úr mis­mun­andi starfs­grein­um á Íslandi. Þetta gerðist ekki af sjálfu sér. Upp­lýs­inga­skilti í Leifs­stöð gera nú loks­ins ís­lensku hærra und­ir höfði en ensku, líkt og eðli­legt er á ís­lensk­um flug­velli eins og ég hef bent á ít­rekað und­an­far­in ár. Þetta gerðist ekki af sjálfu sér.

Stærstu mállíkön heims hafa á síðasta ári lært því sem næst lýta­lausa ís­lensku. Nýj­ustu fyr­ir­tækjalausn­ir, sem flest­ar eru byggðar ofan á þau líkön, eru því not­hæf­ar á ís­lensku. Áhrifa­mesta gervi­greind­ar­fyr­ir­tæki heims gum­ar af hæfni mállík­ans síns í tungu­máli sem um 350 þúsund manns tala, ís­lensku. Ekk­ert af þessu gerðist af sjálfu sér.

Sam­vinna at­vinnu­lífs og stjórn­valda skil­ar ár­angri

Far­sælt sam­starf stjórn­valda og at­vinnu­lífs í þróun á nýj­ustu tækni fyr­ir tungu­málið hef­ur sannað sig. Um­fangs­mik­il fjár­fest­ing stjórn­valda í þess­ari þróun, sem hófst árið 2018 með fyrstu mál­tækni­áætl­un, hef­ur borgað sig. Með söfn­un á gríðarlegu magni gagna á ís­lensku og þróun á gervi­greind­ar­tækni á ís­lensku hef­ur Ísland orðið leiðandi afl meðal smáþjóða í heimi mál­tækni og gervi­greind­ar. Fjár­fest­ing og þróun á tækni­leg­um innviðum sem þess­um í nafni tungu­máls og menn­ing­ar­arfs heill­ar þjóðar hef­ur vakið at­hygli út fyr­ir land­stein­ana. OpenAI, eitt stærsta gervi­greind­ar­fyr­ir­tæki heims, hef­ur viljað vinna náið með Íslandi á þess­um for­send­um: við deil­um áhuga með fyr­ir­tæk­inu á tungu­mál­inu og ger­um okk­ur grein fyr­ir að stærsta tækni­bylt­ing síðustu ára­tuga, gervi­greind­ar­bylt­ing­in, grund­vall­ast á sam­spili mann­legs tungu­máls og tölvu­tækni.

Áfram sækj­um við fram

Við erum hvergi af baki dott­in. Ég er þess full­viss að tækn­in muni á næstu árum, jafn­vel mánuðum, færa okk­ur lausn­ir við mörg­um af helstu vanda­mál­um sem nú ógna tungu­máli okk­ar. Tækni sem þýðir og tal­set­ur barna­efni með eins rödd­um og í upp­haf­legri út­gáfu þess er rétt hand­an við hornið. Fleiri tækni­lausn­ir sem auðvelda inn­flytj­end­um að læra ís­lensku eiga eft­ir að koma út. Nýj­ustu lausn­ir frá Microsoft og Google og fleiri tækn­iris­um verða aðgengi­leg­ar á ís­lensku. iP­ho­ne-sím­inn þinn mun á end­an­um geta talað ís­lensku. Ég er viss um það. En þetta ger­ist hins veg­ar ekki af sjálfu sér.

Við verðum að tryggja áfram­hald­andi þróun í ís­lenskri mál­tækni og gervi­greind og að mála­flokk­ar þess­ir tali sam­an. Um síðustu mánaðamót hrinti menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið ann­arri mál­tækni­áætl­un af stað, sem fel­ur í sér mikla fjár­fest­ingu og áfram­hald­andi sókn í mál­tækni. Þar er áhersl­an á hag­nýt­ingu þeirra innviða sem við höf­um smíðað síðustu ár og lausn­ir á ís­lensku sem gagn­ast al­menn­ingi og tungu­mál­inu.

Gervi­greind­ar- og mál­tækni­set­ur

Sýn okk­ar er að Ísland verði að koma á fót öfl­ugri ein­ingu, helst í sam­starfi stjórn­valda og at­vinnu­lífs, sem færi með mál­efni bæði gervi­greind­ar og mál­tækni. Slík ein­ing myndi vinna stöðugt að efl­ingu þess­ara greina á Íslandi, tryggja ný­sköp­un inn­an þeirra, hag­nýt­ar rann­sókn­ir há­skóla sem gagn­ast ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um og vera leiðandi afl á þessu sviði meðal smærri þjóða. Ísland hef­ur alla burði til að standa und­ir slíku starfi. Græn orka og nátt­úru­leg­ar aðstæður eru full­komn­ar fyr­ir fram­leiðslu á reikniafli, sem get­ur um­bylt tækniiðnaði og rann­sókn­ar­starfi á Íslandi. Íslenskt hug­vit og tækni geta staðið stolt á meðal fremstu þjóða heims, og efl­ing þessi verður reist á grund­velli menn­ing­ar og tungu­máls Íslend­inga. Við höf­um lagt til að ráðast í sam­starf við há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðuneytið um að gera þessa framtíðar­sýn að veru­leika og ég von­ast til að við get­um hafið þessa upp­bygg­ingu á allra næstu mánuðum. Mín von er að slík gervi­greind­ar- og mál­tækni­miðstöð yrði rek­in í sam­vinnu stjórn­valda og at­vinnu­lífs með ekki ósvipuðu fyr­ir­komu­lagi og Íslands­stofa. Hægt væri að sam­eina ýms­ar smærri stofn­an­ir og ein­ing­ar í mál­tækni, gervi­greind og ný­sköp­un und­ir ein­um hatti og auka hagræði í mála­flokk­un­um báðum á sama tíma og starf inn­an þeirra yrði eflt.

Bók­mennta­arf­ur Íslands þykir eitt af undr­um ver­ald­ar og er sann­ar­lega fram­lag okk­ar til heims­bók­mennt­anna. Að sama skapi hef­ur Ísland alla burði til að vera ein öfl­ug­asta gervi­greind­ar- og mál­tækniþjóð í heimi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. október 2024.