Categories
Fréttir

„Íslenskt staðfest“

Deila grein

20/03/2024

„Íslenskt staðfest“

„Í gær fann ég mikinn áhuga þingheims á að ræða meira um íslenskan landbúnað þegar búvörulög voru hér til umræðu. Því vil ég nýta tækifærið og ræða um upprunamerki fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir, „Íslenskt staðfest“,“ sagði Halldóra K. Hauksdóttir, varaþingmaður, í störfum þingsins.

„Á nýafstöðnu búnaðarþingi kom fram að ýmsir furðuðu sig á því hvers vegna afurðastöðvar og bændur væru ekki búnir að taka þessar merkingar upp almennt. Staðreyndin er sú að því fylgir talsverður kostnaður, enn annar kostnaðarliðurinn sem lagður er beint á bændur sjálfa. Það eru margir bændur sem kjósa að selja vöru sína beint og fara þannig ekki í gegnum afurðastöð eða sölusamtök.“

„Til þess að merkið verði almennt og til þess að jafna stöðu á milli bænda, óháð því hvernig varan er markaðssett, finnst mér eðlilegt að stjórnvöld kæmu að kostnaði við rekstur þessa upprunamerkis því að það er ekki síður hugsað fyrir neytendur en bændur. Það er eðlileg krafa neytenda í dag að þekkja uppruna vörunnar og hvernig staðið er að framleiðslu hennar,“ sagði Halldóra.

Áætlað er að kostnaður við eftirlit og rekstur merkisins verði um 70–100 milljónir á ári. „[Þ]að er meira en bændur eru tilbúnir að taka einir á sig.“

„Ég hef þó trú á því að með aðkomu stjórnvalda tækju bændur almennt þátt í verkefninu sem uppfylla skilyrðin um að matvaran eigi íslenskan uppruna. Í sögulegu samhengi hafa fáar ef einhverjar starfsgreinar leikið jafn mikilvægt hlutverk í samfélaginu. Þrotlausri vinnu íslenskra bænda hefur verið tekið sem sjálfsögðum hlut í of langan tíma. Það er löngu orðið tímabært að bændur hljóti þá virðingu og þann stuðning sem þeir eiga skilið. Stuðningur af þessu tagi væri mikilvægt skref í þá átt, því að stjórnvöld og samfélagið allt verður að horfast í augu við það að án bónda verður enginn matur,“sagði Halldóra að lokum.

Ræða Halldóru í heild sinni á Alþingi: