Heilbrigðisstofnun Suðurlands rekur öfluga og blómlega starfsemi um allt Suðurland og heldur úti níu starfsstöðvum víðs vegar um Suðurlandið. aðalstarfsemi stofnunarinnar er á Selfossi þar sem sjúkrahúsið er staðsett. Stofnunin er m.a. með starfsemi í Hveragerði sem er í um 15 mínútna fjarlægð frá Selfossi. Í Hveragerði búa nú um 3.000 manns. Það þykir eðlilegt að slík starfsstöð sé til staðar þrátt fyrir að ekki sé um langan veg að fara á milli Hveragerðis og Selfoss.
Suðurnesjabær, sem varð til við sameiningu Sandgerðis og Garðs árið 2018, hýsir nú tæplega 4.000 íbúa. Þar er hins vegar ekki um neina heilsugæslu að ræða né hjúkrunarheimili og þurfa því íbúar að leita til annarra sveitarfélaga eftir heilbrigðisþjónustu. Gríðarleg fjölgun hefur verið í sveitarfélaginu á undanförnum árum og er sveitarfélagið með stórt og mikið verkefni í fanginu sem snýr að vegalausum börnum þar sem flugstöðin er í Suðurnesjabæ og fellur því þessi málaflokkur sjálfkrafa á barnavernd sveitarfélagsins með tilheyrandi kostnaði sem það hefur í för með sér. Gera má ráð fyrir að það taki u.þ.b. 12 mínútur að aka á milli Suðurnesjabæjar og Reykjanesbæjar sem er rétt tæplega sá tími sem það tekur að aka á milli Hveragerðis og Selfoss. Bæjarstjórn Suðurnesjabæjar hefur ítrekað óskað eftir lagfæringu á þessu ófremdarástandi og aukinn þrýstingur verið settur á ríkið eftir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.
Ríkið hefur gert Heilbrigðisstofnun Suðurlands kleift að reka sínar starfsstöðvar af miklum myndarskap en einhverra hluta vegna hefur Heilbrigðisstofnun Suðurnesja ekki séð sér fært að gera slíkt hið sama. Það eykur auðvitað álagið á stofnunina í Reykjanesbæ sem á, eins og allir vita, í verulegu basli með að sinna því sem henni ber. Ég vill einnig benda á það að það eru þrír byggðarkjarnar á íslandi sem hafa enga heilbrigðisþjónustu, þeir eru Garður, Sandgerði og Hellissandur. Íbúar landsbyggðar eiga rétt á að fá heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Og gæta verður jafnræðis óháð búsetu í landinu
Anton Guðmundsson
Oddviti framsóknar og formaður bæjarráðs í Suðurnesjabæ
02/04/2023
Jafnræði landsbyggðar – Tryggjum öllum grunnheilbrigðisþjónustu í heimabyggð