Categories
Fréttir

Jóhanna María: Um ökunám á landsbyggðinni

Deila grein

16/09/2015

Jóhanna María: Um ökunám á landsbyggðinni

Jóhanna María - fyrir vef„Hæstv. forseti. Mér hefur orðið tíðrætt um ökunám og þær aðstæður sem til þess eru á landsbyggðinni. Nú er það svo að hvorki er hægt að kenna Ökuskóla 1 né þau námskeið sem þarf að sækja við sviptingu ökuleyfis á landsbyggðinni nema Ökuskóla 3 á Akureyri.
Ökuskóli 3 þarf að fara fram í sérstöku ökugerði sem á að vera til þess fallið að kenna fólki meðal annars akstur í hálku og við vetraraðstæður. Kaldhæðnin er sú að oft hafa námskeið þar að lútandi fallið niður einmitt vegna vetraraðstæðna.
Þó að einstaklingar eigi að hafa svigrúm til að taka Ökuskóla 3, oftast þrjú til þrjú og hálft ár, þá vilja flestir klára og fá fullnaðarskírteini sem fyrst. Einnig velti ég því fyrir mér, þegar einstaklingur hefur haft réttindi til að aka bíl í þrjú ár, hvort hann hafi þá verið óhæfur bílstjóri allan tímann og hver tilgangurinn eigi þá að vera með þessu.
Kostnaður við flug er gífurlegur. Ofan á það bætist síðan kostnaður við Ökuskóla 3, uppihald og jafnvel gisting en í upphafi var ráðgert að það ætti að vera hægt að kenna ökugerði í öllum landshlutum. Það hefur ekki gengið eftir. Ef námskeið fellur niður og einstaklingur er búinn að kaupa flug er þetta líka til einskis. Einstaklingurinn þarf jafnvel að koma sér heim aftur og sækja námskeiðið síðar.
Sama endurskoðun ætti að eiga sér stað varðandi námskeið þeim til handa sem misst hafa ökuleyfið. Þeir hafa ekki skírteini til að koma sér frá A til B á bíl en eiga samt að mæta fjórum sinnum á námskeið með viku millibili í Reykjavík. Nú býr fólk við mismunandi aðstæður á landsbyggðinni og má þar meðal annars nefna, og hefur oft verið rætt um það í þessari pontu, að flug frá Ísafjarðarflugvelli hefur oft fallið niður og hefur fólk mikið kvartað við okkur þingmenn í kjördæminu um hvers lags kostnaður þetta er sem leggist á fjölskyldur og þá einkum á landsbyggðinni.“
Jóhanna María Sigmundsdóttirí störfum þingsins 15. september 2015.