Categories
Fréttir

Þorsteinn: „Dagur lýðræðis er 365 sinnum á ári á Íslandi“

Deila grein

16/09/2015

Þorsteinn: „Dagur lýðræðis er 365 sinnum á ári á Íslandi“

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að óska öllum landsmönnum til hamingju með að dagur lýðræðis er 365 sinnum á ári á Íslandi. En ég hef nokkrar áhyggjur af nýorðnum og boðuðum stýrivaxtahækkunum Seðlabankans. Peningamálastefna bankans er í sjálfu sér orðin sérstakt vandamál í efnahagsmálum á Íslandi. Vaxtahækkanir nú nýlega og fyrr hafa virkað og virka verðbólguhvetjandi og íþyngjandi fyrir fólk og fyrirtæki. Þessar ákvarðanir festa í sessi það vaxtaokur sem viðskiptabankarnir beita landsmenn.
Seðlabankanum er vissulega vandi á höndum þar sem þenslumerki sjást og vissulega voru nýliðnir kjarasamningar og þeir sem eru nú í burðarliðnum, vonandi, ansi brattir. Hugsanlega er það okkar alþingismanna að skera úr um hvort áherslan sem er á verðbólgumarkmið nú sé úrelt, hvort hún dugi, hvort það þurfi að vopna Seðlabankann betur til að hann geti betur haft áhrif til góðs á peningamálastefnu hér á landi. Ég hef að vísu oftsinnis bent á að mér virðist Seðlabankinn ekki beita bindiskyldu til viðskiptabanka eins og mér fyndist að hann gæti gert. En það er einn fylgifiskur stýrivaxtabreytinganna undanfarið vekur mér ugg, þ.e. að Seðlabanki Íslands er núna að bjóða til vaxtamunarveislu og sjást mjög skýr dæmi þess utan úr heimi að menn eru farnir að fjárfesta hér í krónubréfum sem aldrei fyrr. Það hlýtur að hringja einhverjum bjöllum vegna þess að það var einmitt undanfari þess hruns sem varð 2007. Hann birtist í vaxtamunaviðskiptum sem urðu hér óbærileg og við gátum ekki rönd við reist.“
Þorsteinn Sæmundssoní störfum þingsins 15. september 2015.