Categories
Fréttir

Elsa Lára: Um skilyrta fjárhagsaðstoð og þau jákvæðu áhrif sem hún getur haft

Deila grein

16/09/2015

Elsa Lára: Um skilyrta fjárhagsaðstoð og þau jákvæðu áhrif sem hún getur haft

Elsa-Lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Á síðasta þingi lagði hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fram frumvarp þess efnis að skilyrða mætti fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Frumvarpið verður lagt aftur fram á þessu þingi. Samkvæmt frumvarpinu nær skilyrðingin eingöngu til þeirra sem eru vinnufærir. Hún er byggð upp á því að einstaklingar fái hvata til sjálfshjálpar og sjálfsbjargar. Ef einstaklingur er metinn vinnufær, þá fer hann í gegnum ákveðið ferli sem byggir á einstaklingsmiðaðri nálgun. Í ferlinu fær hann handleiðslu sérfræðinga og sérfræðinga til vinnu í samráði við viðkomandi einstakling að áætlun sem hefur það markmið að hjálpa viðkomandi að stíga sín fyrstu skref annaðhvort á vinnumarkaði eða í öðrum úrræðum. Sumir þessara aðila hafa aldrei farið út á vinnumarkað, aðrir ekki til fjölda ára. Um er að ræða einstaklingsmiðað ferli sem varðar skilyrðinguna. Frumvarpið tekur ekki til þeirra sem eru metnir óvinnufærir og þeir fara heldur ekki í gegnum neinar skilyrðingar heldur er verið að hjálpa þeim sem hafa vinnugetu til að verða virkir í samfélaginu á ný.
Það er ekki ofsögum sagt að málið sé töluvert heitt og skiptar skoðanir eru um það milli flokka og innan flokka en það sjáum við m.a. á fréttaflutningi undanfarinna daga.
Mig langar í lokin að nefna ákveðið dæmi, eitt dæmi um skilyrta fjárhagsaðstoð og þau jákvæðu áhrif sem hún getur haft. Ég hitti afar jákvæða og glaða stúlku á vegi mínum. Hún sagði mér að hún væri loksins komin í vinnu. Hún var afar ánægð með lífið og tilveruna. Loksins væri hún komin í vinnu og farin að eiga félagsleg samskipti. Í of langan tíma var hún heima. Hún fór varla út fyrir hússins dyr, hún var full af kvíða. Hún fór í gegnum þetta ferli sem skilyrt fjárhagsaðstoð er, fékk handleiðslu sérfræðinga og einstaklingsmiðaða nálgun í því hvernig væri best fyrir hana að komast út á vinnumarkað eða í önnur úrræði á ný. Hún var afar ánægð. Í þessu tilviki hafði sveitarfélagið búið til störf fyrir þá einstaklinga sem fóru í gegnum ferlið hjá þeim. Það eru margir einstaklingar í því sveitarfélagi (Forseti hringir.) sem þessi dama býr í sem hafa nýtt sér þessi úrræði og eru glaðir með lífið og tilveruna á ný.“
Elsa Lára Arnardóttirí störfum þingsins 15. september 2015.