Categories
Fréttir Greinar

Jól í orðum og tónum

Deila grein

23/12/2025

Jól í orðum og tónum

Þorláksmessa er runnin upp og styttist óðfluga í stærstu hátíð kristins fólks um veröld alla. Dagurinn ber nafn Þorláks Þórhallssonar biskups í Skálholti. Þorlákur fékk snemma orð á sig fyrir að vera helgur maður sem gott væri að heita á. Hann er eini Íslendingurinn sem hefur verið tekinn í dýrlingatölu en það gerði Jóhannes Páll II hinn 14. janúar 1984. Þetta er jafnframt dagur eftirvæntingar og lokaundirbúnings: síðustu erindin, síðustu kveðjurnar, síðustu pakkarnir áður en hátíðin tekur við.

Þorláksmessa minnir okkur á að jólin eru líka menningarhátíð. Það er ekki tilviljun að Ísland skuli vera þekkt sem menningarland vegna þeirrar grósku sem ríkir á því sviði. Sköpunarkrafturinn skilar sér jafnan með sérstöku móti um jólin, þegar „uppskeran“ kemur í hús.

Jólabókaflóðið er árleg staðfesting á því að við höfum enn trú á orðum og frásögn. Bækur eru ekki aðeins afþreying heldur einnig vettvangur nýsköpunar og símenntunar og kynslóðabrú sem heldur menningararfi á loft. Þegar við gefum bók í jólapakka erum við um leið að gefa gæðatíma, orðaforða og tækifæri til samtals. Úrval íslenskra bóka fyrir alla aldurshópa er einstakt og þetta árið er engin undantekning.

Það sama á við um tónlistina. Aðventan er hálfgerður hljóðfæraskápur landsins, þar sem tónleikahald er einkar fjölbreytt: kirkjutónlist, sinfóníur, kammermúsík, djasstónleikar, popp, pönk o.s.frv. Kórar, stórir sem smáir, fylla hús og helgidóma og minna á að röddin er elsta hljóðfæri mannsins. Öflug umgjörð tónlistarnáms og menningarhúsa skiptir þar miklu og skilar sér í fagmennsku sem við njótum dag hvern.

Sviðslistir blómstra einnig. Leikhúsin bjóða jafnt upp á ný verk og sígildar sögur, sem laða sífellt til sín fjölbreyttan hóp fólks. Á nýju ári verður starfsemi um þjóðaróperu komin í fastari skorður en áður þekkist, sem hefur verið draumur margra í sviðslistum í áratugi. Flutningur starfsemi óperunnar inn í Þjóðleikhúsið er táknrænt framhald af skapandi Íslandi, þar sem við þorum að setja metnaðinn í forgrunn og skapa einstakan vettvang fyrir okkar fremsta sviðslistafólk og þjóðin öll nýtur góðs af.

Allt þetta á sér þó sameiginlega rót: tungumálið. Íslenskan er ekki aðeins miðill heldur uppspretta sköpunar; hún geymir blæbrigði og hugtök sem gera okkur kleift að semja, syngja, leika og ræða heiminn á okkar eigin forsendum. Höldum áfram að hlúa að henni í daglegu lífi okkar, í skólum og í hinum stafræna heimi. Höfum það ávallt hugfast að „á íslensku má alltaf finna svar“, eins og fram kemur í ljóði Þórarins Eldjárns. Hátíðin sem nú er að ganga í garð er allra hugljúfasti tími ársins vegna þeirra orða og tóna sem við njótum.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtit fyrst í Morgunblaðinu 23. desember 2025.