Categories
Fréttir

Kallað eftir auknum stuðningi vegna tæknifrjóvgana

Deila grein

22/02/2015

Kallað eftir auknum stuðningi vegna tæknifrjóvgana

Silja-Dogg-mynd01-vefSilja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, flutti á Alþingi í liðinni viku þingsályktunartillögu um aukinn stuðning vegna tæknifrjóvgana og að endurskoðun verði á reglum um greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferða fyrir árslok 2015. Við endurskoðunina verði gætt að eftirtöldum atriðum:

  1. að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái til fyrstu glasafrjóvgunarmeðferðar,
  2. að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga sé óháð því hvort pör eða einstaklingar eigi barn fyrir,
  3. ef uppsetning á fósturvísum fer ekki fram þar sem engin frjóvgun hefur orðið, þá sé full greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna þeirrar meðferðar, en þó ekki talin með öðrum tæknifrjóvgunarmeðferðum sem greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nær til,
  4. að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga taki til ferðakostnaðar vegna tæknifrjóvgunarmeðferða jafnvel þótt greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái ekki til þeirra meðferða,
  5. að kynfrumur (eggfrumur og sáðfrumur) frá tilteknum gjafa fari aðeins til eins pars eða einstaklings.

Ferðakostnaður vegna tæknifrjóvgunarmeðferða getur verið töluverður og fer það að mestu leyti eftir því hvar fólk býr á landinu. Ljóst er því að það er dýrara fyrir fólk á landsbyggðinni að fara í tæknifrjóvgunarmeðferð en þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu þar sem meðferðin er veitt.
Frjósemismeðferðum hefur fækkað um 10% síðustu missiri sem má rekja til breytinga á greiðsluþátttöku einstaklinga. Þ.e. þessi fækkun skýrist því að mestu af því að þeir sem þurfa að koma í fyrstu meðferð eiga ekki kost á að hefja ferlið þar sem kostnaðurinn er hreinlega of mikill. Ekki hefur farið fram greining á því hvort fólk af landsbyggðinni fari síður í meðferð sökum mikils ferðakostnaðar en áhugavert væri að skoða það nánar.
Nú eru keyptir fimm sæðisskammtar frá Danmörku frá hverjum gjafa. Engar reglur eru til um það hversu margar konur fái sæði frá sama manni. Ef kona vill vera viss um að barnið hennar eigi ekki hálfsystkini sem hún veit ekki um þarf hún að kaupa alla skammtana, láta frysta þá og greiða fyrir það geymslugjald þangað til búið er að nota skammtana. Eðlilegt er að foreldrar viti um hálfsystkini barna sinna en séu ekki í óvissu með það til hversu margra kvenna gjafasæði frá tilteknum manni fer, sérstaklega í svo fámennu samfélagi sem Ísland er. Hið sama á við um eggfrumur.
Ísland er á þessu sviði nokkur eftirbátur nágrannalanda okkar og þeirra landa sem við viljum almennt bera okkur saman við.
Hér má nálgast viðtal við Silju Dögg í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.
Hér má nálgast þingsályktunina af vef Alþingis.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.