Categories
Greinar

Heilbrigðiskerfið í forgang, fyrir alla

Deila grein

24/02/2015

Heilbrigðiskerfið í forgang, fyrir alla

Elsa-Lara-mynd01-vefurÞað er staðreynd að ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, hefur sett uppbyggingu heilbrigðiskerfisins í forgang. Í fjárlögum fyrir árið 2015 kemur fram að Landspítalinn fái um 50 milljarða króna með sértekjum í sinn hlut. Að auki eru þar 875 milljónir króna, sem ætlaðar eru í fyrstu skref í byggingu á nýjum Landspitala. Í fjárlögum fyrir árið 2015 eru sérstök framlög í rekstrar – og stofnkostnað heilbrigðisstofnana og heilsugæslustöðva, þau framlög aukast um 2,1 milljarð. 100 milljónir bætast inn í rekstrargrunn heilbrigðisstofnana og jafnframt renna 100 milljónir aukalega í tækjakaup fyrir heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni.

Uppbygging er hafin.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins segir:  ,,Íslenskt heilbrigðiskerfi verður að vera samkeppnisfært við nágrannalönd um tækjakost, aðbúnað sjúklinga og aðstæður starfsmanna. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að landsmenn njóti aðgengis að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.” Þann 8. janúar s.l. undirrituðu fulltrúar Læknafélags Íslands, Skurðlæknafélags Íslands og ríkisstjórnarinnar sameiginlega yfirlýsingu um markvissa uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Með yfirlýsingunni vilja þessir aðilar undirstrika mikilvægi heilbrigðiskerfisins og styrkja enn frekar heilbrigðisþjónustu í landinu. Helstu atriði yfirlýsingarinnar eru m.a. bygging nýs Landspítala og markviss endurnýjun tækjabúnaðar í heilbrigðiskerfinu. Markmið yfirlýsingarinnar er að bæta starfsaðstöðu heilbrigðisstarfsfólks og auka þjónustu við almenning. Auknu fjármagni verður veitt til heilbrigðismála og breytingar gerðar í þeim tilgangi að auka skilvirkni í kerfinu. Stefnt er að aukinni samvinnu heilbrigðisstofnana og markvissri verkaskiptingu. Íslenska heilbrigðiskerfið á að verða samkeppnishæft við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum.  Nauðsynlegt er að í öllu þessu ferli sé horft til þess að landsmenn allir, eigi greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu, efnahag eða stöðu.

Heilbrigðisáætlun fyrir Ísland.

Það má velta fyrir sér, að samhliða þeirri uppbyggingu sem á sér stað í heilbrigðiskerfinu, að fara þurfi í að búa til heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Þar þarf að meta og kanna með tilliti til fjarlægða, samgangna, aldurssamsetningar íbúa byggðarlaga og svo framvegis, hvaða þjónustu eigi að veita hér og þar um landið. Kanna þarf hvaða kostnað og áhrif það gæti haft í för með sér. Auk þess þarf að velta fyrir sér, hvort aukin samvinna geti átt sér stað innan heilbrigðiskerfisins. Hvort og hvernig hægt væri að nýta betur þær heilbrigðisstofnanir sem eru í kringum höfuðborgina. Þar má t.d. nefna heilbrigðisstofnanir á Akranesi, Selfossi og Reykjanesbæ. Á þessum heilbrigðisstofnunum eru auðar deildir og gott starfsfólk sem er eflaust tilbúið til að taka á móti verkefnum.

Kostnaður sjúklinga lækkar.

Afar jákvætt er að sjá að í fjárlögum fyrir árið 2015, kemur inn 150 milljóna króna auka fjármagn. Það á að hafa þau áhrif að lyfjakostnaður sjúklinga lækki um 5 %. Einnig lækkar virðisaukaskattur á lyf úr 25,5 % í 24 % sem ætlað er að koma fram í lækkun á lyfjaverði. Jafnframt starfar nú nefnd undir forystu Péturs Blöndals sem hefur það að markmiði að koma með tillögur hvernig megi fella læknis – og lyfjakostnað, rannsóknar – og sjúkraþjálfunarkostnað og annan heilbrigðiskostnað undir eitt niðurgreiðslu – og afsláttarfyrirkomulag. Í nefndinni er unnið að einfaldara og réttlátara kerfi sem hefur það að leiðarljósi að verja einstaklinga gegn of háum kostnaði.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 20. febrúar 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.