Categories
Fréttir

Kaupmáttaraukning veruleg á þessu ári

Deila grein

08/06/2016

Kaupmáttaraukning veruleg á þessu ári

logo-framsokn-gluggiÁrangur af stefnu Framsóknar í ríkisstjórn kemur vel fram í nýrri samantekt Hagfræðideildar Landsbankans, sem birt var í dag. Framsókn í þágu lands og þjóðar hefur verið leiðarljós ríkisstjórnarinnar undir forsæti Framsóknar. Bættur hagur heimilanna í landinu og aukin hagvöxtur og jákvæðir hvatar ríkisstjórnarstefnunnar skila sér.
Hér er dregið saman það helsta:

 • Launa- og kaupmáttarþróun á síðasta ári var mjög hagstæð fyrir launþega.
 • Regluleg laun landsmanna voru að jafnaði 7,2% hærri á árinu 2015 en 2014, sem gaf að meðaltali 5,5% kaupmáttaraukningu.
 • Hagfræðideild Landsbankans reiknar með að launavísitalan hækki um 10,1% milli áranna 2015 og 2016 og kaupmáttur um 8,1%.
 • Kaupmáttur launa er nú hærri en hann hefur verið nokkurn tíma áður.
 • Kaupmáttur út frá launavísitölu varð hæstur í ágúst 2007 og náði svo aftur sama stigi í nóvember 2014 en hefur aukist um 12% síðan þá.
 • Launahækkanir hafa verið miklar síðustu mánuði og var 12 mánaða launahækkunartaktur rúmlega 13% í mars og apríl í ár.

Verðbólgan lætur bíða eftir sér

 • Spár um aukna verðbólgu í kjölfar launahækkana hafa ekki enn gengið eftir.
 • Atvinnulífið virðist þannig hafa haft ákveðið svigrúm til þess að taka þessar launahækkanir á sig og þá gæti samkeppni líka haft sín áhrif.
 • Það er t.d. athyglisvert að verð á þjónustu, þar sem hlutfall launa af kostnaði er jafnan hátt, hefur ekki fylgt launahækkunum eftir. Öll innlend starfsemi er þó að einhverju leyti, beint eða óbeint, háð einhverskonar innflutningi.
 • Hluti af þessu svigrúmi er því líklega til komið vegna hagstæðrar þróunar ytri þátta svo sem lækkandi hrávöruverðs og styrkingar krónunnar.
 • Flestir reikna þó með að aukinn launakostnaður muni leiða til aukinnar verðbólgu á næsta ári, en laun á almenna markaðnum munu samkvæmt kjarasamningum hækka um 4,5% í maí 2018.

Einkaneysla á fleygiferð

 • Aukinn kraftur hefur orðið á vexti einkaneyslu síðustu ár, hún jókst um 3% að raunvirði milli ára árið 2014 og tæplega 5% í fyrra.
 • Hagfræðideild reiknar með enn meiri vexti í ár eða um 7%.
 • Einkaneyslan hefur þó aukist minna en nemur vexti ráðstöfunartekna sem jukust um tæplega 9% í fyrra og um tæplega 4% á ári að meðaltali sl. fimm ár.
 • Vegna mikillar hækkunar eignaverðs og lækkandi skulda hefur hreinn auður heimila aukist enn meira en ráðstöfunartekjur, eða um meira en 10% á ári undanfarin tvö ár og að meðaltali tæplega 8% á ári sl. fimm ár. Tekjur og auður heimila hafa því aukist töluvert meira en nemur vexti einkaneyslu og sparnaður heimila hefur því aukist.

Kaupmáttur heimila eykst …

 • Á síðasta ári nutu heimilin mikillar aukningar kaupmáttar ráðstöfunartekna sem að miklu leyti mátti rekja til umræddrar hækkunar launa. Það, ásamt hækkandi eignaverði og bættri eiginfjárstöðu styður allt við bætta stöðu heimilanna sem kann að koma fram í vaxandi eftirspurn þeirra.

… og eignastaðan hækkar

 • Lækkun skulda heimila og hækkun fasteignarverðs hefur valdið því að veðsetningarhlutfall íbúðarhúsnæðis hefur lækkað ört og var komið niður í 39% í árslok 2015 og lækkað úr 55% frá 2010.
 • Þetta hlutfall hefur ekki verið lægra í a.m.k. 16 ár. Heimilin hafa því fengið aukið svigrúm til aukinnar skuldsetningar ef þau kjósa svo. Þó verður að segjast að þótt skilyrði fyrir kröftugum vexti einkaneyslu hafi verið mjög hagstæð undanfarið hefur aukning hennar verið tiltölulega hófleg í sögulegu samhengi hingað til.
 • Heimilin kjósa greinilega að fara hægar í sakirnar en í fyrri uppsveiflum og sparnaður þeirra nú er meiri en oft áður.

Skuldir lækka mikið

 • Skuldir heimilanna hafa lækkað jafnt og þétt síðustu ár eftir að þær náðu hámarki árið 2009 í um 125% af landsframleiðslu. Skuldirnar hafa því lækkað um sem nemur 41% af landsframleiðslu á aðeins 6 árum og er hlutfallið nú svipað og árið 1999. Þessa lækkun má bæði rekja til aukinnar landsframleiðslu og lækkunar á nafnvirði skulda.

Neysla heimilanna stuðlar að hagvexti

 • Hagfræðideild Landsbankans spáir 5,4% hagvexti á þessu ári og að meðaltali 4,4% 2017 og 2018. Einkaneysla heimilanna leggur fram drjúgan skerf að þeim vexti. Fyrir utan einkaneyslu verður það fjárfesting atvinnulífsins sem mun knýja hagvöxtinn áfram. Bæði einkaneysla og fjárfesting stuðlar jafnan að miklum innflutningi, sem aftur dregur úr hagvextinum. Eins og áður segir sjást vísbendingar nú um að heimilin fari hægar í sakirnar nú en áður við svipaðar aðstæður og sparnaður þeirra sé þokkalegur. Sviptingar í hagkerfinu eru töluverðar nú um stundir og mikilvægt að heimilin haldi þessari tiltölulega góðu stöðu sinni.