Categories
Fréttir

Þjóðhagsráð kemur saman

Deila grein

09/06/2016

Þjóðhagsráð kemur saman

SIJFulltrúar ríkisstjórnar Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands komu saman í morgun á fyrsta fundi Þjóðhagsráðs. Stofnun Þjóðhagsráðs er í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí í fyrra, en hún var gefin út til að greiða fyrir gerð kjarasamninga. Einnig er kveðið á um stofnun Þjóðhagsráðs í rammasamkomulagi aðila á vinnumarkaði frá því í október. Forsætisráðherra stýrir fundum Þjóðhagsráðs:
„Það er mikilvægt að til sé vettvangur til að skiptast á skoðunum um hvert við stefnum á vinnumarkaði. Hlutverk ráðsins verður að greina stöðuna í efnahagsmálum og ræða samhengi ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar í tengslum við helstu viðfangsefni hagstjórnar hverju sinni. Þetta er mikilvægur hlekkur í því sem nefnt hefur verið SALEK samkomulagið á vinnumarkaði“, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra.
Ráðið skal beina umfjöllun sinni sérstaklega að þáttum þar sem samhæfingu er helst ábótavant. Þjóðhagsráð tekur ekki ákvarðanir í efnahags- eða kjaramálum og stofnun þess breytir ekki lögbundnum hlutverkum þeirra aðila sem að ráðinu standa.
thjothhagsrath-01
Í Þjóðhagsráði sitja forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Seðlabanka Íslands. Heildarsamtök launafólks sem aðild eiga að rammasamkomulaginu hverju sinni geta gerst aðilar að Þjóðhagsráði.
Starfsemi Þjóðhagsráðs skal tekin til endurskoðunar fyrir árslok 2018. Jafnframt er heimilt að endurmeta starfsemi ráðsins ef rammasamkomulagi aðila á vinnumarkaði er slitið. Fundargerðir Þjóðhagsráðs verða öllum aðgengilegar.
Ljósmyndin er frá fyrsta fundi Þjóðhagsráðs. Talið frá vinstri: Már Guðmundsson Seðlabankastjóri, Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Heimilid: www.forsaetisraduneyti.is