„Virðulegi forseti. Í fréttum í gær á vefmiðli var verið að segja frá fundi sem haldinn var um mögulegan aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka og á þeim fundi voru hagfræðingurinn Ásgeir Jónsson og hv. þm. Frosti Sigurjónsson. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson sagði að það væri kjörið tækifæri nú til þess að aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.
Virðulegi forseti. Ég held að það hafi verið mistök eftir efnahagshrunið að gera ekki þær breytingar á fjármálakerfinu sem nauðsynlegar voru. Það var nú einu sinni bankakerfið sem hrundi og olli því sem við erum búin að vera að ganga í gegnum síðan 2008.
Hvað ætlum við að gera ef við stöndum frammi fyrir þeirri stöðu að tveir þriðju hlutar íslenska bankakerfisins verða í höndum ríkissjóðs á nýjan leik? Þá hljótum við að ætla að ráðast í einhverjar breytingar á fjármálakerfinu. Við hljótum að ætla að skoða þann möguleika og ráðast í það að aðskilja fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.
Stjórnvöld eiga að einhenda sér í þetta og það á að vera mögulegt að ná um það víðtækri sátt, þverpólitískri sátt, vegna þess að hingað til hafa eiginlega allir stjórnmálaflokkar haft þetta á stefnuskrá sinni nema kannski Sjálfstæðisflokkurinn, en á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins þá ályktaði hann sérstaklega um þetta. Þar segir: „Landsfundur leggur áherslu á að starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka verði að fullu aðskilin.“
Virðulegur forseti. Stjórnvöld eiga að setja það í algjöran forgang að aðskilja fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Stóra verkefnið fram undan er hvernig við ætlum að byggja upp fjármálakerfi á Íslandi. Það snýst ekki um það hversu hratt við seljum 10% í Landsbankanum eða hversu hratt Íslandsbanki verður seldur eins og bankastjórar stóru bankanna koma nú fram og segja, það snýst um hvernig fjármálakerfi ætlum við að byggja upp. Og aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka á að vera okkar fyrsta skref og lykilatriði í því efni.“
Ásmundur Einar Daðason — í störfum þingsins 18. nóvember 2015.
Categories
Kjörið tækifæri til að aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarbanka
19/11/2015
Kjörið tækifæri til að aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarbanka