Kæra framsóknarfólk.
Einhvern tímann fyrir löngu rakst ég á orð höfð eftir Pierre Trudeau sem var forsætisráðherra Kanada á áttunda áratug síðustu aldar. Hugsunin var eitthvað á þessa leið: Samfélag er ekki hús sem forfeður okkar byggðu og við búum í. Samfélag er eitthvað sem við byggjum saman á hverjum degi úr þeim gildum sem við eigum sameiginleg.
Þessi orð hans hafa setið í mér enda ríma þau vel við þær hugmyndir sem við í Framsókn höfum um stjórnmál og samfélag. Við viljum stefna ótrauð fram á veginn, fögnum nýjum hugmyndum um umbætur og framfarir en viljum halda í þann auð sem býr í hefðinni og reynslunni.
Við erum framsækinn miðjuflokkur, sækjum fram eins og nafnið Framsókn bendir til, og trúum því að framtíðin ráðist á miðjunni, þar sem straumar og stefnur samfélagsins mætast, verða að mætast, til að sátt náist um sameiginlega framtíð okkar á Íslandi. Sumir kalla okkur límið í ríkisstjórninni, aðrir kjölfestu, enn aðrir segja okkur opin í báða enda, stefnulaus. Þeir síðastnefndu skilja ekki, eða vilja ekki skilja, hugsjónir okkar og hvernig við vinnum. Það að vera framsækinn miðjuflokkur felur í sér að við erum ekki föst í kreddum og trúarsetningum þeirra sem eru yst til hægri og yst til vinstri heldur tökum það besta og skynsamlegasta af báðum vængjum. Það kristallast annars vegar í trúnni á kraft einstaklingsins til að skapa verðmæti og hins vegar á trúnni á umhyggju samfélagsins til að skapa öllum jöfn tækifæri og grípa þá sem á einhvern hátt verða undir í lífsbaráttunni.
Kæru félagar. Þeir eru undarlegir tímarnir sem við lifum. Þeir reyna á okkur öll, mismikið, en öll eitthvað. Það hefur verið okkur sem stöndum í framlínu okkar góðu hreyfingar, hvort heldur er í ríkisstjórn, á þingi eða í sveitarstjórnum, ómetanlegt að finna stuðninginn frá fólkinu okkar í Framsókn. Fólkinu sem ber uppi félagsstarf við erfiðar aðstæður, fólkinu sem hefur talað máli Framsóknar þrátt fyrir að blásið hafi á móti í skoðanakönnunum. Þessar vikurnar sjáum við örina hreyfast í rétta átt í könnunum. Góð verk okkar við stjórn landsins og sveitarfélaganna fá vængi, ekki síst fyrir ykkar orð, öfluga flokksfólk. Verkefni okkar næstu mánuðina fram að kosningum verður að hækka enn flugið.
Saga Framsóknar er samofin sögu íslensks samfélags síðustu rúma öldina. Sú saga er saga framfara en einnig saga áfalla sem við höfum sem þjóð tekist á við – sameinuð. Heimsfaraldurinn er okkur mikið áfall og síðasta ár er þyrnum stráð braut. En síðasta árið hefur íslenska þjóðin líka sýnt úr hverju hún er gerð. Hún er gerð úr samvinnu og samtakamætti einstaklinganna, framsýni vísindanna og umhyggju samfélagsins – þess sem við eigum saman. Þessir þættir, samvinna, framsýni og umhyggja eru líka grundvallarþættir í sögu og samtíð Framsóknar.
Við göngum sterk inn í páskahátíðina og hlökkum til kosningabaráttunnar sem bíður okkar handan við sumarið. Framundan eru einhverjar mikilvægustu kosningar lýðveldistímans. Nýrrar ríkisstjórnar bíður það verkefni að vinna úr áfallinu og byggja upp. Þá er mikilvægt að Framsókn, framsækni miðjuflokkurinn okkar, mæti sterkur til þings því rödd samvinnu, framsýni og umhyggju verður að hljóma sterk og vísa þjóðinni áfram veginn. Því eins og segir í upphafsorðum þessara hugleiðinga þá er samfélagið ekki hús sem forfeður okkar byggðu og við búum í heldur eitthvað sem við byggjum saman á hverjum degi úr þeim gildum sem við eigum sameiginleg.
Ég óska ykkur öllum gleðilegrar páskahátíðar.
SIGURÐUR INGI JÓHANNSSON