Categories
Greinar

Góður kennari skiptir sköpum!

Deila grein

06/04/2021

Góður kennari skiptir sköpum!

Oft og tíðum eru fjöl­mörg mál sem bíða úr­lausnar mennta- og menningar­mála­ráð­herra, enda sinnir ráðu­neytið mikil­vægum mála­flokkum. Í störfum mínum sem ráð­herra legg ég ætíð á­herslu á stóru sam­fé­lags­myndina. Ég velti því fyrir mér hvernig sam­fé­lag við viljum sem þjóð og hvernig fram­tíð við óskum okkur.

Stóra myndin er sú að við erum sam­fé­lag sem leggur sig fram við að veita fram­úr­skarandi menntun. Rann­sóknir sýna okkur t.d. að góður náms­orða­forði og hug­taka­skilningur, á­lyktunar­hæfni, á­nægja af lestri og fjöl­breytni les­efnis vega mjög þungt í því að nem­endur nái tökum á náms­efni. Við vitum það einnig að góður kennari skiptir sköpum, og því tel ég kennara sinna einu mikil­vægasta starfinu í okkar sam­fé­lagi. Eitt það fyrsta sem blasti við mér í mennta- og menningar­mála­ráðu­neytinu var yfir­vofandi kennara­skortur. Þess vegna er mikil á­hersla lögð á kennara­menntun og ný­liðun í nýrri mennta­stefnu sem sam­þykkt var ný­lega á Al­þingi.

Við höfum þegar markað stefnuna og sjáum árangurinn strax. Ný lög um menntun og hæfi kennara og skóla­stjórn­enda hafa orðið að veru­leika. Við höfum ráðist í um­fangs­miklar og mark­vissar að­gerðir til að fjölga kennurum, t.d. með því að bjóða nem­endum á loka­ári meistara­náms til kennslu­réttinda á leik- og grunn­skóla­stigi launað starfs­nám. Annað sem við gerðum var að bjóða nem­endum á loka­ári að sækja um náms­styrk sem gæti skapað hvata til að klára námið. Eftir að þetta á­taks­verk­efni hófst árið 2018 fjölgaði um­sóknum í kennara­nám á grunn- og meistara­stigi árin 2018 og 2019 um 454 um­sóknir. Fjölgunin hélt á­fram árin 2019 og 2020 en þá sóttu 585 fleiri um nám. Tölurnar sýna al­gjöran við­snúning. Heildar­fjölgun um­sókna frá árinu 2018 er 153%. Mark­vissar að­gerðir skila árangri til fram­tíðar.

Þessi þróun er ein­stak­lega á­nægju­leg. Ég fagna því á hverjum degi að við erum skrefi nær því að ná mark­miðum okkar um fram­úr­skarandi mennta­kerfi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. apríl 2021.