Categories
Fréttir

Lækka skal verð í samræmi við styrkingu krónunnar!

Deila grein

23/10/2015

Lækka skal verð í samræmi við styrkingu krónunnar!

Þorsteinn-sæmundsson„Forseti. Mig langar að gera að umtalsefni greiningu sem Arion banki gaf út á netinu í gær. Þeir búast við 0,1% hækkun á vísitölu um næstu mánaðarmót, sem þýðir 1,1% verðbólgu á ársgrundvelli. Það minnir okkur á að Seðlabankinn þjófstartaði hér hressilega eftir gerð fyrstu kjarasamninga í vor með því að hækka stýrivexti að þarflausu. Reyndar hefur hann séð að sér vegna þess að nú streymir hér inn erlent fé sem vill njóta þeirra vaxtabóta sem seðlabankastjóri hefur komið á. En það veitti líka fyrirtækjum afsökun í vor til þess að nýta sér 7% hækkun launa, t.d. eins og í verslun, og nota bene, launakostnaður hjá versluninni er svona holt og bolt um 18%, þannig að þessi 7% hækkun á 18% kostnaði varð mönnum tylliástæða til þess að hækka hér vöruverð um allt að 10–15%. Síðan heldur seðlabankastjóri áfram að kynda undir kostnaðarverðbólgunni sem hann kom á með því að segja eins og um daginn þegar hér lækkaði vísitala milli mánaða: Hún kemur nú samt. Það eru akkúrat skilaboðin sem maður þarf að heyra frá seðlabankastjóra einnar þjóðar, er það ekki?
En það eru allar kringumstæður nú til þess að halda áfram að lækka vöruverð. Krónan hefur styrkst og nokkur fyrirtæki hafa blessunarlega lækkað vöruverð, t.d. Ikea, Myllan og nú síðast Bónus um 5%. En það þarf meira til. Það er innstæða fyrir meiru vegna þess að styrking krónunnar er meiri en þessu nemur. Og það þarf fleiri til þess að hoppa á þennan vagn. Ef það verður gert er okkur ekkert að vanbúnaði að halda þeim stöðugleika í verðlagi sem hér hefur verið blessunarlega síðastliðin missiri.
Þess vegna vil ég nota þetta tækifæri og skora á alla þá sem koma að verðmyndun í landinu að taka sér þessi fyrirtæki til fyrirmyndar og lækka verð í samræmi við styrkingu krónunnar.“
Þorsteinn Sæmundssoní störfum þingsins, 21. október 2015.