Categories
Fréttir

„Landfræðilegur munur á viðhorfi og framboði til fjarnáms á háskólastigi“

Deila grein

23/03/2023

„Landfræðilegur munur á viðhorfi og framboði til fjarnáms á háskólastigi“

„Niðurstöðurnar eru skýrar – það er landfræðilegur munur á viðhorfi og framboði til fjarnáms á háskólastigi,“ sagði Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins, um svar háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn hennar um fjölda nemenda í háskólum á Íslandi og um framboð á fjarnámi.

„Ef við horfum á hvern háskóla fyrir sig verð ég að byrja á því að hrósa Háskólanum á Bifröst og Háskólanum á Akureyri fyrir að bjóða upp á alla sína áfanga í fjarnámi. Einnig eru um 70% nemenda í Landbúnaðarháskólanum skráð í fjarnám og í Háskólanum á Hólum er hægt að stunda fjarnám í öllum bóklegum áföngum,“ sagði Lilja Rannveig.

„Þetta er vel hægt – þetta er spurning um viðhorf“

„Í skólunum á höfuðborgarsvæðinu, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Listaháskóla Íslands, eru rúmlega 80% allra áfanga á háskólastigi sem í boði eru á landinu. Af þeim áföngum er einungis hægt að taka 11% í fjarnámi,“ sagði Lilja Rannveig.

„Viðhorfsbreytinga er þörf“

„Við viljum hafa búsetu hringinn í kringum landið og við eigum ekki að þurfa að neyða fólk til að flytjast búferlaflutningum til þess eins að stunda nám nema það sé nauðsynlegt fyrir námsframvindu, eins oft í verklegum fögum. Þess má geta að þetta er líka stórt lýðheilsumál. Rannsóknir sýna að skert aðgengi að menntun getur leitt til verri heilsu. Aukið aðgengi að menntun er eitt af verkfærum okkar til að auka jöfnuð í landinu og fjarnám er ein besta leiðin til þess,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.


Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:

„Hæstv. forseti. Í vikunni fékk ég svar frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn minni um fjölda nemenda í háskólum á Íslandi og um framboð á fjarnámi. Niðurstöðurnar eru skýrar; það er landfræðilegur munur á viðhorfi og framboði til fjarnáms á háskólastigi. Ef við horfum á hvern háskóla fyrir sig verð ég að byrja á því að hrósa Háskólanum á Bifröst og Háskólanum á Akureyri fyrir að bjóða upp á alla sína áfanga í fjarnámi. Einnig eru um 70% nemenda í Landbúnaðarháskólanum skráð í fjarnám og í Háskólanum á Hólum er hægt að stunda fjarnám í öllum bóklegum áföngum. Þetta er vel hægt. Þetta er bara spurning um viðhorf. Í skólunum á höfuðborgarsvæðinu, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Listaháskóla Íslands, eru rúmlega 80% allra áfanga á háskólastigi sem í boði eru á landinu. Af þeim áföngum er einungis hægt að taka 11% í fjarnámi. Viðhorfsbreytinga er þörf. Við viljum hafa búsetu hringinn í kringum landið og við eigum ekki að þurfa að neyða fólk til að flytjast búferlaflutningum til þess eins að stunda nám nema það sé nauðsynlegt fyrir námsframvindu, eins oft í verklegum fögum. Þess má geta að þetta er líka stórt lýðheilsumál. Rannsóknir sýna að skert aðgengi að menntun getur leitt til verri heilsu. Aukið aðgengi að menntun er eitt af verkfærum okkar til að auka jöfnuð í landinu og fjarnám er ein besta leiðin til þess.“