Categories
Fréttir

Landgræðsla – nýmæli um landgræðsluáætlun

Deila grein

14/12/2018

Landgræðsla – nýmæli um landgræðsluáætlun

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, fór yfir í ræðu á Alþingi í dag, frumvarp um landgræðslu. Markmið með nýjum lögum er að vernda, endurheimta og bæta þær auðlindir þjóðarinnar sem fólgnar eru í gróðri og jarðvegi og tryggja sjálfbæra nýtingu lands.
„Með þessu frumvarpi um landgræðslu verða mjög mikilvæg tímamót þar sem þau koma í stað 50 ára gamalla laga um landgræðslu og jafnframt í stað laga gegn landbroti,“ sagði Líneik Anna.
„Landgræðsla er mjög mikilvæg fyrir okkur til að varðveita þá auðlind sem jarðvegur og gróður er í landinu. En landgræðslan er líka mikilvæg á heimsvísu. Því að við hér höfum í gegnum árin flutt út þekkingu sem nýtist annarsstaðar í heiminum þar sem landeyðing er mjög víða mikið vandamál, sérstaklega í Afríku, svo að sú heimsálfa sé nefnd, en einnig í Mið-Asíu og víðar. En hingað hafa þessar þjóðir sótt sér þekkingu í gengum Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna, sem er sú stofnun sem vinnur gegn landeyðingu í heiminum og horfir til þess hvernig við Íslendingar höfum nálgast þau mál,“ sagði Líneik Anna.
Ræða Líneikar Önnu Sævarsdóttur, alþingismanns, á Alþingi 14. desember 2018.

Landgræðsluáætlun er nýmæli fest í sessi í frumvarpinu og er ætlað að kveða á um framtíðarsýn og stefnu stjórnvalda í landgræðslu með hliðsjón af markmiðum um:

  • hvernig nýting lands styður best við atvinnu og byggðir í landinu,
  • hvernig gæði lands eru best varðveitt og
  • hvernig efla megi og endurheimta vistkerfi sem skert hafa verið og koma með tillögur um breytingar á nýtingu lands, t.d. friðun fyrir tiltekinni nýtingu þar sem það á við.

Einnig á að nýta betur fjármagn og mannafla og samþætta áætlunina við aðrar áætlanir ríkis og sveitarfélaga sem og alþjóðlegar skuldbindingar.
„Áætlunin getur verið leiðbeinandi fyrir aðalskipulagsvinnu sveitarfélaga. Í raun er gert ráð fyrir að sveitarfélög geti tekið upp áform um landgræðsluáætlun við endurskoðun aðalskipulagsáætlana sinna.
Gert er ráð fyrir að áætlunin þurfi að fara í gegnum umhverfismat áætlana þar sem hún getur falið í sér mörkun stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum og einnig þarf hún að taka mið af landsskipulagsstefnu,“ segir í greinargerð.