Hjálmar Bogi Hafliðason, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, segir íslenskt samfélag hafa ,,náð stórkostlegum árangri varðandi vímuefnaneyslu ungs fólks með markvissum hætti. Árið 1998 höfðu 48% ungmenna í 10. bekk neytt áfengis síðastliðna 30 daga. Sú tala stendur nú í 5%. Sömuleiðis hefur dregið verulega úr reykingum á sígarettum.” Þetta kom fram í störfum þingsins á Alþingi í dag.
Frá árinu 1995 hefur með markvissum hætti verið rannsakaðir hagir ungs fólks. Rannsóknir og greining heldur utan um þessa könnun og grunnskólar landsins framkvæmir hana en rannsóknin er unnin fyrir mennta- og menningarmálaráðuneyti.
,,Nýlega birtust okkur niðurstöður könnunarinnar Ungt fólk 2018 sem varðar hagi nemenda í 8., 9. og 10. bekk. Ég vil hvetja ráðherra, þingmenn og sveitarstjórnarfulltrúa til þess að nýta þessar niðurstöður og horfa til þeirra þegar kemur að ákvarðanatöku en í skýrslunni er samanburður frá árinu 2000,” sagði Hjálmar Bogi.
Skoðum helstu niðurstöður:
Almennt dregur úr skipulegu félags- og tómstundastarfi.
Hlutfallslegur fjöldi ungmenna sem fara í partí hefur dregist saman.
Á sama tíma hefur dregið úr aðsókn í félagsmiðstöðvar.
Um fjórði hver nemandi í 9. og 10. bekk ver engum tíma í lestur utan skóla. Samvera með foreldrum eykst.
Hlutfall foreldra sem fylgjast með því hvar börnin þeirra eru hefur hækkað.
Ungmennum sem fara út eftir kl. tíu á kvöldin fækkar verulega.
Sömuleiðis fækkar ungmennum sem fara út eftir miðnætti.
Koffínneysla hefur aukist talsvert.
Ungmennum, sérstaklega drengjum, sem finnst námið sitt tilgangslaust fjölgar og sömuleiðis fjölgar ungmennum sem leggja minni rækt við nám sitt.
Og ungmenni vinna mjög mikið með náminu.
,,Þetta er hægt. Það er hægt að ná árangri ef við látum okkur unga fólkið varða og viljum gera betur. Langflest ungmenni í samfélaginu okkar eru okkur til mikils sóma. Höldum því á lofti og gerum enn betur,” sagði Hjálmar Bogi.