Categories
Fréttir

Óvissa og erfiðleikar hjá nautgripabændum vegna stefnuleysis Kristjáns Þórs

Deila grein

15/10/2019

Óvissa og erfiðleikar hjá nautgripabændum vegna stefnuleysis Kristjáns Þórs

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, segir óvissu og erfiðleika vera hjá nautgripabændum vegna stefnuleysis Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ekki hefur enn borið á á viðbrögðum stjórnvalda frá því að samráðshópur Kristján Þórs skilaði af sér tillögum í febrúar eða fyrir átta mánuðum. Þetta kom fram í störfum þingsins á Alþingi í dag.
,,Þetta hefur skapað óvissu hjá bændum og frost hefur ríkt á mjólkurkvótamarkaðnum. Þetta hefur valdið erfiðleikum, m.a. við nýliðun. Þeir sem hafa verið í uppbyggingu með aukningu í huga geta ekki nálgast framleiðslurétt til þess. Segja má að bændur hafi lokast inni í þessum aðstæðum,” sagði Halla Signý.
,,Könnun var gerð meðal bænda og þá voru 90% á því að halda óbreyttu ástandi áfram, þ.e. að halda í greiðslumarkið í mjólk. Sú niðurstaða ber auðvitað keim af því að ekki er komin fram nein önnur stefna sem er betri eða valkostur við núverandi kerfi heldur dvelja þeir áfram í óvissunni,” sagði Halla Signý.
Í gildandi búvörusamningum er samningur um starfsskilyrði nautgriparæktar frá 2016. Sá samningur felur í sér stefnumörkun um breytingar á því kerfi sem hefur verið við lýði síðasta aldarfjórðung.

Meginstefið er að greiðslumark í mjólk ætti að fjara út á samningstímanum, bæði sem viðmiðun fyrir beingreiðslur og kvóti sem tryggir forgang á innanlandsmarkaði.
Önnur markmið samningsins eru að efla íslenska nautgriparækt, skapa greininni sem fjölbreyttust sóknarfæri og búa hana undir áskoranir næstu ára.
Samningnum er ætlað að hvetja til þróunar og nýsköpunar í greininni með heilnæmi og gæði afurða, velferð dýra og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.
Á þessu ári á að endurskoða hvort markmiðum samningsins hafi verið náð og hvort ástæða sé til að gera á þeim breytingar og að sú ákvörðun sem stefnt var að um afnám kvótans árið 2021 verði tekin til endurskoðunar.

,,Þess vegna skora ég á ráðherra að gera skurk í þessum málum og leysa þennan hnút,” sagði Halla Signý.